Keilugangar í Setbergseldstöð
29.6.2011 | 14:54
Þeir sem kunna að hafa áhuga á að skoða keiluganga er bent á strandlengjuna í botni Grundarfjarðar. Ég mæli með því að ganga í fjörunni (sætið sjávarföllum) frá Grund og fyrir neðan Hamra. Þar eru ágætar opnur í nær samfellda þyrpingu af keilugöngum, bæði af þykkum keilugöngum úr líparíti, og þynnri basalt keilugöngum. Þar sést einnig mjög vel hvað blágrýtismyndunin, gömlu basalt hraunlögin, er mikið ummynduð af háhita hér. Steindir sem finnast hér í blágrýtismynduninni, á milli keiluganganna, eru meðal annars laumontít (hvítir og frekar mjúkir eða jafnvel loðnir kristallar), og einnig epídót (fallega grænir kristallar) og að lokum granat (smáir og rauðleitir kristallar). Þessar steindir benda til þess, að hér hafi verið um 400oC hiti í jarðskorpunni, eða virkt og kraftmikið háhitasvæði. Síðari myndin er hluti af jarðfræðikortinu sem ég birti 1966 af svæðinu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bergfræði, Jarðskorpan, Snæfellsnes | Facebook
Athugasemdir
Sæll Haraldur,
Takk fyrir þessa færslu. Það eru ekki margir sem fást við keiluganga núorðið, en ég hef verið meðhöfundur að grein sem mun birtast fljótlega, keilugangar í tveimur eldstöðvum í Njarðvík í Borgarfirði eystra og við Geitafell. Það er reyndar merkilegt að ég tel að eldstöðin í Njarðvík sé hluti af eldstöð sem ég kalla Dyrfjallaeldstöð og hefur verið viðgangsefni doktorsritgerðar minnar er með keilugangakerfi, en ekki meginhrina í Dyrfjalleldstöðinni sem leiddi af sér sprengigos og öskujumyndun.
Annað sem ég hef velt fyrir mér, eftir lestur þinnar ágætu ævisögu, er að í Borgarfirði eystra og Loðmundarfirði eru ummerki gríðarlegra sprengigosa með flykrubergsmyndun sem er með því mesta á Íslandi, að mínu mati. Þú telur að slík sprengigos geta einungis myndast í þykkri skorpu en þekkist á Íslandi. Ég hefði áhuga að fá álit þitt á því sem gerðist þarna fyrir austan fyrir um 12 til 15 milljónum ára.
Með kveðju
Lúðvík E. Gústafsson,
Otrateigur 18, 105 Reykjavík
Lúðvík E. Gústafsson (IP-tala skráð) 1.7.2011 kl. 10:18
Sæll, Lúðvík: Fróðlegt að heyra af keilugöngum á Austfjörðum. Ég hlakka til að leas um Þetta, þegar þú hefur birt grein þína. Varðandi stór sprengigos, þá er reynslan sú, að þau eru tengd kivkuþróm af súrri kviku, sem innihlada tugi ef ekki hiundruðir rúmkílómetra. Oftast er það í meginlandsskorpu, eða skorpu yfir sigbeltum. Að vísu eru til mjög þykk gjóskuflóðslög í sumum eldstöðvum í Tertíera staflanum á Íslandi, en við vitum ekki um magn einstakra laga, þar sem útbreiðslan er yfirleitt ekki þekkt. Annars her ég heyrt af hugmyndum um að miklu eldri skorpða kunni að liggja undir norður hluta Austurlands, og má vel vera að þaðan hafi komið mikið magn af súrri kviku á Tertíer. Vinsamlegast sendu mér tölvupóstfang þitt í vulkan@simnet.is kveðja Haraldur
Haraldur Sigurðsson, 8.7.2011 kl. 15:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.