Bíður eftir Kötlu
21.12.2011 | 21:14
Á þessu ári hefur eldstöðin Katla verið mikið í fréttum. Við höfum oft heyrt það sagt, að Katla sé komin á tíma, að nú hljóti að fara að gjósa vegna þess að viss tími sé liðinn síðan síðasta stórgos var, árið 1918. Þetta er misskilningur. Reynslan sýnir, að eldgos eru yfir leitt það sem vísindin kalla stochastic process. Það er að segja: fyrri atburður eða tímalengd milli atburða hefur engin áhrif á tímasetingu næsta atburðar. Það fæst því engin spá að viti með því að mæla tíðni gosa og lengd goshlés. Hins vegar eru jarðeðlisfræðileg merki mikilvæg. Þau gera ekki spá mögulega, en þau mynda kerfi af upplýsingum, sem kunna að gefa viðvörun um yfirvofandi gos. Við skulum kíkja á vef Veðurstofunnar, og sjá hvað hefur verið að gerast í ár. Það er ljóst að mikil breyting varð í eldstöðinni Kötlu í byrjun júlí í ár, eins og rauða linan um uppsafnaðan fjölda skjálfta sýnir (fyrsta mynd). Þá jókst tíðni jarðskjálfta undir Mýrdalsjökli skyndilega. Síðan hefur tíðnin haldist nokkuð stöðug, en heldur dregið úr henni síðustu vikur. En jarðskjálftarnir gefa frekari og áreiðanlegri upplýsignar ef við skoðum næstu mynd. Þar er sýnd uppsöfnuð strainútlausn í jarðskjálftum. Þetta er eiginlega mælikvarði á orkuna sem losnar úr læðingi við jarðskjálftana. Þar kemur fram breytingin í byrjun júlí, og enn betur fram, að tímabilið síðan um miðjan nóvember hefur verið nokkuð rólegra en í sumar og haust og að magn af orku frá jarðskjálftum hefur minnkað nokkuð eða staðið í stað síðustu vikur. Þriðja myndin sýnir súlurit, þar sem fjöldi skjálfta á mánuði undir Mýrdalsjökli er rauður. Hér er einnig ljóst, að frekar hefur dregið úr fjöldanum. Nú, síðan um miðjan nóvember, ríkir því lengsta rólega tímabilið síðan virknin undir Kötlu jókst í júlí. Ekkert markvert er að sjá á óróamælum Veðurstofunnar umhvefis Kötlu undanfarið. Sama er að segja um GPS hreyfingar á mælum umhvefis Kötlu. Þær hreyfingar eru það sem við er að búast vegna landreks. Enginn sér inn í framtíðina í jarðskorpunni, en alla vega virðist ástandið stöðugt
í bili. Að lokum: gleymum því ekki, að umbrot og órói í jarðskorpunni leiðir alls ekki alltaf til eldgosa. Gott er að minna á óróann við Upptyppinga árin 2007 og 2008 í því sambandi. Mikill hluti af óróafyrirbærum í skorpunni eða undir eldfjöllum lognast útaf, án þess að gos verði.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðskjálftar, Katla | Facebook
Athugasemdir
Eru samt ekki mikil líkindi fyrir því að Katla gjósi á a.m.k. næsta áratug eða svo í ljósi gossögu eldstöðvarinnar?
Ef eldfjall hefur gosið að meðaltali tvisvar á öld í einhver þúsund ár, myndir þú þá ekki veðja á að svo yrði áfram, eða eru einhver teikn um að þetta mynstur sé að breytast?
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.12.2011 kl. 06:29
Væri ekki upplagt að gefa í skyn að Katla sé mjög líkleg til goss og auglýsa stíft erlendis til að fá ferðamenn, sem gætu svo gumað af því seinna, ef hún gýs, að hafa verið þarna og láta þá svo koma aftur.
geirmagnusson (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 08:40
Það er greinilegt, að Katla er í óvenjulega ástandi, og hefur verið siðan í júlí s.l. Hún mun gjósa í framtíðinni. En verður það í sambandi við þennan núverandi óróa, eða næsta? Varðandi meðaltalið, sem Gunnar vísar á, þá myndi ég alls ekki veðja á það. Órói og eldgos eru tengd kvikuhreyingum í jarðskorpunni. Þessar kvikuhreyfingar þurfa ekki endilega að leiða til eldgosa. Geir vill tengja ferðamennskuna við eldvirkni á Íslandi, og er það sjálfsagt. Hins vegar voru viðbrögð yfirvalda (Almannavarnir) þau í sambandi við nýafstaðin gos, að loka svæðum og halda fólki eins langt frá og mögulegt var. Auglýsingaherferðin Inspired by Iceland kostaði milljarða, og þar ar ekki minnst einu orði á eldgos! Bara fallegar glansmyndir af fossum og grænni grund. Þau reyndu að ela Eyjafjallajökul. Þessu hugarfari þarf að breyta -- við næstu ksoningar.
Haraldur Sigurðsson, 22.12.2011 kl. 11:23
Jarðskjálftavirkni í Kötlu er mun meira en í venjulegu ári það sem af er vetri. Síðasta sumar varð ennfremur lítið eldgos í Kötlu, enda hefur Katla sýnt það að sem eldstöð þá geta einnig komið lítil eldgos jafnt sem stór frá henni. Hvort sem að það verða fleiri litlu eldgosin veit ég ekki.
Það er einnig ein eldstöð sem fær minni athygli en hún ætti að gera. Það er eldstöðin Hamarinn sem gaus einnig smágosi viku eftir smágosið í Kötlu. Sú eldstöð er einnig orðin mjög varasöm að mínu mati.
Í Janúar mun ég bæta við jarðskjálftamæli til þess að vakta Kötlu betur. Þessi jarðskjálftamælir verður staðsettur mjög nálægt Kötlu, aðeins nokkra km sunnan við sjálfa öskjuna. Síðan er ég einnig búinn að bæta við jarðskjálftamæli á Eyrarbakka til að fylgjast betur með virkni á Reykjanesinu og suðurlandinu og bara eins langt og þessi mælir nær að mæla. Hægt er að fylgjast með jarðskjálftamælunum mínum hérna.
Jón Frímann Jónsson, 22.12.2011 kl. 17:00
Það er merkilegt framtak, sem Jón Fríman hefur gert, að koma upp sjálfstæðum skjálftamælum víðs vegar um land.
Haraldur Sigurðsson, 22.12.2011 kl. 17:14
Haraldur, Ég er búinn að setja vöktun á Snæfellsnesinu á dagskrá hjá mér. Hinsvegar verður það ekki fyrr en ég verð búinn að koma mér upp 4 mæla neti í Húnaþingi Vestra. Þannig að þetta er ekki alveg að fara gerast á næstunni því miður. Bæði tekur þetta tíma og kostar örlítið fjármagn að koma þessu öllu saman upp.
Það mælanet sem ég er að koma upp í Húnaþingi Vestra nær ennfremur ágætlega inn á Snæfellsnes. Enda kemur það fyrir að ég hafi mælt jarðskjálfta þarna fyrir vestan án þess að Veðurstofan hafi orðið þessara jarðskjálfta vör á sínu mælaneti.
Jón Frímann Jónsson, 22.12.2011 kl. 17:21
Hefur orðið einhver breyting á dýpi skjáftanna undir Kötlu ? Ég hef fengið á tilfinninguna að æ fleiri skjálftar verði á meira dýpi en áður. Það er e.t.v blekking vegna meiri kyrrðar á yfirborði ?
Ingþór Friðriksson (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 13:58
Ingþór:
Hér fremst í bloggið set ég mynd sem sýnir dýpi á skjálftum undanfarið undir Mýrdalsjökli. Ég held að það sé engin marktæk breyting. Reyndar vantar minni skjálfta á myndina, en það ætti ekki að skifta máli.
Haraldur Sigurðsson, 30.12.2011 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.