Stutt gos í Etnu
19.6.2014 | 19:20
Etna eldfjall á Sikiley byrjaði að gjósa síðastliðinn sunnudag, 15. júní. Það er alltaf viðburður þegar Etna gýs, af því að hún er annað virkasta eldfjall jarðar. Kilauea á Hawaíi er númer eitt. Í fyrstu voru sprengingar í suðaustur gíg fjallsins og síðan tók basalt hraun að streyma niður hlíðar fjallsins. Lokað var flugvöllum á Sikiley um tíma vegna ösku. Gosið náði strax hámarki næsta dag. Myndin sýnir línurit fyrir tvær jarðskjálftastöðvar, sem eru staðsettar í hlíðum Etnu. Þetta er órói eða titringur, sem verður beinlínis vegna streymis á kviku upp um gíginn. Það er góður mælikvarði á goskraftinn. Ég fékk útkall frá félaga mínum, sem á stóran bát með tvær þyrlur og tvo kafbáta um borð. Hann var staddur á Miðjarðarhafi. En ég varð að benda honum á, að þann dag, 17. júní, var þegar byrjað að draga úr goskraftinum og gosið því sennilega komið á lokasprettinn. Því miður of seint að bregðast við. Hinn 19. júní var óróinn kominn í venjulegt horf og gosinu að mestu lokið. Eins og venjulega, þá er goskrafturinn nær alltaf mestur fyrstu tvo dagana og því verða menn að bregðast snöggt við ef skoða skal slíkar hamfarir jarðar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldgos, Jarðskjálftar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.