Óvissustig
25.10.2012 | 18:05
Þá er Ríkislögreglustjóri búinn að lýsa yfir óvissustigi Almannavarna í dag vegna jarðskjálfta fyrir Norðurlandi. Þessi tilkynning kemur reyndar fjórum dögum eftir stóra 5,6 skjálftann hinn 21. október. Af hverju ekki fyrr? En tilkynningin kemur daginn eftir dóminn yfir jarðvísindamönnum á Ítalíu, en það er nú auðvitað bara tilviljun. Aðal ástæðan fyrir því að setja svæðið á hærra stig er svissnesk kona að nafni Sabrina Metzger. Þessi jarðeðlisfræðingur og félagar hennar hafa fyrir einu ári birt greinar, þar sem fjallað er um ástand og spennu í jarðskorpunni undan Norðurlandi. Það eru því ekki nýjar niðurstöður, sem kalla á þessi nýju viðbrögð. Metzger og félagar hafa nýtt sér einkum GPS mælinga á hreyfingum jarðskorpunnar yfir tímabilið frá 1999. Tjörnes brotabeltið er sýnt á mynd númer eitt. Á myndinni er mikill fjöldi lítilla rauðleitra púnkta, sem sýna upptök jarðskjálfta. Jarðskjálftadreifingin teiknar vel fram útlínur Tjörnes brotabeltisins. Syðri línan af jarðskjálftum er Húsavíkur-Flateyjar misgengið, sem er nú virkt þessa vikuna. Hin þyrpingin af jarðskjálftum er norðar og teiknar út þann hluta brotabeltisins sem er kennt við Grímsey. Ártöl og svartar stjörnur sýna þekkta stóra skjálfta á svæðinu, ásamt stærð þeirra. Takið eftir að síðasti stóri skjálftinn á meiri hluta Húsavíkur-Flateyjar misgengisins varð árið 1872. Síðan hefur spenna hlaðist upp í þessum hluta flekamótanna í 140 ár, en á meðan hafa flekarnir í heild fjarlægst um 18 mm á ári. Það má segja, að flekarnir séu læstir saman á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, en á meðan hleðst upp spenna þar til hún yfirvegar lásinn og skorpan rifnar. Metzger og félagar hafa reiknað að spennan samsvari stórskjálfta sem er 6,8 að stýrkleika. Hann er enn ókominn. Reyndar hefur töluverð orka losnað úr læðingi nú þegar, eins og önnur myndin sýnir. Þar eru sýndir skjálftar stærri en 2 á þessu svæði síðan um miðjan október. Þar á meðal er skjálftinn sem var 5,6 hinn 21. október. En það er minna en einn þrítugasti af orkunni, sem Metzger of félagar telji vera geymda sem spennu í skorpunni og gæti komið fram sem 6,8 skjálfti, ef öll spennan losnar. Hvað getur gerst, þegar (eða ef) lásinn fer af svona sneiðmisgengi eins og Húsavíkur-Tjörnes misgenginu? Jú, það verður stór skjálfti, en getur það einnig haft áhrif á norður hluta eystra gosbeltisins, sem liggur í gegnum megineldstöðvarnar Þeistareyki, Kröflu, Öskju og fleiri? Kynni það að valda gliðnun á gosbeltinu þarna nyrðra, ef til vill með kvikuhlaupi og eldgosi, eins og gerðist í Kröflu árið 1975 og í Öskju árið 1875. Bíðum og sjáum til. Við lifum í spennandi landi!
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðskjálftar, Jarðskorpan | Facebook
Athugasemdir
Það hefur ekki verið mikið talað um hættu af hafnarbylgjum (tsunami), í tengslum við jarðskjálftaumræðuna núna.
Vildi benda á grein sem skýrir málið.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/837829/
Víðir (IP-tala skráð) 25.10.2012 kl. 23:08
Samþykki að tsunami flóðbylgja getur verið alvarlegt vandamál fyrir norðan, einkum í samanburði við áhrif skjálftans mikla árið 1755.
Haraldur Sigurðsson, 26.10.2012 kl. 00:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.