Átök undir Grindavík

Það kemur manni eiginlega alveg á óvart að skjaldarmerki Grindavíkur er útlendur geithafur.  Af hendi náttúrunnar er flest auðæfi hér að sækja til hafsins, en ekki til hins hrjóstuga lands og svo hefur verið alla tíð.  Manni skilst að hér hafi menn þurft að reita lyng og rífa hrís sér og sínum skepnum til viðurværis til forna. Björgin kom öll úr hafinu. Eðlilegra hefði nú verið að setja grindhvalinn eða marsvín á skjaldarmerkið, því heitið Grindavík er tvímælalaust tilvísun til smáhvala sem kunna að hafa hlaupið hér upp í fjöru.  Manni dettur einmitt í hug að grindhvalir hafi gengið upp á þessar breiðu og víðtæku fjörur sem liggja suðvestan bæjarins, þar sem eru Malarendar, Litlabót og Stórabót.   

Á þessu svæði, í grennd við Gerðavelli, er ein mikil sprunga í jarðveginum, sem hefur SV stefnu og er tvímælalaust framhald til suðurs af sprungum og sigdal sem fjallað hefur verið um í norðvestur hluta Grindavíkurbæjar (sjá fyrri myndina). Malarendar Þetta kemur vel fram á þeirri  ljósmynd sem prýðir forsíðu Grindavíkur á netinu. Um 500 m vestar er önnur samhliða sprunga, sem liggur á haf út þar sem er Bergsendi og Klaufir (sjá seinni myndina). Bergsendi
Sá sem þetta ritar hefur ekki aðgang að þessu bannsvæði til könnunar, eins og flest venjulegt fólk, en vonandi komast  aðrir vísindamenn með leyfi yfirvalda inn á þessar slóðir til að kanna syðstu merki um sigdal og sprungukerfi Grindavíkur.  Það er einmitt hér sem mestar líkur eru á að kvika renni út úr ganginum og til sjávar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband