Áhrif skjálftans á efnahag í Japan
14.3.2011 | 12:50
Þegar kauphöllin opnaði í Japan í gær, þá hrundi markaðurinn um 6,2 prósent, eins og línuritið fyrir feril Nikkei sýnir. Áhrif jarðskjálftans á efnahag eru mikil. Hundruðir af verksmiðjum eru lokaðar, víða er rafmagnslaust, og sumir hagfræðingar spá mikilli kreppu. Toyota og Nissan hafa hætt framleiðslu í tuttugu bílaverum sínum, og Hona hefur lokað tveimur af þremur verum sínum. Sony hefur lokað átta verksmiðjum. Í einni þeirra sluppu þúsund manns naumlega, þegar þeir flúðu upp á efri hæð til að komast undan flóðbylgjunni. En ekki eru allir á því að jarðskjálftinn valdi miklu né langvarandi efnahagslegu áfalli. Árið 1995 varð 6,8 skjálfti undir borginni Kobe, og 6400 létust. Kobe var sjötta stærsta höfn í heimi og fyrsta mánuðinn eftir skjálftann árið 1995 féll framleiðsla Japana um 2,6 prósent, en reis svo strax næsta mánuð á eftir 2,2 prósent og hélt áfram að vaxa 3,4 prósent fyrir árið. Efnahagsleg áhrif Kobe skjálftans voru nær strax þurrkuð út. Kobe var miklu mikilvægari fyrir efnahag Japan en svæðið sem varð fyrir áhrifum jarðskjálftans og flóðbylgjunar síðastliðinn föstudag. Ef við berum þetta saman við áhrif jarðskjálftans í janúar 2010 í Haítí, þá kemur allt önnur mynd í ljós. Haíti er fátækasta þjóðin á vesturhveli jarðar. Skjálftinn var 7,0 eða miklu veikari en skjálftinn í Japan. Samt fórust 250 þúsund manns, þrjú hundruð þúsund voru særðir, ein og hálf milljón heimilislaus, og höfuðborgin er enn í rústum. Þessi fátæka þjóð réði alls ekki við slíkt áfall. Hins vegar er Japan ein ríkasta þjóð jarðar, og hefur lengi verið að undirbúa íbúa sína og byggingar fyrir stóran skjálfta og miklar hamfarir. Japanir ráða alveg við þetta, og á þessu svæði munu rísa vandaðri borgir, þar sem enn meira öryggi gætir gagnvart jarðskjálftum og flóðbylgjum þeirra.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðskjálftar, Jarðskorpan | Facebook
Athugasemdir
Mikið til þarna er ein duglegsta þjóð veraldar og efnalega 3 stærsta og svo við bara vonum það besta fyrir þeirra hönd !!!/en þetta eru hörmungar!!!/Kveðja
Haraldur Haraldsson, 15.3.2011 kl. 00:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.