Flettu vindar ísnum af Öskjuvatni?
15.4.2012 | 22:05
Ég hef áður dregið í efa að það sé vísbending um yfirvofandi eldvirkni þótt Öskjuvatn sé nú íslaust. Sjá hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1232428/ Einn lesandi þessa bloggs gerði þá eftirfarandi og fremur niðrandi athugasemd við skrif mín:Vatn sem hefur lagt í vægu frosti í febrúar en er íslaust í nístingsgaddi í mars hefur greinilega hitnað nóg í millitíðinni til að losa sig við ísinn. Ekki þarf gráðu í eðlisfræði eða jarðfræði til að átta sig á slíku. Það sem ekki fæst svar við nema með nákvæmum mælingum er hversu heitt vatnið er. Nú berast þær fregnir (sjá til dæmis fréttavef RUV 15. apríl 2012) að vísindamenn hafi kannað vatnið. Niðurstaða þeirra er sú að vatnið sé aðeins einnar gráðu heitt eða jafnkalt og vatnið er í aprílmánuði. Mín skoðun er sú, að ísleysið sé ekki sökum eldvirkni, heldur að sennilega hafi ís brotnað og færst til á vatninu vegna vinda. Ef við skoðum til dæmis myndina af Öskjuvatni sem fylgir hér með, sem er tekin 30. júní 2009, þá er greinilegt að stórar vakir eru yfirleitt opnar á svæðunum í suðvestur hluta vatnsins, þar sem heitar lindir eru við flæðarmál og á vatnsbotni. Í réttri vindátt, og ef stormur geisar, þá er vel hugsanlegt að ísinn brotni og hrannist upp við land. Ég held því að það sé líklegra að skýringuna á ísleysinu á Öskjuvatni sé frekar að finna í veðurfari en ekki í tengslum við breytingar í hitastreymi innan eldstöðvarinnar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Askja, Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Athugasemdir
Vindar... afar ólíklegt. Þetta hlýtur að vera hiti neðanfrá
Kristinn Pétursson, 15.4.2012 kl. 22:12
Þingvallavatn hefur ekki lagt mannheldum ís í ein fimmtán ár. Þannig að vogandi sé að ganga út á vatnið.Eins og maður gerði hér áður fyrr.Það lagði yfirleitt uppúr áramótum. Vindurinn nær altaf að brjóta upp ísinn.
Guðlaugur Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 15.4.2012 kl. 23:16
Í fljótubragði, miðað við frétt Ómars Ragnarssonar er hann flaug yfir, sá ég ekki mikið íshröngl á bökkum Öskjuvatns... Né Vítis náttúrulega...
Ég er uppalinn á Selfossi og þegar Ölfussáin lagði og hreinsaði sig svo aftur var ísjakaburður alltaf á bökkunum...
Ég er að velta því fyrir mér... Getur verið að efnasamsettning í vatninu valdi því að það leggji síður...?
Eru til einhverskonar steindir, brennisteinn eða eitthvað annað sem getur valdið því að vatnið verði íslaust...?
Vatnið getur súrnað, eða orðið basískt, við blöndun ýmissa efna er það ekki...?
Sem svo veldur kannski ísvara líkingu á/í vatninu...?
Ég hef í raun ekki hugmynd, ég er bara að velta þessu fyrir mér...
En ég reyndi einmitt að sjá á þessum myndum hjá Ómari hvort jakaburður væri einhversstaðar á bökkunum, þá vegna hugsanlegs straums en ekki vinds sem er jafn góð pæling, en ég sá ekki neitt... Þó að það gæti hafa verið... Flugvélin fór náttúrulega hratt yfir...
Sævar Óli Helgason, 15.4.2012 kl. 23:29
Þetta er afar áhugaverð kenning hjá þér Haraldur. Mælingar vísindamannanna fimm hljóta að útiloka aðra þætti svo sem breytingar á hitastigi og efnasamsetningu. Hvaða element er þá eftir? Vindurinn auðvitað.
Júlíus Valsson, 16.4.2012 kl. 00:42
Hafa farið fram miklar mælingar á hitastigi vatnsins á sama tíma áður?
Ef Öskjuvatn er venjulega sirka 1°C á þessum tíma - af hverju hefur þá yfirborð þess venjulega verið frosið á sama tíma?
Höskuldur Búi Jónsson, 16.4.2012 kl. 08:54
Höskuldur Búi: Eins og Haraldur útskýrði þá hefur eflaust verið vindasamara nú við Öskju en venjulega.
Júlíus Valsson, 16.4.2012 kl. 09:20
Ef vindurinn hefur feykt ísnum ofan af, ætti þá ekki að vera íshröngl á bökkunum?
Þó hitastigið í dag sé 1 gráða, þá gæti það hafa verið mun meira fyrir einhverjum vikum síðan.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.4.2012 kl. 09:35
Júlíus: Ég las færsluna og Þetta er ekki gott svar hjá þér - ég var að vonast eftir svari frá Haraldi.
Svarið gæti verið á þá leið að venjulega sé lagskipting í vatninu og því nái að frjósa í yfirborðinu þó að vatnið sé í heild sirka 1°C. Venjulega þarf vatn að vera undir frostmarki til að frjósa. Ef svo er, að þess konar lagskipting er, Þá getur verið að sú lagskipting vatnsins hverfi við aukin vind.
Það endurvekur þó spurningar um það hversu miklar mælingar hafa orðið á vatninu og er til eitthvað gagnasafn til að miða við.
Höskuldur Búi Jónsson, 16.4.2012 kl. 10:16
Mér skilst að Mývatn sé ísilagt og að öðru jöfnu ætti Öskjuvatn einnig að vera það. En þar er jarðhiti sem hækkar hitastigið og lækkar frostmarkið vegna uppleystra salta (eins og Sævar nefnir - hugsanlega er það þó svo lítið að það hafi engin sérstök áhrif ?).
Varðandi það hvort vindur geti feykt ís af vatni þá held ég að það sé fyrst og fremst ölduhreyfingin sem fylgir vindinum sem getur hreyt við ís. Til að svo geti orðið þarf að vera nógu stórt íslaust svæði til að sæmilegar öldur geti myndast - því þykkari ís, því stærri öldur þarf til að hreyfa við honum.
Vindur getur ekki lyft skán af fleti ef skánin er óbrotin og ekkert loftrými er undir. Þannig að ef ísinn er heill og sléttur hefur vindur sjálfsagt engin áhrif. En vindhviða sem slær niður af krafti á þunnan ís gæti brotið ísinn og öldugangur byrjað sem dreifir úr sér. Til þess þarf ísinn þó að vera mjög þunnur, örugglega langt frá því að vera mannbær.
Eins og Höskuldur bendir á þá vantar okkur sjálfsagt meiri upplýsingar um fyrri ár. Öskjuvatn er með jarðhita, meðalhiti andrúmslofts hefur hækkað og því vel hugsanlegt að þetta sé allt "eðlilegt" án þess að um aukna jarðhitavirkni sé að ræða.
Brynjólfur Þorvarðsson, 16.4.2012 kl. 10:35
Það eru allir með einhverjar kenningar, svo það er best að bæta einni við.
Í vetur hefur snjór verið með mesta móti. Getur verið að snjór hafi lagst yfir þunnan ís á vatninu og einangrað það svo þegar snjórinn fýkur burt er ísinn þunnur og brotnar auðveldlega.
Annars er með íslensk vötn eins og pólitík, að maður veit aldrei hvað kraumar undir fyrr en uppúr sýður.
Sigurjón Jónsson, 16.4.2012 kl. 10:54
Er þetta ekki spurning um að nægilega mikil hreyfing hafi komið á vatnið þannig að hlýrra vatn að neðan hafi leitað upp á yfirborð eftir að ísinn brotnaði upp. Öskjuvatn er mjög djúpt og kólnar ekki til botns eins og grynnri vötn gera auk þess sem jarðhiti hjálpar til.
Ísinn hefur kannski aldrei náð því að vera nægilega þykkur, kannski vegna snjóalaga eins og Sigurjón bendir á. Svo má minna á að nóvember var mjög hlýr sem hefur tafið fyrir ísmyndun í upphafi vetrar. Febrúar og janúar voru líka óvenju hlýir.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.4.2012 kl. 13:23
Ekki man ég dýpt Öskjuvatns en veit að hún er mikil. Er ekki útilokað að í því verði hitabreyting á fáum dögum um margar gráður?
Mér finnst ekki líklegt að hiti að neðan hafi brætt ísinn og vatnið síðan snöggkólnað.
Árni Gunnarsson, 16.4.2012 kl. 13:57
Einu fyrri mælingar sem gagn er í eru mælingar Jóns Ólafssonar árið 1980. Öskjuvatn er mjög djúpt, eða um 226 m, og það er því flókið mál að mæla og lýsa hitaástandi þess. Það er ekki gert með einni mælingu á yfirborðsvatni við ströndina. Ég hef grun um, að ís sé yfirleitt aldrei mjög mikill eða þykkur á vatninu, vegna jarðhitans á botni þess. Af þeim sökum tel ég líklegt að í réttri vindátt geti ísinn brotnað mikið upp og við það hrærist upp lagskiting vatnsins, dýpra vatn sem kann að vera lítið eitt heitara leitar upp á yfirborð og hjálpar til með bráðnun. Ég á við að vatnið snúist bókstaflega við. Slíkt fyrirbæri er algengt í stöðuvötnum. Uppleyst efni í vatninu, alveg eins og í söltum sjó, lækka frostmarkið, en það er ekki sennileg skýring. Leyndardómar Öskjuvatns lengi lifi!
Haraldur Sigurðsson, 16.4.2012 kl. 14:29
Þetta er svosem ekkert einfalt. Hiti leitar náttúrulega alltaf upp en þarna getur vindurinn hafa hjálpað til við að breyta yfirborðshita vatnsins án þess að meðalhiti vatnsins breytist í heild.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.4.2012 kl. 14:41
Haraldur kom hér inn í millitíðinni, án þess að ég vissi með nokkurnvegin það sem ég hafði í huga áðan. Sem sagt hræringar í lagskiptingu vatnsins.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.4.2012 kl. 14:47
Eflaust hafa flestir lesið þetta:
http://esv.blog.is/blog/esv/entry/1234760/
Júlíus Valsson, 17.4.2012 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.