Fracking: niðurdæling sem mengar

Borholur og niðurdælingFyrir 70 árum komu nokkrir jarðfræðingar og verkfræðingar saman umhverfis borholu í Kansas og gerðu tilraun. Þeir dældu niður á  700 metra dýpi blöndu af benzíni og sandi undir miklum þrýstingi í þeirri von, að blandan myndaði sprungur í berginu og losaði þannig um jarðgas.  Borholan fer fyrst niður lóðrétt, en síðan tekur hún boga og gengur lárétt inn í jarðlögin, sem innihalda gasið.  Þetta var byrjunin á aðferð sem nefnist “hydraulic fracturing” eða fracking og hefur hún valdið byltingu í olíu og gas iðnaðinum.  Með þessari aðferð er nú hægt að ná út gasi og olíu úr jarðlögum, sem áður voru talin orðin þurr.  Shale gasBókstaflega að kreista gas og olíu út úr steininum.  Fracking hefur síðan verið beitt við gas og olíuvinnslu í þúsundum borhola í Pennsylvaníu, Texas og Norður Dakóta.  Myndin sýnir að borholum er þétt dreift yfir stór svæði og allt berg er þar undir þrýstingi. Enn er þessari tækni nær eingöngu beitt í Bandaríkjunum og gasið er nefnt shale gas.  Allt í einu eru Bandaríkin orðin fremsti jarðgas framleiðandi heims!  Framleiðsla af shale gasi hefur aukist um 700% í Bandaríkjunum síðan 2007.  Þar með hefur verð á jarðgasi fallið mikið, eins og línurítið sýnir.   Jákvæðar hliðar á fracking eru þær að gasið er ódýrt og dregið hefur mikið úr brennslu kola í raforkuverum í Bandaríkjunum og gas hefur tekið við.  Við það hefur minnkað verulega útblástur af koltvíoxíði og einnig brennisteinsgösum.  Gasverð

En neikvæðu áhrifin eru risastórt vandamál. Umhverfisáhrif vegna fracking eru margskonar.  Efnasamseting vökvans, sem dælt er niður í borholur er iðnaðarleyndamál og hvert gasfyrirtæki hefur sína formúlu.  Rannsóknir sýna að vökvinn er oft einhverskonar díselolía, með ýmsum aukaefnum.  Það á meðal er benzen, sem veldur krabbameini.    Hingað til hefur gasiðnaðurinn haft frjálsar hendur með fracking og af þeim sökum mengað jarðvatn í mjög stórum svæðum í Ameríku.   Hér er listi yfir nokkur af þeim 600 efnum, sem hefur verið dælt niður í sambandi við fracking: benzene, ethylbenzene, toluene, xylene, naphthalene, methanol, formaldehyð, ethylene glycol, saltsýra, og einnig kemur fram í þessum blöndum efni eins og blý, úran, radon, kvikasilfur.   Auk þess er vatnsþörf fyrir fracking gífurleg.  Ein borhola tekur um 15 milljón litra af vatni og það hefur því mikil áhrif á vatnsbúskap á yfirborði jarðar.  Hin hliðin er að fracking er að menga og eyðileggja jarðvatn á stórum svæðum.  Oft er þetta jarðvatn, sem er aðal uppspretta drykkjarvatns á þessum svæðum. Þegar skrúfað er frá krananum í eldhúsinu streymir stundum út froða af metan, vatni og drullu.  Eitt af því versta varðandi nýfundna gasið er, a' það mun seinka þróun sjálfbæra og endurnýjanlegra orkulinda í landinu. Í viðbót við allt þetta, þá veldur fracking einnig jarðskjálftum. En gas og olíuiðnaðurinn er sterkur og hefur góð sambönd í þinginu í Washington DC.  Enn er því löggjöf um fracking á frumstæðu stigi.  Hvílíkt böl, að eiga slík auðæfi í jörðu, sem gera menn viti fjær af græðgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hvílíkt böl, að eiga slík auðæfi í jörðu, sem gera menn viti fjær af græðgi."

Ágætlega orðað!

ls (IP-tala skráð) 2.7.2014 kl. 10:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Frábær og upplýsandi pistill. Kær þökk fyrir hann.

Hinir "frumstæðu" frumbyggja þjóðflokkar í Ameríku sem gerðu sjálfbæra þróun fyrir næstu sjö kynslóðir að skilyrði nýtingar auðlinda hefðu aldrei látið sér detta neitt svonalagað í hug.  

Ómar Ragnarsson, 2.7.2014 kl. 12:05

3 identicon

Takk fyrir að útskýra þetta svona vel. Ég las í Nat.Geo. viðtal við mann, ég man ekki hvar í N-Ameríku hann á heima, sem býr við það að fá logandi gas úr krönunum í eldhúsinu, og mynd fylgdi af því. Greinin vakti sannarlega umhugsun um þetta athæfi, hvað í ósköpunum sé verið að gera. Vonandi sleppur Evrópa við þesa plágu.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 2.7.2014 kl. 16:27

4 identicon

Ég er efnaverkfræðingur búsettur í Texas og hef fylgst talsvert með þessum öfluga iðnaði sem er skapa mörg störf hérna. Ég hef rætt þessi mál við ýmsa aðila eins og landeigendur, jarðfræðingar, aðila sem vinna að vinnslu og fleiri. Niðurstaða mín er að þetta hefur áhrif líkt og önnur jarðeldneytisvinnsla, en ekki meiri.

Í Texas er það í lögum að fyrirtæki þurfa að gefa upp hvaða efni eru í "fracking"-vökvanum. Það er ekki rétt að megin hluti vökvans sé díesel, bensín og þess háttar efni. Heldur er hann yfir 98% vatn og sandur. Hjálparefnin eru síðan ýmis konar sápur, sýrur til að stilla af vökvann. Hins vegar getur megnun fylgt vökvanum þegar honum er dælt upp á yfirborðið eftir "fracking". Þá getur hann innihaldið geislavirk efni og jarðolíur frá holunni. Geislavirkni er háð staðsetningu holu, en er metið undir hættumörkum. Í stuttu máli ekkert meiri en í "drilling mud" frá Norðursjó. Flest fyrirtæki sjá hag í því að endurvinna "fracking"-vökvann, en í undartekningartilvikum geta auðvita verið svartir sauðir sem eyðileggja fyrir öðrum.

Þá getur þetta mikla vatn sem notað er í fracking-vökvanum valdið álagi á svæði sem hafa náttúrulega lítið vatn.

Þessar sögur um gas í neysluvatni og þess háttar hafa í öllum tilvikum sem ég hef séð verið af náttúrulegum völdum og voru algengar fyrir tíma "fracking".

Það er magnað hversu mikil áhrif þessi iðnaður hefur haft frá 2007. Þetta er ekki bara vinna við borun og orkuvinnslu. Heldur eru t.d. stór evrópsk efnafyrirtæki að loka eldri verksmiðjum í Evrópu og flyta til Texas.

"Fracking" er ekki vandamálið sem þarf að glíma við, heldur síaukin þörf okkar fyrir olíu og gas.

Sigurdur Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.7.2014 kl. 03:15

5 Smámynd: Ólafur Ingi Brandsson

Bendi á heimildarmyndina "FrackNation" sem tók fyrir flest ef ekki öll þau atriði sem var talað um í þessarri grein, þar kemur í ljós að heimildarmyndin "Gasland" sem fjallaði um fracking og hversu eyðileggjandi, mengandi og annað álíka neikvætt það væri, var loftbólan ein og flest allt sem kom þar fram um fracking, var haldið fram á tilfinningum og öðru sem hefur ekkert með vísindi eða staðreyndir að gera.

"Fracknation" heimsótti þau svæði sem sögð voru auðnin ein í "Gasland" til að sjá hvernig raunveruleikinn væri, það sem kom fram í "Gasland" voru eintómar lygar og voru settar fram í æsifrétta-búningi.

 Ég held að þetta sé vatnsbrunnurinn sem er í "Fracknation"

 https://www.youtube.com/watch?v=QkDnP40sCPM

Ólafur Ingi Brandsson, 3.7.2014 kl. 03:50

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Gott að heyra frá þeim, sem þekkja til eða eru tengdir fracking, en málið er ákaflega umdeilt.  Eins og með mörg slík má, þá skiftast menn í tvo andstæða hópa og erfitt að átta sig á raunveruleikanum.  Ekk má gleyma því að það er gýfurlegur áróður og þrýstingur frá gasiðnaðinum í þessu máli. En burtséð frá umhverfisáhrifum, þá er það mín skoðun að þetta ódýra gas sem nú er á markaðnum seinki mikið leit af sjálfbærum og umhverfisvænum orkulindum.

Haraldur Sigurðsson, 3.7.2014 kl. 10:51

7 identicon

Já, þetta ódýra gas seinkar ekki bara leit af sjálfbærum og umhverfisvænum orkulindum, heldur einnig efnaframleiðslu sem einnig geta fylgt þeim.

Hér í Texas hef ég heyrt um nokkur athyglisverð umhverfisvæn verkefni sem hafa gengið erfiðlega að fá fjármagn í þar sem gas er bara of ódýrt til að keppa við.

Annað dæmi er sæstrengur frá Íslandi til Bretlands. Til góðs eða slæms þá er "fracking" líklega mesta ógn við arðsemi á slíkum streng. Jafnframt gæti þetta gerst á mjög skömmum tíma þar sem fjárfestingar til framleiðslu á raforku úr gasi er tiltölulega ódýr og auðveld í uppsetningu. Verð á gasi er nú næstum því þrisvar sinnum dýrara í Evrópu en Texas.

"Fracking" hefur þrátt fyrir allt tvær umhverfislega vænar hliðar með sér.

Það fyrra er að gas er mun umhverfisvænna en kol til orkuframleiðslu. Það síðara er að raforkuframleiðsla með gasi hentar ágætilega með vindorku (sólarorku). Vindurinn virkar ekki í logni (myrkri), en þá er hægt að auka notkun á gasi. Hins vegar geta verið talsverða verðsveiflur á gasi, en vindurinn (sólarljósið) kostar alltaf það sama. Þannig er hægt að minnka áhættu í rekstri orkuframleiðenda.

Sigurdur Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.7.2014 kl. 22:45

8 identicon

In our 5 July, 2014, local newspaper was an article containing research conducted by Katie Keranen who is a geophysics professor at Cornell University. Her team found that today's seismic activity level in Oklahoma is twice that found in California, and much of this new activity is occurring in areas where heavy fracking activity has been carried out from 2008-2013.

Paula Bauer Webb (IP-tala skráð) 5.7.2014 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband