Sukk og svínarí

img_1955.jpgÉg var að ljúka vikudvöl minni í fornu borginni Marrakesh í Marokkó. Borgin er stórmerkileg, en hún var stofnuð af Berbum árið 1062. Marrakesh situr við rætur hinna fögru og snævi þöktu Atlasfjalla, sem ná meir en 4000 metra hæð. Hús, hallir og moskur borgarinnar er nær öll byggð úr rauðum sandsteini og einnig borgarmúrarnir, sem gefur borginni sérstakan rauðan lit. Berbar settu strax á laggirnar markað eða “souk” hér á elleftu öld og reyndar eru í borginni einir átján “souks” starfandi í stígum og götum, sem eru svo þröngar að engir bílar fara þar um, aðeins fótgangandi og asnakerrur með farangur á markaðinn. Karlar sitja við störf sín úti á götu eða í þröngum sundum, en konur eru lítt áberandi. Hér er hægt að kaupa bókstaflega allt sem þér dettur í hug. Krydd er áberandi, einnig fatnaður, teppi, grænmeti, ávextir. Ég rakst jafnvel á nokkra karla sem voru eingöngu að selja steingervinga og kristalla af ýmsu tagi, enda er jarðfræði Marókkó stórmerkileg. Aðrir selja forngripi frá ýmsum kynþáttum Norður Afríku, einkum Tuareg fólki. Það er enginn vandi að eyða mörgum dögum í “souk”, en maður stoppar öðru hvoru til að fá sér heitt te með mintu.   Þeir taka fersk mintublöð og hella sjóðandi vatninu yfir þau, sem gerir hinn besta drykk. Svo setja þeir tvo stóra sykurmola út í. Einn daginn, á leið í “souk” áttaði ég mig allt í einu á því að reyndar var ég að fara í sukkið! Ég tel að það sé enginn vafi á því að íslenska orðið sukkið er dregið af “souk”. Sennilega hefur það borist okkur í gegnum dönsku. Eina “souk” í Evrópu sem ég veit um er í Marseille í suður Frakklandi, enda eru Arabar í meirihluta í þeirri borg.   Að fara í sukkið getur að vissu leyti verið neikvætt, enda er maður hér til að eyða tímanum, á flækingi, og þar á meðal er hætta á að dragast út í einhverja óreglu. En það er ekki hættan í Marrakesh. Þar hjá múslimum er ekkert áfengi selt í sukkinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti ekki verið að orðið "Markaður" sé dregið af "Marrakesh"?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.1.2015 kl. 11:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar við Helga fórum til Kanarí 1975 hafði ég áður komið til Tangier í Marokkó. En okkur var eindregið ráðlagt að fara í dagsferð frá Kanarí til Marrakkesh, því að þá fyrst kynntumst við hinni raunverulega Marokkó og Afríku.

Stærsta markaðstorgið og hliðargötur þess varð ógleymanlegt. Hitchkock kvikmyndaleikstjóri valdi það sem aðalsenu einnar af kvikmyndum sínum.

Ég gerði þau mistök að gefa það upp að ég væri journalist þegar ég skráði mig í ferðalagið og þá fór allt á hvolf og munaði minnstu að ég fengi ekki að fara í ferðina.

Marokkókóngurinn þá og nú er nefnilega hreinn harðstjóri og eftir því hræddur um völd sín.   

Ómar Ragnarsson, 20.1.2015 kl. 11:22

3 identicon

Var ekki allt í sukki hjá Hallgerði, minnir það. Þannig að ekki er hægt að kenna dönum um denne gang. Hins vegar getum við kennt þeim um svínaríið því að minnsta kosti er ekkert svína hjá aröbum og berbum nú á dögum. Annars gæti vel verið að markaðurinn sé kenndur við Marrakesh, eins og basar, tariff og fleiri evrópsk orð sem eru af þessum slóðum.

Hermann Bjarnason (IP-tala skráð) 20.1.2015 kl. 23:11

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég held að orðið bazaar sé komið úr Persnesku, en það hefur sömu þýðingu og souk.

Haraldur Sigurðsson, 21.1.2015 kl. 07:20

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Souk, souq eða shuk er orð komið úr hebresku eða skylt, sukkah. Sukkah er búð, stundum lítil bygging þar sem sala fer stundum fram (er það sama og orðin booth eða butique). Gyðingar reisa sukka, sukkot í fleirtölu, á laufskálahátíð, sem ber nafnið laufskálans, sukkot. Sukkot hefur gefið súkkatinu nafn, en það er unnið úr sítrusávexti sem kallaður er etrok eða sukat og er hann eitt af táknum laufskálahátíðarinnar.

Hvort sukk á íslensku sé komið úr hinu berbíska souq tel ég hins vegar óvíst og ólíklegt. Ég kannast ekki við neitt orð í dönsku sem það gæti verið komið úr nema ef til vill sukker (sykur). Menn sem sykra líf sitt gera það kannski með sukki eða sukke. Sykur er hins vegar ekki kominn af souq, heldur "fra middelnedertysk sucker af italiensk zucchero, længst tilbage fra oldindisk sárkara 'sukkerkorn, grus'".

Hefur þú leitað í Ritmálsskrá?

FORNLEIFUR, 21.1.2015 kl. 14:44

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Markaður er komið af latneska orðin Mercatus. Mercator er kaupmaður á latínu. Marrakesh nafnið er skýrt vel á Wikipedia English og Deutsch.

FORNLEIFUR, 21.1.2015 kl. 14:50

7 identicon

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal er "sukk" talið skylt norsku orði skrifuðu eins, sem þýðir "mjólkurskol, skólp" og so."sukka"="gjálfra, skólpast".

Bjarni+Hermann: Það hefði nú verið skynsamlegra að gúgla t.d. enska orðið "market" eða leita í etymológískri orðabók, en að koma með fráleitar uppástungur um uppruna orðsins.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 22.1.2015 kl. 01:26

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Sennilega hefur Ingibjörg rétt fyrir sér. Þá er enn ein brillitant hugmynd mín skotin niður!

Haraldur Sigurðsson, 22.1.2015 kl. 14:33

9 identicon

Sæll Haraldur. Það er ekki ég, heldur Ásgeir, sem álítur þetta. Þetta er besta orðabókin, eins og Bragi Valdimar segir líka. Orðsifjafræði er fræðigrein sem notar ákveðna aðferð til að finna uppruna og skyldleika tungumála og orða, sem liggur ekki alltaf í augum uppi. Rétt eins og jarðfræðin greinir bergtegundir eftir efnasamsetningu og aldri, en ekki útliti. 

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 22.1.2015 kl. 18:34

10 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ingibjörg: Ég lít á þetta sem tillögu Ásgeirs, en ekki endilega EINU réttu skýringuna. Þó er það nokkuð sterkt samhengi milli skólps og svo orðsins sukks í hefðbundinni íslenskri meiningu.

Haraldur Sigurðsson, 22.1.2015 kl. 19:56

11 identicon

Ingibjörg, sagan "Nýju fötin keisarans" er margslungin. Eitt sem má lesa úr henni er hversu mikilvægt sé að menn geti hugsað sjálfstætt í stað þess að gefa sér að það sem hinir segi sé rétt.  

       Sjálfsagt hafa "hinir" oft og kannski oftast rétt fyrir sér. En án þessarar hugsunar yrðu engar framfarir.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 27.1.2015 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband