Er gullgrafaraæðinu að ljúka?

Það hófst árið 1966, er íslenska ríkið samdi við svissneska fyrirtækið Alusuisse um lýgilega ódýrt orkuverð til álbræðsluvers í Straumsvík. Þar með var alheim gert kunnugt að á Íslandi væri hægt að semja við ríkisstjórn um hræódýra orku og að það væri ríkisstjórn sem hefði engar áhyggjur af mengun og náttúruspjöllum, allt í þágu stóriðjustefnu. Í kjölfarið fylgdu álver Fjarðaál í Reyðarfirði og Norðurál á Grundartanga, en í heild taka álverin um 75% af allri orkuframleiðslu á Íslandi. Græðgin í ódýra orku var svo mikil, að orkuframleiðsla Íslands tvöfaldaðist á aðeins fimm árum, frá 2002 til 2007. En á meðan fóru öll viðskiptin við álframleiðendur fram á leyndu orkuverði, sem ríkistjórnin ein veit um.  

Nú berast okkur fregnir að áform um enn eitt stóriðjuver séu að renna út í sandinn: það er fyrirhuguð sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga. Á sama tíma er búið að loka kísilveri United Silicon í Helguvík vegna stórfelldar mengunar. Íslendingar eru loksins að átta sig á að hemjulaus stóriðja er ekki endilega rétta lausnin til velferðar. Það eru ýmsar aðrar og ómengandi leiðir til efnahagslegrar þróunar, eins og ferðaiðnaðurinn hefur bent sterkelga á. Vonandi erum við nú að hætta þessu gullgrafaraæði sem hófst í Straumsvík, enda tími til kominn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Ekki var nú samningurinn verri en svo að álverið borgði alla virkjunina á tiltölulega fáum árum. Orkan hefur verið til frjálsrar ráðstöfunar síðan þá, en reyndar verið seld álverinu á miklu hærra verði en í fyrstu. En til þess bar engum skylda til.

Mér sýnist gullgrafaraæði hins vegar lýsa ferðamennskunni býsna vel og ágangur á náttúruna með tilheyrandi mengun. - Það er vandlifað.

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 13:23

2 identicon

Sæll Haraldur

Er það ekki heldur grunnhyggið að stilla upp ferðamannaiðnaði sem mengunarlitlum valkosti við stóriðjuver? CO2 losun vegna flugferða tveggja milljóna manna til landsins er t.d. á við losun margra kísilvera. (Losun í háloftunum er einnig mun verri með tilliti til skaðsemi á lofthjúp jarðar heldur en losun á jörðu niðri). Því til viðbótar er gríðarleg skaðsemi á íslenskri náttúru af völdum átroðnings tveggja milljóna ferðamanna á ári(og fleiri ef fram fer sem horfir).

H

Halldor G. Svavarsson (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 14:54

3 identicon

Sæll Haraldur

Er það ekki heldur grunnhyggið að stilla upp ferðamannaiðnaði sem mengunarlitlum valkosti við stóriðjuver? CO2 losun vegna flugferða tveggja milljóna manna til landsins er t.d. á við losun margra kísilvera. (Losun í háloftunum er einnig mun verri með tilliti til skaðsemi á lofthjúp jarðar heldur en losun á jörðu niðri). Því til viðbótar er gríðarleg skaðsemi á íslenskri náttúru af völdum átroðnings tveggja milljóna ferðamanna á ári(og fleiri ef fram fer sem horfir).

H

Halldor G. Svavarsson (IP-tala skráð) 19.9.2017 kl. 16:51

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki gleyma að Álverið í Straumsvík er líka að "hóta" því að loka. Líklega eru einhverjar gruggug markmið að baki þar, enda er það gömul saga að storiðja beiti slíkum þumalskrúfum. Síðast gerði sama álver sömu hótun, þegar íbuar á svæðinu settu sig gegn stækkun. 

Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2017 kl. 19:16

5 Smámynd: Ólafur Als

Kæri Haraldur,

það er í raun með ólíkindum að lesa sumt sem þú setur hér fram. Sumt er beinlínis rangt en annað með lagi öfga. Sögu álversins í Straumsvík hefði maður haldið að reyndur vísindamaður á þínum aldri þekkti betur til. Tilurð Straumsvíkurálversins var því háð, m.a., að AGS lánaði fé til uppbyggingar Búrfellsvirkjunar, sem og tiltölulega ódýrt raforkuverð. Annað var ekki í stöðunni mögulegt á þeim tíma. Síðan þá hefur sú framkvæmd margsannað sig sé horft til arðsemi, orkuöryggis og uppbyggingar dreifikerfis fyrir landsmenn. Þessi virkjun, sem hefur að vísu verið stækkuð síðan, hefur malað gull fyrir Landsvirkjun, íslenska ríkið og landsmenn alla. 

Það er rétt að halda því til haga að það leið of langur tími þar til Íslendingar gátu farið að semja um betra verð á raforkunni. Lágur verðmiði og það hve orkan er umhverfisvæn hefur ekki orðið til þess að biðlistar hafi myndast við dyr stjórnvalda eða orkuframleiðenda. Fyrir ekki mörgum árum ákváðu stórtækir aðilar að reisa gríðarlega stórt gagnaver á meginlandi N-Ameríku í stað þess að byggja það á Reykjanes þrátt fyrir lægra orkuverð og fullvissu um öryggi í orkuflutningum. 

Ég hef lengi litið svo á að það sé ein frumskylda Íslendinga að virkja sem mest þá umhverfisvænu orku sem eyjan okkar hefur upp á að bjóða. Einnig jarðvarmann, þó svo að hann sé ekki mengunarlaus. Það yrði okkar helsta framlag til umhverfis- og laftslagmála. Í hvað orkan færi er annað umræðuefni - en Íslendingar geta vitanlega ekki skorast undan að taka þátt í iðnaði heimsins með því að leggja honum til orku á meðan við njótum "ávaxta" hans á öllum sviðum. Iðnaði fylgir mengun og fái hann orku frá okkur dregur úr þrýstingi á að nota jarðefnaeldsneyti annars staðar. Þegar sumir ræða um ósnerta náttúru landsins eru þeir að fara með fleipur eða eru vísvitandi að afvegaleiða umræðuna. Náttúra landsins er að mestu snortin af ágangi manns og skepna. 

Ólafur Als, 20.9.2017 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband