Silicor gerir árás

Ég bloggaði hér um áform Silicor hinn 18. Júlí í fyrra að reisa verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Það vakti töluverða athygli, bæði vegna þess að margir hafa áhyggjur af sölu orku á ódýrasta verði, margir eru á báðum áttum með frekari iðnað og verksmiðjurekstur á Íslandi og einnig vegna hugsanlegrar mengunar frá þessari tegund iðnaðar. En framleiðsla á kísil sólarsellum er fræg fyrir að vera mjög mengandi. Í viðbót er það mín skoðun að efnahagsleg framtíð Íslands líggi ekki í aukinni og vaxandi mengandi stóriðju. Nú er ferðaþjónustan orðin stærsta grein í efnahag landsins. Til að vernda ásynd og nátturu Íslands er mikilvægt að halda iðnaði og mengun í skefjum og draga úr, frekar en bæta við stóriðju.

 Fyrirtækið Silicor hefur frekar ófagran feril í Norður Ameríku og má segja að þeir hafi eiginlega flæmst úr landi. Hvorki Ameríkanar né Kanadamenn vilja lýða mengandi iðnað af þessu tagi og láta því Kínverja um slík skítverk. Ég rakti í blogginu hvernig Silicor, sem hét áður Calisolar, flæmdist frá Kaliforníu, komst ekki inn í Ohio eða Mississippi með verksmiðjur, fór frá Kanada, en virðist nú geta komið sér fyrir á Íslandi. Hér fá þeir ódýra orku og virðast geta mengað eins og þeim sýnist.

 Mér til nokkurrar undrunar svaraði fyrirtækið mér fullum hálsi, með því að gera árás á vefsíðu þá, sem vefritið Wikipedia hefur um mig og mín vísindastörf.   Þar hefur agent eða umboðsmaður Silicor komist inn og skrifað meðal annars að Haraldur Sigurðsson sé virkur í að deila á Banadríkjastjórn, deili á auðveldisstefnu heimsins, á starfsemi Kínverja á Norðurheimsskautinu, og einnig að ég hafi lýst því yfir að ég muni starfa gegn Hilary Clinton, ef hún fer í forsetaframboð.

Þetta virðist skrifað mér til lasta, og Silicor virðist ímynda sér að þessi skrif komi einhverju höggi á mig á þennan hátt. Nú, satt að segja er ég hreykinn af öllum þessum skrifum og tel, sem Bandariskur ríkisborgari til 40 ára að mér sé frjálst og heimilt að koma fram með mínar skoðanir á hverju máli sem er, í riti og í máli. Sem sagt: algjört vindhögg! Ég hef kosið Obama og Bill Clinton, en tel að Hillary sé ekki rétta forsetaefnið nú, vegna spillingar sem hefur komið sér fyrir í herbúðum hennar.  Það eru aðrir ágætir Demókratar sem ég tel hæfari, eins og Elizabeth Warren.

 Ég tel að Íslendingar eigi að vara sig á erlendum fyrirtækjum, eins og Silicor og alls ekki hleypa þeim inn. Ferill þess er ekki glæsilegur, og ferillinn er slíkur að það ætti að vera sjálfkrafa að þeim væri neituð aðstaða til að hefja verksmiðjurekstur hér. Skrif þeirra um mig sýna einnig að viðhorf fyrirtækisins eru fjandsamleg og að þeir muni beita öllum brögðum til að koma sínu fram. Hættulegir. Sennilega verð ég að fara að læsa útihurðinni hjá mér, sem við erum nú ekki vanir að þurfa að gera hér í Stykkishólmi. En varið ykkur Skagamenn: Hvernig líf viljið þið eiga í framtíðinni? Algjört mengandi verksmiðjuhverfi, sem venjulegt ferðafólk mun taka stóran krók á leið sína til að forðast.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jack Daniel's

Svona eru bara vinnubrögð fasista sem hafa vondan málstað að verja.

Jack Daniel's, 27.4.2015 kl. 14:59

2 identicon

Ég held að þú hafir pirrað einhverja fleiri en Silicor í gegnum tíðina. En hvað hefur þú fyrir þér í því að það hafi verið Silicor og enginn annar sem setti þetta inn á Wikipediu?

Jós.T. (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 01:07

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Sá sem ritaði þessar athugasemdir inn á Wkipedia síðu mína gerir það undir dulnefninu Dagviður.  Er Dagviður = Davíð?  Er það tilviljun að einn helsti ráðunautur Silicor á Íslandi heitir Davíð Stefánsson?

Haraldur Sigurðsson, 28.4.2015 kl. 05:37

4 identicon

Verð að játa að það hafa sést skotheldari sönnunargögn.  Og þar sem Haraldur virðist bara ekkert svo ósáttur við þessar viðbætur sýnist mér vandamálið ekki stórt.

En það myndi ég gjarnan fá að vita hjá Haraldi, í hverju þeir hjá Silicor og einnig þeim íslensku aðilum sem skoðað hafa málið og m.a. gefið umsgnir og leyfi, hafa rangt fyrir sér í að sú aðferð sem þarna á að nota sé umtalsvert umhverfisvænni en sú sem Haraldur lýsti í pistlinum í sumar.  Við pistilinn í sumar komu a.m.k. tvær athugasemdir sem bentu á að þarna yrði notuð önnur aðferð en Haraldur gaf engin svör við því.

Það er svo allt önnur umræða og kemur Haraldi kannski lítið við að einhverra hluta vegna er mönnum miklu uppsigaðra við þessa verksmiðju en hina í Helguvík, sem þó á víst alveg örugglega að nota aðferðina sóðalegu sem lýst var í pistlinum í sumar.

ls (IP-tala skráð) 28.4.2015 kl. 09:04

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Að sjálfsögðu hangir eitthvað hér á spýtunni.

Hingað mun engin erlend fjárfesting koma nema að fylgi skatta- og orkuívilnanir,  mengun og afsláttur á mengunarvörnum.

Hvaða erlendur fjármagnsaðili með fullu viti færi að koma hingað upp þegar framsjallar haga sér með þeim hætti sem raunin er?

Útlendingar eru bara meira og minna hrægammar sem sjálfsagt er að stela fjármunum af, segja framsjallar.

Hingað mun enginn eðlileg erlend fjárfesting koma í fyrirsjánlegri framtíð.  Og það er vegna framferðis hægri-aflanna, forseta og þjóðrembinga.  Það fylgir m.a. klafanum sem þeir hafa sett á bak þjóðarinnar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.4.2015 kl. 11:54

6 identicon

Gæti þarna verið um Björn Gunnarsson, jarðeðlisfræðing og fyrrum starfsmann RES Orkuskólans að ræða? Sést á en.wikipedia.org/wiki/User_talk:Dagvidur að Dagvidur hefur reynt að stofna grein um Björn á wikipediu, mögulega þá grein um sjálfan sig, auk þess sem ýmsar wikipediu-færslur Dagvidar tengjast jarðhita og m.a. fyrrnefndum Orkuskóla á Akureyri.

Snæbjörn Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.4.2015 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband