Sánkti Helena gosið árið 1980: Nýtt listaverk í Eldfjallasafni

Roger WerthEinn dag í sumar komu kurteis og vingjarnleg amerísk hjón inn í Eldfjallasafn í Stykkishólmi.  Hann kvaðst vilja færa mér eldgosamynd að gjöf og dró upp úr tösku sinni þetta fágæta og einstæða verk.  Hann er Roger A. Werth, ljósmyndari og blaðamaður í Washington fylki í Bandaríkjunum.  Hinn 18. maí árið 1980 tók hann frægustu eldgosaljósmynd allra tíma, á fyrstu mínútum sprengisossins í Sánkti Helenu eldfjalli.  Næsta dag var myndin á forsíðum allra dagblaða Bandaríkjanna og skömmu síðar á forsíðum Time, Newsweek, Life, National Geographic og fjölda tímarita um heim allan.   Myndin hlaut Pulitzer Prize verðlaunin sem besta blaðaljósmynd ársins. Roger sagði mér alla söguna þennan dag í Eldfjallsafni.  Gosið hófst klukkan 8:32 ð morgni.  Hann starfaði í bænum Longview, skammt frá Sánkti Helenu og stökk strax upp í flugvél til að mynda gosið.  Hann valdi að fljúga sunnan við fjallið, þar sem gjóskustrókurinn sást mun betur.  Að norðan verðu var gjóskuflóð í gangi, sem gerði alla flugumferð hættulega. Þarna horfir hann beint inn í miðjan mökkinn, en hæð hans náði 18 km fyrir ofan eldfjallið þegar gosið náði hámarki. Gosið í Sánkti Helenu er eitt af frægustu gosum seinni tíma.  Frægðin stafar first og fremst af því að þetta er fyrsta gosið innan Bandaríkjanna á meginlandi Ameríku í langan tíma, fyrir utan Alaska.  Samt sem áður var gosið alls ekki stórt. Heildarmagn gosefna, sem kvika, var um 0,5 rúmkílómetrar, sem er heldur minna en Surtseyjargosið árið 1963 til 1968, en um tíu sinnum meira en gosið í Eyjafjallajökli árið 2010.  Nú er mynd Rogers til sýnis á áberandi stað við innganginn í Eldfjallasafni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glæsilegt. Þegar gaus í Mt. St. Helens 1980 var atburðurinn og afleiðingar hans myndaður í bak og fyrir. Minnisstæðar eru myndir sem jarðfræðingur einn, sem fórst í gosinu, hafði tekið og komu fram á filmu, sem var í myndavél í bakpoka hans. Á þessum árum var ég og búinn að vera lengi ákskrifandi að tímariri bandaríska landfræðifélagsins, National Geographic Society, og þar voru gosinu gerð gríðarlega góð skil eins og nærri má geta. Sennilega stafaði frægð gossins eins og þú segir ekki hvað síst af staðsetningu þess. Tjón á mannvirkjum og gróðri varð verulegt og lakast náttúrulega að nokkrir fórust í gosinu en þó voru þeir færri, en hefði getað orðið ef allt hefði farið á versta veg, að því fólk á svæðinu taldi.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband