Kjarnorkuvetur eftir stríð milli Indlands og Pakistan
8.1.2015 | 08:59
Kjarnorkustyrjöld milli stórveldanna væri svo hryllileg tilhugsun, að hún virðist óhugsandi. En styrjöld milli tveggja ríkja, sem hafa yfir einhverjum kjarnavopnum að ráða, er alls ekki svo fjarstætt dæmi. Ísrael og Íran? Jú, þeir hata hvorn annan, múslimar öðru megin og gyðingar hinu megin. Ísrael hefur átt kjarnorkusprengjur í meir en 20 ár. En Íran ekki ennþá. Indland og Pakistan? Hér er stóra vandamálið. Þar er hatrið ekki síðra, hindú trú öðrumegin og múslimar hinumegin og fullt af sprengjum þegar fyrir hendi á báða bóga. Á meðan Ameríkanar hafa reynt að koma í veg fyrir að Íran komi sér upp kjarnavopnum, þá hefur Pakistan haldið stöðugt áfram að bæta við vopnabúr sitt. Nú er talið að Pakistan hafi á milli 100 og 120 kjarnorkusprengjur, en Indland, nágranninn fyrir sunnan, hefur um 90 til 110 kjarnavopn. Sérfræðingar telja því að langlíklegasta kjarnorkustyrjöldin í framtíðinni sé á milli Pakistan og Indlands. Pakistan hefur fremur lélegan her, og hugsar sér því að vinna slaginn strax með stórum sprengjum, sem að sjálfsögðu leggja bæði löndin í algjöra auðn. Michael J. Mills og félagar (2014) hafa nýlega birt merkilega grein í vísindaritinu Earth´s Future um áhrif slíkrar styrjaldar á loftslag á jörðu. Hér er loksins komið fram það vísindarit, sem margir hafa beið eftir, helgað því að beita vísindunum til að spá fyrir um framtíðina hugsanlega, raunverulega eða ímyndaða framtíð. Í líkani þeirra byrja þeir með kjarnorkustyrjöld, þar sem hvor þjóð beitir 50 kjarnorkusprengjum og er hver sprengja jafn stór og sú sem grandaði borinni Hiroshima í Japan árið 1945, eða jafnt og 15 kílótonn af venjulegu sprengiefni. Eitt kílótonn er eitt þúsund tonn, og er ein Hiroshima kjarnsprengja því jafn kraftmikil og 15 þúsund tonn af venjulegu sprengiefni. Þetta er þá um eða undir helmingur af vopnabúrinu í hverri þjóð. Bruni borganna leiðir af sér sót ský, sem rís upp í heiðhvolf og reiknast magn sóts um 5 Tg eða 5 milljón tonn. Þegar stórborg brennur, þá er hitinn svo gífurlegur að jafnvel tjaran í malbiki gatnanna brennur líka. Sótið sem myndast dreifist jafnt um heiðhvolf umhverfis jörðu. Eins og sést á annari mynd, þá er magn af sóti í lofti mjög hátt fyrsta árið en varir allt að 13 ár um heim allan. Sót hefur þann hæfileika að það drekkur í sig og endurvarpar meira magni af sólargeislum en nokkuð annað efni. Það hleypir því mjög litlu af sólargeislum niður til jarðar. Þetta veldur því að heiðhvolf hitnar en jörðin kólnar að sama skapi. Eftir 13 ár hefur megnið af sóti fallið til jarðar og áhrifin dvína. Yfirborðshiti jarðar kólnar um 1,1 gráðu um heim allan fyrsta árið og heldur áfram að kólna í fimm ár, niður um 1,6 gráður. Þá byrjar jörðin aftur að hlýna. Úrkoma minnkar í meir en einn áratug um heim allan. Hafís breiðist hratt út fyrstu fimm árin á norðurslóðum, eins og önnur mynd sýnir (bláa línan), og enn meir og lengur á suðurskautinu (rauð lína) í um 20 ár. Heimshöfin kólna í allt að 20 ár niður á 300 metra dýpi.
Vegna þess að heiðhvolf hlýnar um allt að 30 stig, þá verður stórfelt tap af ósón frá lofthjúp jarðar. Af þeim sökum streyma útfjólubláir geislar sólarinnar óhindrað niður á jörðina árum saman og valda sjúkdómum, stökkbreytingum og krabbameini. Þannig mætti lengi telja, því Mills og félagar hafa gert líkan einnig af áhrifum á landbúnað og fleira. Hörmungarnar eru ótrúlegar, þótt aðeins sé um að ræða styrjöld með 100 kjarnavopn. Gleymum því ekki, að Rússar og Bandaríkjamenn eiga sennilega ennþá um 10 til 20 þúsund kjarnavopn í sínum vopnabúrum í dag. Samt sem áður trúi því að kjarnorkuver séu ein skynsamlegasta orkulind mannkyns í framtíðinni, en kjarnavopn geta líka bundið enda á okkar skammvinna skeið á jörðu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Endalok vaxtar, Hagur, Loftslag | Breytt s.d. kl. 09:03 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki til einhver stofnun innan Sameinuðuþjóðanna sem að hefur eftirlit með notkun kjarnorkuvopna?
http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1414371/
Jón Þórhallsson, 8.1.2015 kl. 13:03
Sameinuðu Þjóðirnar er máttlaus stofnun, eins og tannlaus hundur, sem enginn hlustar lengur á. Þannig vilja stórveldin hafa það, svo þau geti komið sínu fram án afskifta SÞ.
Haraldur Sigurðsson, 8.1.2015 kl. 13:07
Nah. Indverjar og Pakistanar eru ekkert að fara að berjast. Þeir hafa prófað það áður, og það hefur ekki skilað neinu.
Og eitthvað grunar mig að ráðamenn í Pakistan séu nógu veraldlega sinnaðir til þess að vilja ekki hætta á að verða geislavirkir.
Ásgrímur Hartmannsson, 8.1.2015 kl. 16:46
Kannski er einfaldlega næsta skref að sprengja hæfilegar margar kjarnorkusprengjur á ári til að halda aftur af hlýnun jarðar... Var kólnunin um 1970 vegna kjarnorkutilrauna og gatið í Ozonlaginu afleiðing þeirra?
Sindri Karl Sigurðsson, 8.1.2015 kl. 17:40
Sindri: Þetta hefur verið rætt, en vandinn er sá, að þú þarft að brenna stórbog til að fá allt sótið.
Ásgrímur: Pakistanar og Indverjar eru ekkert að fara að berjast í augnablikinu, en við verðum að líta á málið í sögulegu samhengi.
Haraldur Sigurðsson, 8.1.2015 kl. 18:56
Í Indverska söguljóðabálknum Bhagavad Gita, sem er nokkur þúsund ára gamall, er lýsing á stríði og hinu ógurlega vopni Brahmastra. Ýmsir hafa séð samlíkingu þarna við kjarnorkustríð og afleiðingar þess því margt í lýsingunni passa vel við slíkt.
Jóhannes (IP-tala skráð) 8.1.2015 kl. 19:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.