Elsta dýr jarðar var íslenskt
30.1.2013 | 17:58
Alþjóð veit, að síðasti geirfuglinn var drepinn á Íslandi árið 1844. Hitt er kannske ekki svo vel þekkt, að íslendingar drápu einnig elsta lifandi dýrið, sem þekkist á jörðu. Það gerðist árið 2007, þegar rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson dró upp trollið af 83 metra dýpi skammt frá Grímsey. Út úr trollinu valt þá brúnleit kúfskel á þilfarið, um 11 cm á breidd. Mynd af henni er hér til hliðar. Hún var greind til aldurs af breskum vísindamönnum með því að telja árhringi í skelinni og með geislakolaaðferð og kom þá í ljós að hún var 507 ára gömul. Það með er, eða öllu heldur var, hún elsta lifandi dýr jarðarinnar.
Kúfskel eða Arctica islandica (Linnaeus 1767) er nokkuð algeng tegund umhverfis Ísland og þekkt fyrir að ná mjög háum aldri. Hún lifir í hafsbotninum þar sem hún grefur sig niður í sand eða leir, þar sem aðeins röndin stendur uppúr og hreyfir sig lítið alla æfina. Þá standa aðeins öndunarfærin uppúr sandinum, eins og þessi ágæta mynd sýnir hér til hægri, eftir Arnodd Erlendsson. Hún andar sjó inn um stærra opið, en út um það minna.
Skelin stækkar hratt yfir sumartímann en lítið eða ekkert á vetrum. Þess vegna koma fram greinilegir árhringir, eins og í trjám. Skelin er mjög útbreidd og töluvert er veitt af henni um allan heim. Í Bandaríkjunum er aflinn af þessari tegund af kúfskel til dæmis um 20 þúsund tonn á ári. Talið er að heildaraflinn af kúfskel í heiminum sé um 150 þúsund tonn á ári.
Þegar fréttin barst út um þennan merka fund við Grímsey, þá vakti það mikla athygli meðal þeirra vísindamanna, sem rannsaka öldrun og elli, einkum í Bretlandi og Þýskalandi. Hvað er það, sem gerir kúfskelinni fært að lifa svona lengi? Er hér að finna lífsins elixír, sem gæti ef til vill gefið okkur eilíft líf, eða alla vega lengara líf?
Rannsóknir á skelinni frá Grímsey hafa þegar sýnt að kúfskelin er að nokkru leyti sérstæð lífvera. Hún inniheldur nefnilega fremur hátt magn af andoxunarefni allt sitt líf. Það eru sameindir, sem draga úr eða koma í veg fyrir oxun og kunna að gefa lengra líf. Þetta passar vel inn í hina vinsælu free-radical theory of aging kenningu, en þar er því haldið fram að lausar jónir eins og O2- flýti fyrir öldrun manna. Annað atriði sem einkennir kúfskelina er, að hún hefur mjög lág efnaskifti (metabolic rate) og virðist því vera hálfsofandi allan tímann, einkum á veturna. Rannsóknir halda áfram, en ekki sýnist mér að kúfskelin gefi okkur lausnina um eilíft líf, nema þá fyrir þá, sem vilja eyða lífinu grafnir í leirinn á hafsbotni, innan við 4 stiga hita og hálfsofandi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Hafið | Facebook
Athugasemdir
Þetta hefði frekar átt heima á Fornleifi. Kúfskeljar hafa fundist í fornum ruslahaugum á Íslandi.
En hvernig aldursgreinir maður kúfskel? Varla spyr maður hana um skírteini?
FORNLEIFUR, 31.1.2013 kl. 16:50
Fornleifar eru dauðir hlutir. Kúfskelin var á lífi þr til Bjarni Sæm dró hana upp úr hafinu. Skeljar eru aldrusgreindar einfaldlega með því að telja árhringina á skelinni, eins og gert er með tré, eða tennur í hestum.
Haraldur Sigurðsson, 31.1.2013 kl. 21:18
Fornleifar eru nú teygjanlegt hugtak, og sumir hafa líf, en þegar búið er að skrapa líftóruna út skelinni, má alveg eins skrá skelina sem fornleifar, ef hægt er að telja í henni 100 árhinga eða meira. Þetta er vissulega hið merkilegta dýr, sem ég smakkaði einu sinni í Stykkishólmi. Ég mun ávallt bera mikla virðingu fyrir kúfskel eftir þetta.
FORNLEIFUR, 1.2.2013 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.