Hvað gerðist árið 536?

10584_2016_1648_fig3_html.jpgÞað gerðist eitthvað á jörðu árið 536, sem er enn dularfull ráðgáta. Ritaðar heimildir skýra frá miklu skýi á himni. Rannsóknir á fornum trjám sýna að trjáhringir eru óvenju þunnir á þessum tíma, í Norður Evrópu, Mongólíu, vestur hluta Norður Ameríku. Uppskerubrestur varð og hungursneyð ríkti, en sumir telja að hið síðara sé tengt plágunni, sem byrjaði að geisa á þessum tíma. Margir hafa stungið uppá að mikill loftsteinn hafi hrapað til jarðar þetta ár, en engin vegsummerki hafa fundist enn. L.B. Larsen og félagar hafa sýnt fram á að ískjarni frá Grænlandi inniheldur töluvert magn af brennisteini frá um árið 536 og 540. Það rennir stoðum undir þá kenningu að þá hafi tvö mikil eldgos haft djúp áhrif á veðurfar á norður hluta jarðar. Annað gosið varð þá um 536 en hitt um 540 A.D.  Trjáhringir benda til að árið 536 hafi verið kaldasta árið síðastíðin tvö þúsund ár.

Í Rómarborg og í Miklagarði tóku menn fyrst eftir skýinu mikla í mars árið 536, en það varði í 12 til 18 mánuði. Bæði gosin virðast hafa verið svipuð að stærð og gosið mikl í Tambora árið 1815. Matthew Toohey og félagar hafa reiknað út líkan af loftslagsár-hrifum frá þessum eldgosum og niðurstaðan er sýnd í fyrstu myndinni. Þar kemur fram um 2 stiga kólnun á norðurhveli jarðar eftir þessi gos. Ekki er vitað hvaða eldfjöll voru hér í gangi, en grunur leikur á að gos í El Chichon eldfjalli í Mexíkó hafi valdið hamförunum miklu árið 540 AD.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Haraldur og takk fyrir þetta og annan fróðleik.
Mér sem leikmanni datt í hug að spyrja hvort þið vísindamenn sjáið efnafræðilegan mun á leifum eldgosa í t.d. borkjörnum úr Grænlandsjökli og svo því sem leiðir af árekstrum við stóra loftsteina?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl. 14:42

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Já, loftsteinsárekstrar skilja ekki eftir brennistein í ískjörnum.

Haraldur Sigurðsson, 25.11.2016 kl. 15:05

3 identicon

 Af því að ég er latur þá nenni ég ekki að gá að heimildinni en man ekki betur en að Snorri Sturluson lýsi því í Heimskringlu hvernig Æsir letnu í þriggja ára harðæri, fórnuðu fyrsta árið yxnum, annað árið mönnum og þriðja árið  konunginum sjálfum, Dómalda. 

Ekki þarf mikið að hafa skolast til á sex hundruð árum þó þarna hafi verið harðæri af báðum gosunum 536 og 540. 

Snorri klikkar ekki!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.11.2016 kl. 17:10

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk fyrir Haraldur, mjög áhuga vert.

Hrólfur Þ Hraundal, 25.11.2016 kl. 23:27

5 identicon

Gæti ekki gosið árið 536 hafa orðið undir jökli þannig að það skilji engin ummerki eftir sig?

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 28.11.2016 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband