Afdrifarík fæðing íslenska heita reitsins
13.9.2016 | 15:31
Heiti reiturinn sem nú er undir Íslandi spratt fyrst upp á yfirborð jarðar samstundis og mesti útdauði lífríkis varð á jörðu. Er samband þar á milli? Það eru merk tímamót í jarðsögunni, þegar Perm tímabilinu lýkur og Trías hefst fyrir um 252 milljón árum. Þá dó út skyndilega um 96% af öllu lífi í sjónum og mikill hluti alls lífríkis á landi. Þessi tímamót eru svo mikilvæg að steingervingafræðingarnir kalla þau Stóra Dauða. Myndin sýnir áhrifin á lífríkið í heild, en lárétti ásinn eru milljónir ára og lóðrétti ásinn er fjöldi tegunda lífríkisins.
Jarðfræðingar eru allir sammála um mikilvægi þessa tímamóta í jarðsögunni en það eru mjög skiftar skoðanir um hvað gerðist til að valda þessum útdauða. Fyst í stað töldu þeir að mikill árekstur loftsteins á jörðu væri orsökin, svipað og útdauðinn mikli á mörkum Krítar og Tertíer fyrir um 65 milljón árum. En enginn stór loftsteinsgígur hefur fundist sem gæti skýrt Perm-Trías útdauðann. Það má þó ef til vill skýra með því að ef til vill hefur sá gígur eyðst eða horfið af yfirborði jarðar niður í sigbelti.
Önnur kenning og vinsælli nú um Stóra Dauða er sú, að stórbrotin eldgos í Síberíu hafi svo mengað haf og loft að lífríki hrundi á jörðu. Fyrir 252 milljón árum hófust eldgos í Síberíu sem mynduðu hraunbreiðu sem hefur sama flatarmál og öll Bandaríkin. Þetta er mesta eldvirkni á jörðu og kemur kvikan upp úr heita reitnum sem nú situr undir Íslandi. Við vitum að eldgos geta valdið hnattrænni kólnun vegna slæðu af brennisteinsefnum, sem umlykja jörðina eftir mjög stór eldgos (Tambora 1815). Sumir fræðimenn vilja einnig halda fram þeirri kenningu að koldíoxíð frá eldgosum geti bætt í gróðurhúsaáhrif lofthjúpsins og valdið hnattrænni hlýnun. Enn ein kenning er að hraunvikan sem barst upp á yfirborðið braust upp í gegnum þykk kolalög, með þeim afleiðingum að mikið magn af metan og koldíoxíð gasi barst út í andrúmsloft jarðar. Það orsakaði þá gróðurhúsaáhrif og hnattræna hlýnun sem aldrei fyrr.
Eins og málin standa, þá vitum við að útdauðinn á Perm-Trías gerist á sama tíma og heiti reiturinn fæðist og Síbería logar öll í heitum hraunum, en hingað til hefur ekki tekist að færa sannanir á samband þar á milli.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldgos, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Enn og aftur vil ég hrósa þér fyrir fróðlegan pistil. Hlakka til þess næsta.
Sumarliði Einar Daðason, 13.9.2016 kl. 17:25
Samkvæmt tiltölulega nýlegum fræðsluþætti um sögu jarðar og lífríkis hennar sem sýndur var á National Geographic þá halda þeir sig við það að eldgosið í Síberíu hafi orsakað þennan mikla dauða. Enda kannski ólíklegt að svona risa eldgos og stór loftsteinn falli á jörðina nánast á sama tíma? (Jarðsögulegum tíma).
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 14.9.2016 kl. 20:49
Staðreyndin er sú, að við vitum að stórir loftsteinsárekstrar geta valdið útdauða. Hins vegar vitum við ekki hvernig eða hvort eldgos geti hafs svo djúp áhrif. Fræðimenn giska ýmist á að eldgos valdi mikilli hlýnun, vegna CO útlosunar og hnattrænnar hlýnunar, eða þá a´eldgos valdi hnattrænni kólnun vegna áhrifa brennisteins í andrúmslofti, eins og eftir Tambora gosið 1815.
Haraldur Sigurðsson, 15.9.2016 kl. 22:37
Gæti ekki loftsteinn valdið eldgosi?
Ef hann er nógu öflugur til að ganga í gegnum jarðskorpuna, að heiti reiturinn sé í raun myndaður af loftsteini?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.9.2016 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.