Kötlugos eftir Arreboe Clausen
2.9.2012 | 09:22
Hér er nýjasta mynd Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Hún er olíumálverk af Kötlugosinu árið 1918. Myndin er máluð af mjög sérstæðum manni, sem fæddur var í Stykkishólmi: Arreboe Clausen (1892 -1956). Faðir Arreboe var kaupmaðurinn Holger P. Clausen í Stykkishólmi, en um hann lék evintýraljómi, einkum í sambandi við ferð hans til Ástralíu í leit að gulli. Hann hafði getið sér frægðar á Snæfellsnesi árið 1880, þegar hann bauð sig til framboðs til Alþingis. Holger tók það ráð að reisa tjald á kjörstað, þar sem voru veittar óspart vínveitingar til kjósenda á kostnað Clausensverslunar. Að sjálfsögðu hlaut hann kosningu með miklum meirihluta til Alþingis, en þessi atburður er ávallt kallaður Brennivínskosningin síðan. Í þá daga greiddu menn atkvæði sitt í heyrenda hljóði. Siðar kom Holger öllum á óvart og reyndist bæði róttækur og frjálslyndur á þingi. Arreboe Clausen starfaði mörg ár sem einkabílstjóri forsætisráðherra Íslands. Af honum eru margar sögur, tengdar þessu sérstæða starfi. Til dæmis segir Ólafur Thors við Arreboe einkabílstjóra sinn, árið 1942: Góði minn, nú er ég orðinn forsætisráðherra. Nú verður annar hvor okkar að hætta að drekka! Eitt sinn var Arreboe spurður, hvað væri að gerast á bak við tjöldin í stjórnmálum Íslands, og vildi hann ekkert um það segja. Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka? Arreboe svaraði snöggt: Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki. Málverkið af Kötlugosinu hefur Arreboe málað eftir frægri ljósmynd, sem Kjartan Guðmundsson tók af gosinu. Að lokum skal geta þess, að Arreboe var faðir þeirra Clausensbræðra, Hauks og Arnar, sem lengi voru fremstu frjálsíþróttamenn Íslands.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallalist, Katla | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilega frásögn. - Forfaðir Arreboes var Holger nokkur Clausen kaupmaður í Ólafsvík um 1800-1830. Það var í frásögur færandi, að konan hans var talin fallegasta konan á Íslandi að sögn breskra ferðalanga árið 1810.
Jónas Bjarnason (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 11:43
http://faktor.blog.is/blog/faktor/entry/568210/
http://faktor.blog.is/blog/faktor/entry/570852/
Faktor, 2.9.2012 kl. 13:14
Arreboe Clausen var afi minn. Hann fæddist reyndar 1892 en ekki 1882. Ég þekki söguna um koppinn sem ekki lak en hina hef ég aðeins heyrt frá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Gæti þó verið sönn. Ég fæddist ekki fyrr en nokkrum árum eftir dauða Arreboes og varð því aldrei svo lánsamur að kynnast honum.
Ólafur Arnarson (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 17:41
Ólafur: Takk fyrir leiðréttinguna. Ég man eftir afa þínum, en þekkti Óskalr Clausen betur. Hann var heimilisvinur hjá okkur í Hólminum. Hann var alltaf í mjög fínum ljósbrúnum cashmere frakka. Merkilegir bræður.
Haraldur Sigurðsson, 2.9.2012 kl. 19:23
Arreboe var einnig afi minn, ég er dóttir Hauks og það er mjög ánægjulegt að þessi mynd sem ég hef aldrei séð né heyrt um sé komin á safnið svo fólk fái notið.
Það er svo mikil mýkt í myndunum hans afa og afar skemmtilegt að hann hafi tekið sig til og málað þetta mótív.
Ég hlakka til að koma og skoða safnið hjá þér Haraldur.
Ragnheiður Elín Clausen (IP-tala skráð) 4.9.2012 kl. 01:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.