Eldstöðin Yellowstone
10.3.2011 | 19:36
Uppruni eldvirkni í Yellowstone er tengdur heitum reit djúpt í möttli jarðar, meir en eitt hundrað kílómetrum fyrir neðan meginlandsskorpuna. Meginland Norður Ameríku hefur stöðugt rekið til vesturs yfir heita reitinn síðastliðin sautján milljón ár, en heiti reiturinn er kyrrstæður í möttlinum. Hann bræðir meginlandsskorpuna neðan frá og kvikan rís upp til að mynda eldstöðina á yfirborði. Risastórar eldstöðvar á borð við Yellowstone haga sér allt öðru vísi en þau eldfjöll sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Gosin í Yellowstone eru mörgum sinnum stærri, og langt á milli þeirra. Þannig geta liðið allt að jafnvel milljón ár milli gosa. Síðasta stórgosið var fyrir 640 þúsund árum. Síðan hafa nokkur hraun runnið, en það hefur ekki gosið neitt að ráði í 70 þúsund ár. Undir Yellowstone er nú kvikuhólf, eða stór tankur af bráðnu bergi, og safnast sífellt meira í hann. Kvikuhólfið tæmdist síðast í stórgosi fyrir 640 þúsund árum, og þá féll þak hólfsins niður, og ný askja myndaðist, sem er 40 sinnum 60 km á stærð. Það er töluvert síðan að vísindamenn tóku eftir því, að yfirborð öskjunnar gengur upp og niður, og eiginlega virðist svo sem að eldstöðin sé að anda að sér kviku úr möttli jarðar og inn í kvikuhólfið. Fyrsta myndin sýnir breytingar sem hafa verið mældar síðan 1923. Á síðustu öld var yfirleitt sig í öskjunni, eins og kemur fram á annarri mynd. En svo snerist ferlið við kringum 2004, og askjan tók að rísa um 7 til 10 sm á ári, sem benti til þess að kvika streymdi inn af miklu dýpi. Gæti þetta bent á gos í aðsigi? Þriðja myndin eru allra nýjustu niðurstöður, sem benda til þess að risið sé hætt, eða alla vega staðnað í bili. Ef til vill getum við andað rólegar nú um tíma.
Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1872, og er hann fyrsti þjóðgarður jarðar. Einn af þeim sem tók þátt í leiðangri til Yellowstone árið 1872 var málarinn Thomas Moran, og listaverk hans höfðu mikil áhrif á þá ákvörðun Bandaríkjaþings að friða svæðið og mynda hér hinn fyrsta þjóðgarð. Þegar myndir hans voru sýndar í Washington DC, þá ákvað foretinn að þetta fagra svæði þyrfit að friða strax. Nafn þjóðgarðsins er dregið af Yellowstone fljóti. Það nefndu indíánar ána fyrir langa löngu, og sennilega er nafnið dregið af ljósleitu og gulu líparít jarðlögunum, sem áin sker sig í gegnum umhverfis eldstöðina. Þeir sem hafa komið inn í Landmannalaugar kannast vel við þennan sama gula lita. Okkur dreymir flest um einhverja draumaferð, sem við viljum komast í á ævinni. Mínar draumaferðir voru: númer eitt Galapagoseyjar, og númer tvö Yellowstone. Ég er svo heppinn að hafa komið oft á bæði þessi stórkostlegu svæði og kynnst þeim náið. Endilega látið þið verða af því að leyfa ykkar draumferð að rætast.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bandaríkin, Yellowstone | Breytt s.d. kl. 21:39 | Facebook
Athugasemdir
Vonandi á aldrei eftir að gjósa þarna því það myndi hafa hörmulegar afleiðingar. Væri ekki verið að tala um risagos?
Marinó Már Marinósson, 10.3.2011 kl. 22:18
Því miður er nokkuð öruggt, að það mun gjósa aftur í Yellowstone. Spurningin er, hve stórt verður gosið? Það gætu orðið hinar mestu hamfarir sem skollið geta yfir Norður Ameríku. Akug þess gæti slíkt gos haft áhrif (kólnun) á allt veðurfar jarðar um nokkur ár.
Haraldur Sigurðsson, 10.3.2011 kl. 23:12
Ég var einnig einu sinni á göngu ekki langt frá þér eða uppi í Teetons fjöllum, það var vor, birnirnir ný vaknaðir af dvala og geðillir og morgunsúrir, en ég saklaus svetamaðurin hafði náttúrulega tekið með mér ávexti í poka sem ég nartaði í á leidinni. Allt í einu fór ég að finna lykt sem ég kannaðist við, en þetta var sama lyktin og var af Bjarnar húnunum sem ég hafði skoðað áður í Helena Montana, en það var svona stofnun sem tók húna sem höfðu týnt foreldrunum.
Um leið og við fundum þessa lykt höfðum við á tilfinningunni að Bjössi væri að fylgjast með okkur. Þá gerði ég eins og þú, fór í vasann minn og náði í lyklakyppuna sem ég hristi svo ótt og títt alla leið niður fjallið. Það fyrsta sem ég skoðaði svo er ég kom í búð í Jackson Hole var Bear spray.
Annars tók ég eftir því seinna er ég flaug inn til Cody wyoming að þeir seldu þetta á flugvellinum þar.
Kveðja
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 06:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.