Eldfjallagas spáir fyrir um Eldgos
23.11.2016 | 12:46
Eldfjallafræðinga hefur lengi dreymt um aðferð til að spá fyrir um eldgos, en þetta hefur satt að segja ekki gengið vel. Við vitum að jarðskjálftavirkni undir ldfjalli eykst fyrir gos, og varar okkur við að órói er í gangi, en spáir ekki beint um hvenær gos verði. Ein aðferð er sennilega sú besta, en það er InSAR (Interferometric Synthetic Aperture Radar). Sú tækni er byggð á tíðum mælingum frá radar í gervihnöttum og mælir breytingar á yfirborði jarðar. Þannig er mál með vexti að þegar kvika leitar upp í eldfjallið úr möttlinum, þá þenst fjallið út, það lyftist upp og radar í gervihnöttum mæla breytinguna. Fjallið verður ólétt og það ger á sjá á henni. En InSAR er mjög dýr aðferð og ekki á allra færi að komast yfir slík gögn. Nú er önnur aðferð, sem kann að reynast vel, en það er eldfjallagas. Það er algengt að gasútstreymi eykst rétt fyrir gos, en nýjar mælingar sýna að ef til vill breytist efnsasamseting á gasinu fyrir gos, og gefur möguleika til að spá gosi. Undanfarin þrjú ár hefur eldfjallið Turrialba í Costa Rica í Mið-Ameríku sýnt óróa og smá gos. Myndin sýnir mælingar á gasi sem streymir upp úr eldfjallinu. Það er hlutfallið C/S eð hlutfallið milli kolefnis og brennisteins, sem er mælt og sýnt blátt á myndinni. Gulu svæðin á myndinni sýna gos. Takið eftir að C/S hlutfallið eykst yfir fimm og upp undir tíu rétt fyrir gos. Þessar mælingar eru gerðar með tæki sem er stillt upp á gígbrúninni og sendir gögnin til rannsóknarstöðvar í öruggri fjarlægð. Þótt við vitum að það verður breyting á C/S rétt fyrir gos, þá vitum við satt að segja ekki hvers vegna það gerist. Gasið sem streymir upp er mikil blanda af efnum, sem hafa ýmiskonar uppruna. Sumt er gas sem losnar út úr kvikunni, sumt er gas sem losnar úr berginu umhverfis, þegar það hitnar osfrv. En samt sem áður er hér að finna góða aðferð til að spá fyrir um gos. Ekki er mér kunnugt um að þessari aðferð hafi verið beitt á Íslandi enn.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallagas, Eldgos | Facebook
Athugasemdir
Veðurstofan rekur síritandi MultiGAS mæli á toppi Heklu. Hann mælir hlutfallslegan styrk CO2, SO2, H2 og H2O. Ég veit ekki til þess að fleiri slíkir mælar séu á föstum mælistöðum á landinu en a.m.k. einn færanlegur mælir var notaður í Holuhraunsgosinu.
Finnbogi Óskarsson (IP-tala skráð) 23.11.2016 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.