Lengi tekur sjórinn við - eða hvað?

Flæði koltvíoxíðsVaxandi koltvíoxíð í lofthjúp jarðar kann að valda óæskilegri hlýnun loftslags, en magn af koltvíoxíði í lofthjúpnum hefur vaxið um 30% síðan iðnbyltingin hófst í byrjun nítjándu aldarinnar.  Nú er það hins vegar ljóst að það er meir en fimmtíu sinnum meira koltvíoxíð í hafinu (um 40000 GtC) heldur en í lofthjúp jarðar (um 750 GtC).   Til skýringar skal taka fram að GtC eða eitt gígatonn er skammstöfun fyrir einn milljarð tonna af kolefni.  Það er einnig ljóst að hafið hefur tekið í sig um helming af því koltvíoxíði sem mannkynið og olíu- og kolakynntar vélar okkar hafa gefið frá sér.  Ýmsar spurningar vakna í ljósi þessara staðreynda:  Er hægt að „troða‟ meira magni af koltvíoxíði niður í hafið og draga þannig úr mengun og koma í veg fyrir hnattræna hlýnun jarðar?  Hefur magn af koltvíoxíði í hafinu farið vaxandi  að sama skapi og í loftinu?  Er hafið að mettast af koltvíoxíði?  Verður hafið þá það súrt, að kórallar á hafsbotni, skelfiskur og önnur kalkrík efni leysast upp og lífríki hafsins hnignar?    Fyrsta myndin sýnir flæði af koltvíoxíði mill loftsins og hafsins um heim allan. Fjólubláu og bláu svæðin eru höf þar sem koltvíoxíð streymir niður í hafið úr loftinu, og er flæðið frá 10 til 100 grömm af  kolefni á hvern fermeter hafsyfirborðs á ári.  Á gulu og rauðu svæðunum streymir koltvíoxíð hins vegar upp úr hafinu, á bilinu 10 til 100 grömm af kolefni á fermeter á ári.  Flæðið er að miklu leyti háð hita sjávar.  Kaldur sjór, eins og í Norður Atlantshafi, tekur í sig meira of koltvíoxíði, en heitur sjór, eins og hafið við miðbaug, losar sig hins vegar við koltvíoxíð, sem berst út í lofthjúpinn.    Fáir hafa fylgst jafn vel með þróun koltvíoxíðs í heimshöfunum eins og Bandaríkjamaðurinn Taro  Takahashi og félagar hans.  Nú hafa þeir tekið saman gögn um koltvíoxíð í heimshöfunum frá 1981 til 2009.   Niðurstöður þeirra sýna að töluvert meira kolefni streymir úr lofthjúp jarðar og niður í hafið en uppúr því, eða um 1.37 milljarðar tonna á ári hverju.  En nýjustu gögn þeirra sýna, að nú virðist minna af koltvíoxíði streyma niður í hafið en áður, og er það sennilega vegna þess að heimshöfin eru að byrja að hlýna.  Það eru því ekki  gott útlit fyrir að heimshöfin taki við koltvíoxíð framleiðslu okkar – nema ef við dælum gasinu niður á mikið dýpi þar sem kaldur sjór ríkir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Höfin eru full af þörungagróðri, sem, eins og jurtir á þurru landi nærast á koldíoxíði og gefa frá sér súrefni. Einnig er mikið af smásæjum sveppagróðri í höfunum, en sveppir, eins og dýr og menn éta súrefni og gefa frá sér koldíoxíð. Hér er með öðrum orðum um að ræða afar flókna hringrás sem er alls ekki nógu vel þekkt, en flestir sem fjalla um þessi mál virðast alveg hafa gleymt þætti jurta- og sveppagróðursins í höfunum. Alltaf er talað um útblástur koldíoxíðs, aldrei um upptöku þess sem er gífurleg, en hana er erfitt að mæla.

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.7.2011 kl. 00:10

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Vilhjálmur: Sjá færslu mína hér fyrir ofan til frekari skýringar.

Haraldur Sigurðsson, 13.7.2011 kl. 08:58

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir áhugaverða færslu Haraldur. Mig langar að vísa á ágæta færslu eftir Hrönn Egilsdóttur, doktorsnema við Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnunina, á loftslag.is. Færslan var gestapistill á loftslag.is og nefnist Súrnun sjávar og lífríki hafsins, þar sem Hrönn fer yfir marga þætti varðandi súrnun sjávar, einnig með tengingu í rannsóknir frá Íslandi. 

Varðandi lokaorð þín um að hugsanlega væri mögulegt sé að dæla CO2 niður á meira dýpi. Gæti það ekki valdið meiri súrnun sjávar, allavega þegar litið væri til lengri tíma? Ef ég skil þetta rétt, þá virðist mettunarálag sjávar breytast með dýpi og hitastigi, sjá nánar í færslu Hrannar, Súrnun sjávar og lífríki hafsins.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.7.2011 kl. 10:30

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Svatli: Kærar þakkir fyrir þessa ábendingu um súrnun hafsins.

Haraldur Sigurðsson, 13.7.2011 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband