Berserkirnir í Eyrbyggju


 

berserkurBerserkjahraun á Snæfellsnesi er óvenju úfið apalhraun og illt yfirferðar.  Það hefur því verið mikill farartálmi á landnámsöld,  sem myndaði eðlileg mörk milli Helgafellssveitar að austan og Eyrarsveitar fyrir vestan.  Mikil samgöngubót varð á Söguöld, þegar Berserkjagata var rudd.  Þessum atburði er lýst í Eyrbyggju og einnig er fjallað um hann í Heiðarvíga sögu.  Frásögnin í Eyrbyggju er mun heilsteyptari, enda er Heiðarvíga saga aðeins til í handritabrotum.  Allur fyrri hluti handrits Heiðarvíga sögu brann í Kaupmannahöfn árið 1728.  Jón Ólafsson Grunnvíkingur hafði lesið söguna fyrir brunann og endursagði þennan glataða hluta hennar eftir minni.  Það verður því tvímælalaust að taka Eyrbyggju sem traustari heimild um þennan þátt.  Ég endursegi hér frásögn Eyrbyggju og síðar Heiðarvíga sögu, en í síðari þáttum mun ég fjalla frekar um mannvirkin þrjú, sem kennd eru við berserkina.

Eyrbyggja segir frá því að Vermundur mjóvi Þorgrímsson bjó í Bjarnarhöfn.  Afi hans var Kjallekur, sem var kominn af merkum ættum í Noregi og eru Kjallekingar af honum komnir. Vermundur var um tíma í miklum kærleikum með Hákoni jarli, sem á þeim tíma réð yfir Noregi.   Með jarli voru tveir bræður af sænskri ætt, Halli og Leiknir.  Þeir voru miklir menn og sterkir og áttu sig engan jafningja af kröftum í Noregi og þótt víðar væri leitað.  Þeir gengu berserksgang í orrustu eða þegar þeir voru reiðir og voru þá eigi í mannligu eðli, fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn.  En hversdagliga voru þeir eigi illir viðureignar.  Eiríkur Svíakonungur hafði sent jarli berserkina og sett varnað á, að hann skyldi gera vel til þeirra.

Um vorið bað Vermundur jarl að gefa sér fararleyfi til Íslands.  Jarl veitti leyfið, og bað Vermund þiggja að gjöf  hverja þá hluti sem væru í hans valdi. Vermundur hugsar að berserkinir muni vera miklir eftirgöngumenn fyrir hans hag á Íslandi og biður  Hákon jarl að láta þá fylgja sér til Íslands.   Berserkirnir voru fúsir til utanferðar og fékk hann samþykki jarls.  Vermundur kemur heim í Bjarnarhöfn sama sumar og Eiríkur rauði siglir til Grænlands (um 985).  Brátt kom í ljós að Vermundur réði ekki við berserkina og varð því úlfúð og illska milli þeirra. 

Bróðir Vermundar var Styrr eða Víga-Styrr, en hann bjó “undir Hrauni” eða á býlinu Berserkjahrauni, sem nú er í eyði.  Býður Vermundur nú bróður sínum berserkina og tekur hann við þeim (ca. 983). Þá fóru berserkirnir með Styr verstur um fjörð að drepa Þorbjörn kjálka og settust síðan að með Styr undir Hrauni um haustið.  Þar slóst Halli á tal við Ásdísi, dóttur Styrs, en hún var ung og mikill skörungur, en talin skapstór.  Halli biður Styr að gifta sér dóttur hans.  Styr færist undan og segist vilja ræða málið við vini sína. Næsta dag ríður Styr til Helgafells til ráðagerða með Snorra goða (ca. 963-1031).  Þeir ganga á fjallið og sátu að tali allt til kvölds.  Síðan reið Styrr heim.  Næsta dag segir Styrr við Halla:  “Nú mun ég gera sem fornir menn, at ek mun láta þik vinna til ráðhags þessa þrautir nökkurar.  Þú skalt ryðja götu yfir hraunit út til Bjarnarhafnar ok leggja hagagarð yfir hraunit milli landa várra ok gera byrgi hér fyrir innan hraunit. En at þessum hlutum fram komnum mun ek gifta þér Ásdísi, dóttur mína.”  Halli svarar:  “Eigi em ek vanr til vinnu, en þó mun ek undir þetta játtast, ef ek skal þá auðveldliga komast at ráðahagnum.” 

Eftir þetta tóku þeir at ryðja götuna, ok er þat it mesta mannvirki. Þeir lögðu ok garðinn, sem enn sér merki. Ok eftir þat gerðu þeir byrgit.  En á meðan þeir váru at þessu verki, lét Styrr gera baðstofu heima undir Hrauni og var grafin í jörð niðr, og var gluggur yfir ofninum, svá at útan mátti á gefa, ok var þat hús ákafliga heitt.

Er þeir unnu at byrginu, þá gekk Ásdís Styrsdóttir hjá þeim, en hún hafði tekit sinn besta búnað.  Að loknu verki ganga berserkirnir heim um kveldit ok váru móðir mjök, er af þeim gekk berserksgangurinn. Styrr bað þá fara í bað ok hvíla sik.  Þeir gerðu svá, en er þeir kómu í baðið, lét Styrr byrgja baðstofuna og bera grjót á hlemminn og breiða hráblauta nautshúð  hjá uppganginum.  Síðan lét hann bæta eldivið á ofninn og var þá baðit svá heitt, at berserkirnir þolðu eigi í baðinu ok hljópu á hurðirnar.  Fékk Halli brotit hlemminn og komst upp ok féll á húðinni. Veitti Styrr honum þá banasár.  Einnig drap Styrr Leikni þar.

Síðan voru lík þeirra færð út í hraunit og þeir kasaðir í dal þeim, er þar er í hrauninu, en svá er djúpr, at engan hlut sér ór nema himin yfir sik. Þat er við sjálfa götuna.  Er Snorri goði frétti þetta, reið hann út undir Hraun og sátu þeir Styrr at tali enn allan dag.  Að því loknu fastaði Styrr Snorra goða Ásdísi, dóttur sína.  Snorri eignaðist fjóra syni með Ásdísi Víga-Styrsdóttur: Þórð kausa, Þórodd, Þorstein og Guðlaug munk.   Síðar, þegar kristni var lögtekin á alþingi, létu bæði Snorri og Styrr gera kirkjur á Helgafelli og undir Hrauni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband