Maðurinn sem kleif Kerlinguna
20.7.2012 | 04:21
Áður fyrr lá bílvegurinn norður fyrir Snæfellsnes um Kerlingarskarð. Það var margt ógleymanlegt sem maður sá á þeirri leið, en ef til vill var það ætið mest spennandi að koma auga á Kerlinguna, sem trjónaði efst í Kerlingarfjalli, austan skarðsins. Hún er einstakur móbergsdrangur, sem er tengdur vinsælli þjóðsögu. Þetta kventröll mun hafa verið við veiðar í Baulárvallavatni alla nóttina, enda er hún með stóra silungakippu á bakinu. Á leið sinni heim eftir veiðitúrinn mun hún hafa tafist nokkuð og dagaði þá uppi í orðsins fyllstu merkingu. Hún varð að steini strax og fyrstu sólargeislarnir náðu að skína á hana á háfjallinu. Hér með fylgir ljósmynd af Kerlingunni, sem RAX tók nýlega. Ég stend þar við pilsfaldinn, hægra megin við Kerlinguna og má hér greina út frá stærðarhlutföllunum að Kerlingin er um 21 meter á hæð. Margir hafa klifið upp að rótum kerlingarinnar, efst á Kerlingarfjalli, enda er það nokkuð greiðfær leið beint upp af Kerlingarskarði. En aðeins einn maður hefur klifið Kerlinguna sjálfa. Það var árið 1948, sem Ágúst Bjartmarz fór úr Stykkishólmi með félögum sínum og upp í Kerlingarfjall. Þar tókst Ágústi að kasta reipi upp yfir hausinn á Kerlingunni, og kleif síðan alla leið upp. Þetta hefur enginn leikið eftir síðan, enda sérstakt afrek. En Ágúst er einginn venjulegur fjallgöngumaður, heldur mikill íþróttamaður. Hann var til dæmis sex sinnum Íslandsmeistari í badminton, enda átti Stykkihólmur heiðurinn af því að innleiða þessa íþrótt á Íslandi. Ágúst er enn vel ern, þótt hann sé orðinn 88 ára. Hér með fylgir mynd af Ágústi, tekin í heimsókn hans í Eldfjallasafn í Stykkishólmi í dag.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Snæfellsnes | Facebook
Athugasemdir
Það mun hafa verið 1939, sem Ágúst kleif Kerlinguna, en ekki 1948.
Haraldur Sigurðsson, 23.7.2012 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.