Eru afkomendur Thule fólksins í Ammassalik?
24.7.2017 | 05:46
Í síðasta bloggi fjallaði ég um hvernig heill þjóðflokkur af Thule fólki á norðaustur Grænlandi hvaf árið 1823. Breski skipstjórinn Clovering hitti tólf manna hóp þeirra á eyju þar sem skilyrði til veiða voru best. Næsta dag voru þeir allir horfnir. Héraðið var mannlaust á eftir, í nákvæmlega eitt hundrað ár, þar til Danir fluttu 85 manna hóp af Inuitum, nauðuga -- viljuga, 70 frá Ammasalik og 15 frá vestur Grænlandi, til Scoresbysunds og settu á laggirnar nýja þorpið Ittoqqortomiit.
Hvert fóru þeir, eða dó stofninn hreinlega út vegna sjúkdóma, við smit frá evrópskum hvalföngurum? Fundur á nokkraum dauðahúsum (rústir þar sem mannaleifar finnast innan húss, ógrafnar) bendir til mikilla sjúkdóma eða sults.
Suður mörk þessa svæðis Thule fólksins á norðaustur Grænlandi eru eins og jökulveggurinn í Game of Thrones: nær algjörlega ófær. Þetta er fjallgarður úr blágrýti eða gömlum basalt hraunlögum. Hann ber nafnið Geikie Plateau, og er þar hvergi lendingu að fá. Austur oddi á Geikie Plateau fjallgarðinum er Kap Brewster. Það beygir ströndin skarpt til suðurs, en samfellt hamrabelti kallað Blosseville ströndin, tekur við í mörg hundruð kílómetra til suðurs. Hvergi er lendingu aða skjól að fá á þeirri strönd. Thule fólk fór þá yfirleitt lítið eða ekkert sunnar en Scoresbysund. Fólksflutningar fóru fram á sjónum eða á hafís, ekki yfir fjöll og firnindi.
Það eru samt heimildir sem sýna að Thulefólk fór búferlum frá Scoresbysundi og alla leið til Ammassalik (Tasiilaq), 850 kílómetra langa leið, og á afkomendur þar í dag. Það var árið 1884 að kaptainn Gustav Holm kom til Ammassalik, fyrstur evrópumanna, en leiðangur hans fór á konubátum (umiaq) frá vestur Grænlandi og fyrir suður odda Grænlands og réru þeir síðan up með norðaustur ströndinni þar til þeir koma til Ammassalik. Þar uppgötvar Holm byggð Inuita sem höfðu verið algjörlega einangraðir frá Evrópumönnum um aldur og ævi. Þetta var og hafði lengi verið eina byggðin á allri austurströnd Grænlands þar til Ittooqortomit nýlendan var stofnuð í Scoresbysundi árið 1924. Það kom strax í ljós að íbúar Ammassalik voru sérstæðir. Þeir höfðu til dæmis ólíkan framburð Grænlenskunnar.
Trúboðar setja upp búðir í byggðinni árið 1894 og byrjuðu að kristna fólkið. Einnig kemur danska stjórnin upp verslunardtöð það ár. Það var árið 1905 sem danski mannfræðingurinn William Tahlbitzer kemur til Ammassalik og dvelur yfir eitt ár í þorpinu. Þá voru 470 íbúar á Ammassalik svæðinu og nær allir hétu þeir heiðnum nöfnum. Fólkið var enn á steinöldinni hvað snertir menningu og tækni. Verslunarmiðstöð danska ríksins og kirkjan urðu smátt og smátt miðpúnktar þjóðlífsins fyrir íbúana.
Tahlbitzer sýndi fram á að í Ammassaliq ríkir mállýska sem er mjög ólík þeirri sem ríkir á vestur strönd Grænlands. Tahlbitzer gerði mjög merkar athuganir á íbúum og skráði hina ýmsu þætti í menningu þeirra. En hann tók líka myndir. Hér með fylgir ein af myndum Tahlblitzers, sem er tekin af fjölskyldu í sumarbúðum á Kap Dan, á suður enda Kulusuk eyjar. Það er angakokinn eða galdramaðurinn Ajukutoq sem stendur hér fyrir miðju, ber að ofan, með konu sinni Söru til vinstri og hinni konu sinni Helenu og fimm börnum þeirra. Hárgreiðsla kvennana, með stóran topphnút og strengi af hvítum og lituðum glerperlum, er sérstök og einkennandi fyrir þetta svæði. Hnúturinn er mikið tískufyrirbæri, sem hækkar konurnar og gerir þær tignarlegri, eins og íslenski skautbúningurinn gerði. Myndin er algjörlega klassísk sem listræn ljósmynd, en hún gefur einnig innsýn í horfna menningu, sem heyrði steinöldinni til. Galdrakarlinn Mitsuarnianga sagði Tahlbitzer sögur af ferðum forfeðra sinna frá norðaustur Grænlandi og suður til Ammassalik, en langafi hans tók þátt í þeirri ferð, þegar hópar Inuita fóru frá Scoresbysund svæðinu og all leið suður til Ammassalik í lok átjandu aldar eða í byrjun nítjándu aldar. Sennilega sigldu þeir þessa leið á umiaq eða konubátum. Tunu er Grænlenskt orð sem þýðir hin hliðin, og vísar það til austur Grænlands, en íbúar austurstrandarinnar eru oft kallaðir Tunumiuts. Ég þakka Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fyrir aðstoð með myndefni.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Grænland, Mannfræði | Facebook
Athugasemdir
Þakka þessa pistla Haraldur. Lauge Koch talar um það eins og sjálfsagt mál að inúítar hafi lengi átt búsetu í kringum Kangerlussuaqfjörð, suður af Blossevilleströnd. Hann segir þá hafa einangrast frá Ammasaliksvæðinu um 1600 en ekki horfið fyrr en eftir 1800. - Hann telur líka að menn hafi frekar yfirgefið Norðausturgrænland heldur en soltið þar til bana. Landi hans, Mikkelsen, hafði í leiðangri sínum á þessar slóðir 1932 fundið fjölmargar húsarústir (þar sem heitir Uttentalsund) - og í þeim fjölmörg bein. Dró hann þá ályktun af því að búsetan hefði endað illa. - En miklar sagnir voru í Ammassalik um hagstæðar selveðislóðir í norðri. - Svisslendingurinn Brandi telur að við Dødemansbugten á Claveringeyju hafi Thulemenn að norðan og Inugsukmenn að sunnan mæst - þar taldi hann sig finna leifar beggja menningarsamfélaga - samtímis. - Árið 1828 komst danski sjóliðsforinginn Wilhelm Graah nærri því til Kap Dan (og Ammasalik) að sunnan - mun hugsanlega hafa séð þangað - og á leiðinni hitti hann allmarga inútíta - en komst þó ekki í meginbyggðirnar eins og Holm meir en hálfri öld síðar. Ensk þýðing af ferðarollu hans er aðgengileg á netinu: „Narrative of an expedition to the east coast of Greenland“. Auðvitað var aðaltilgangur ferðarinnar að leita að Eystribyggð hinni fornu - Graah taldi hins vegar víst að hún hefði verið þar sem við nú vitum að hún var - og gerir í viðhengi bókarinnar ítarlega grein fyrir þeirri skoðun sinni. Inúítar af austurströndinni munu stöku sinnum hafa farið í krambúðarferðir suður fyrir Hvarf á 19. öld - til að ná sér í eldspýtur og þess háttar. - Langir voru þeir leiðangrar - en virtust lítið mál fyrir þessa merku þjóð sem ætíð hafði nægan tíma.
Trausti Jónsson, 24.7.2017 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.