Mýragas vex hraðar í lofthjúp
29.12.2016 | 13:02
Mýragas eða metan hefur efnafræðitáknið CH4 og er mikilvægt í náttúrunni. Gasið berst frá jörðu og upp í lofthjúp jarðar, þar sem gasið veldur hnattrænni hlýnun líkt og koltvíoxíð. En þar er metan hlutfallslega miklu virkara en koltvíoxíð. Talið er að hver sameind af metan sé um 30 sinnum virkari en koltvíoxíð, en það er miklu minna af metan í lofthjúpnum (um 2 hlutar af milljón á móti um 400). Metan hefur hækkað í andrúmsloftinu síðan iðnbyltingin hófst, en af einhverjum ástæðum vex það nú með meiri hraða síðan 2007, eins og fyrsta mynd sýnir, eftir E.G. Nisbet. Frá 2007 til 2013 óx metan um 5.7 ppb á ári, en svo varð stökkbreyting árið 2014 og þá óx metan um 12.5 ppb það árið. Hvað veldur þessu? Önnur mynd sýnir að dreifing metan er ójöfn í tíma og rúmi á jörðu. Á myndinni merkir grænt, gult og rautt hækkun, en blátt, dökkblátt og fjólublátt lækkun á metan. Rannsóknir á samsætum af kolefni í metan gasi sýna að þessi hækkun er ekki vegna jarðefna, olíu eða kola heldur er hún lífræn að uppruna. Þessi mikla og skyndilega aukning metan er stór ráðgáta fyrir vísindin í dag. Getur það verið vegna losunar af mýragasi úr sífreranum í norðri, eða vegna bráðnunar á metan ís sem finnst í seti á hafsbotni eða meiri rotnunar gróðurs í hitabeltinu? Enginn veit, en það er greinilegt að mikil breyting er í gangi og jafnvel stökkbreyting.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðefni, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er búið að vita löngu áður en þeir fóru að rífast um hlýnun jarðar. Hefðu menn tekið á Metan áhrifunum strax fyrir 20 árum þá kannski hefði það hjálpað en auðvita spurning.Hér á landi var engin áhugi á að nýta metan gas á sveitabýlum sem hefðu verið sjálfbær með alla orkuþörf en þá hefði jarðefna innflutningurinn minnkað og bæði ríki og fyrirtæki tapað. Bandaríkjamenn nýta þessa orku frá býlum og beint úr jarðgas borholum og breyta strax í rafmagn sem tengt er inn á línurnar. Wyoming og fleiri ríki er þetta mjög sjáanlegt meðfram þjóðvegum. Það væri gaman ef einhver gæti reiknað út hve mikil metan orka sem framleiðist að mannavöldum fer út í andrúmsloftið.
Valdimar Samúelsson, 29.12.2016 kl. 14:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.