Ítalskir jarðskjálftar
20.5.2012 | 12:48
Sex eru látnir í jarðskjálftanum sem reið yfir Ítalíu í dag nálægt Bologna. Hann var af stærðinni 6.0. Flestum er enn í minni jarðskjálftinn undir borginni l´Aquila á Ítalíu árið 2009, er 150 manns fórust. Þrjú þúsund fórust einnig í skjálfta í suður Ítalíu árið 1980. Og enn verra var árið 1908, þegar að minnsta kosti 70 þúsund fórust í jarðskjálfta sem jafnaði borgina Messina við jörðu. Hvaða öfl eru það sem hrista Ítalíu með svo miklum krafti og hörmulegum afleiðingum? Það eru vitaskuld flekahreyfingar Afríkuflekans í suðri og Evrasíuflekans í norðri. Fyrir mörgum milljónum ára var mikið haf milli Afríku og Evrópu, sem tengdi Atlantshaf í vestri og Kyrrahafið í austri. Það nefndist Tethyshaf. Síðan hefur Afrikuflekinn stöðugt rekið norður á bóginn á hraða sem nemur um 2 cm á ári, í átt til Evrópu. Flekahreyfingin hefur þannig lokað Tethyshafi og er sú hreyfing nú í þann veginn að þurrka Miðjarðarhafið út, en það eru síðustu leifarnar af Tethyshafi. Fyrsta myndin sýnir hvernig norður strönd Afríku hefur stöðugt mjakast norður á bóginn síðastliðin 175 milljón ár. Ein afleiðing af þessum árekstri Afríku og Evrópu eru Alpafjöllin. Önnur afleiðing er sú mikla felling í jarðskorpunni sem myndar Ítalíu skagann. Mynd númer tvö sýnir helstu þætti í jarðskorpuhreyfingum á Ítalíu. Rauða línan eru mótin þar sem flekarnir mætast, í miklu sigbelti. Þetta eru mjög flókin flekamót, og hlykkjast þau eins og snákur eftir Ítalíu endilangri. Bláu línurnar eru hins vegar svæði þar sem gliðnun á sér stað á flekamótunum, en hafsbotninn rétt fyrir vestan Ítalíu er að gliðna í sundur. Heildaráhrif af þessum flekahreyfingum eru algengir jarðskjálftar og einnig eldvirkni í Vesúvíusi, Strombólí, Etnu og fleiri eldfjöllum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðskjálftar, Jarðskorpan | Breytt s.d. kl. 14:16 | Facebook
Athugasemdir
Ég keyrði þarna um fyrir nokkrum mánuðum og velti fyrir mér skörpum hryggjum á malbikaðri leiðinni vestan við vatnið. Svona eins einhverjar hraðahindranir og lægðir. Hugsaði að varla hafi vegurinn verið lagður svona.
Kannski er landslagið eitthvað að krumpast þarna ef svo má að orði komast. Man eftir skjálftunum þarna fyrir nokkrum árum sem ullu því að það lækkaði verulega í vatninu, svo menn héldu að það væri hreinlega að tæma sig. magnað hverasvæði kom þá í ljós við vesturenda kleyfarvatns, sem ég held að sé komið á kaf aftur.
Landslagið þarna gefur svosem til kynna að allur fjandinn geti gerst.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.5.2012 kl. 16:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.