Hvað Kemur Mikið Koltvíoxíð upp í Eldgosum?

  Hringrás koldíoxíðsÞað er eitt gas sem allir kannast við, en það er koltvíoxíð.  Bólurnar í kókinu eru til dæmis koltvíoxíð. Mikið af gasinu sem myndar gjóskustrókana nú á Fimmvörðuhálsi er koltvíoxíð.  Þetta er líka gasið í andrúmsloftinu sem kann að vera að valda loftslagsbrytingum.  Þetta er  gasið sem myndast við bruna á eldsneyti af lífrænum uppruna (benzín, kol, dísel, eldiviður), hvort sem það er í vélinni í bílnum þínum eða í kolakynntum raforkuverum í Evrópu eða í verksmiðjum í Kína. 

Koltvíoxíð streymir milli hinna ýmsu hluta jarðkerfisins. Það streymir niður úr andrúmsloftinu og inn í sjóinn, og einnig frá landinu upp í andrúmsloftið, eins og til dæmis myndin fyrir ofan sýnir.  En takið eftir því að eldgos eru aldrei sýnd í slíkum myndum!  Hvernig stendur á því?  Er ekki einmitt koltvíoxíð að streyma upp í gjóskustrókunum á Fimmvörðuhálsi og út í andrúmsloftið  og reyndar í öllum eldgosum?  Jú, vissulega, en hvað mikið magn af koltvíoxíð gasi kemur uppúr eldfjöllum?  Er verið að blekkja okkur með öllu þessu tali um loftslagsbreytingar af manna völdum,  af því að eldgosin eru ekki tekin með í reikninginn?  Við skulum athuga það nánar, og kanna hvort það sé satt, eins og sumir vilja halda fram, að eldfjöllin séu miklu verri mengunarvaldur en sjálft mannkynið, með alla sína bíla og gas-spúandi verksmiðjur. Það er skylt að benda á að Loftslag.is hefur áður bloggað fróðlega um þetta efni.  Útlosun heimsins

Það er nokkuð auðvelt að reikna út heildarlosun eða það magn af koltvíoxíði sem streymir út í andrúmsloftið af völdum mannkynsins um heim allan.  Markaðurinn gefur okkur áreiðanlegar tölur yfir  magna af eldsneyti sem er selt um heim allan á hverju ári, og útkoman er sú, að nú er heildarlosun í heiminum um það bil 30 miljarðar tonna á ári af CO2. Myndin sýnir hvernig það skiptist milli landa, en Kína og Bandaríkin eru auðvitað lang stærst.  Heildarlosun á Íslandi af koltvíoxíði var 4235 þús. tonn árið 2006 en er nú komin yfir 5200 þúsund tonn, samkvæmt spá Umhverfisstofnunar. Koldíoxíð frá Íslandi

Það er ekki eins einfalt að áætla heildarlosun af koltvíoxíði frá eldfjöllum heimsins.  Þess ber að gæta að um 80% af öllum eldgosum eru neðansjávar, á úthafshryggjum, og  þvi tiltölulega óþekkt fyrirbæri. Samt er nú nokkuð gott samræmi á tölum um heildarútlosun koltvíoxíðs frá öllum eldfjöllum, bæði á landi og í sjó. Það er nú talið á bilinu 130 til 250 miljón tonn af koltvíoxíði á ári um allan heim.  Framlag eldfjalla er því aðeins 1/120 til 1/230 af heildarlosun koltvíoxíðs á jörðinni, eða vel innan við eitt prósent.  Sem sagt: það er ekki hægt að kenna eldgosum um loftslagsbreytingarnar, amk. ekki ío þetta sinn.  Hins vegar geta stór sprengigos orsakað mikla kólnun á jörðu, en það er nú önnur saga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er allt gott og blessað, en þú vísar í Loftslag.is, sem er höfuðmálgagn áhangeda gróðurhúsatrúar á la Al Gore hér á landi. Upplýsingar þar eru fengnar frá trúbræðrum þeirra erlendis og eru a.m.k. að mínu mati vafasamar, svo ekki sé meira sagt. Þú gleymir reyndar eins og flestir aðrir einum þætti sem framleiðir gífurlegt magn koldíoxíðs, nefnilega sveppagróðri í höfum og á þurrlendi. Hann lætur lítið yfir sér, en alls eru taldar vera um ein og hálf milljón tegunda sveppa og sjást flestallir aðeins í smásjá. Þeir framleiða allrir koldíoxíð, eins og menn þekkja m.a. af loftbólum í brauði og ostum, en þeir eru líka einn undirstöðuþátturinn í lífríkinu djúpt í úthöfunum, auk allra hinna hér á þurrlendinu. Margt smátt gerir eitt stórt. Málið er, að koldíoxíð- hringrásin í náttúrunni er alls ekki nægilega vel þekkt, ekki síst er allt of lítið vitað í raun um hve mikið koldíoxíð jurtalífið tekur til sín á hverjum degi.

Vilhjálmur Eyþórsson, 3.4.2010 kl. 19:00

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég er nú ekki alveg viss um hvert þú ert að fara með athugasemd þinni.  Pistill minn fjallaði um heildarútlosun mannkyns og eldfjalla af koltvíoxíði. Nú, ef sveppir framleiða en meira, þá er hlutfallið enn stærra, þ.e.a.s. hluti eldfjallanna er enn minni, sem er allt í lagi mín vegna.  Ég var alls ekki að fjalla um róðurhúsaáhrifin í pistlinum.  Einnig finnst mér ósmekklegt að tala um trúarbrögð í sambandi við vísindin.

Haraldur Sigurðsson, 3.4.2010 kl. 19:15

3 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Fyrigefðu en ég er orðinn svo vanur að rífast við loftslag.is að ég gleymdi mér aðeins. Allt sem þú sagðir er satt og rétt og það hlýtur að vera ógerlegt að vita i raun hve mikið kemur úr eldfjöllum ofanjarðar, hvað þá úr neðansjávarhryggjum. Málið er, að allt þetta koldíoxíð- dæmi er gífurlega stórt og flókið, svo stórt og flókið að það er vafasamt hvort vísindin komist nokkurn tíman til botns í því.

Vilhjálmur Eyþórsson, 3.4.2010 kl. 19:22

4 identicon

Nú taka höfin að einhverju leyti við koltvíoxíði sem myndast á þurrlendi (en þó ekki öllu, eins og kunnugt er).

En hvernig er með koltvíoxíðlosunina af völdum eldgosa á neðansjávarhryggjum? Sleppur eitthvað af henni út í andrúmsloftið eða leysist hún alfarið upp í sjónum? Kuldi og þrýstingur á sjávarbotni hafa væntanlega eitthvað um það að segja.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 20:16

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Uppleysanleiki CO2 er hærri í djúpum kölfum sjó. Því mun allt koltvíoxíð frá eldgosumá úthafshryggjum leysast upp í djúpsjó.

Haraldur Sigurðsson, 3.4.2010 kl. 21:09

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir góðan pistil Haraldur.

Þess má geta að þessar tölur sem þú vitnar í ríma vel við það sem við á Loftslag.is höfum haldið á lofti varðandi losun eldfjalla, sjá t.d. hér.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.4.2010 kl. 22:13

7 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sæll Haraldur !

Hef verið að vafra um og leita upplýsinga þess efnis hve mikið af koltvísýringi losnar úr iðrum jarðar í gosum.  Þú nefnir heildartöluna, en er til mælikvarði á það hversu mikill "útblásturinn" er fyrir þessa gerð af ólivín-basalti með þessa tilteknu efnasamsetningu (kísilsýruinnihald)  fyrir hvern rúmkílómeter gosefna sem upp kemur ?

Eldfjalla- og jarðefnafræðingar hljóta að hafa einhverja hugmynd ætla ég ?

Kveðja

Einar Sveinbjörnsson

Einar Sveinbjörnsson, 3.4.2010 kl. 22:56

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Sæll, Einar:

Þettta efni varðandi gas innihald nýju kvikunnar er mitt næsta blogg!  Vonandi í kvöld, ef allt gengur vel.

Kv.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 4.4.2010 kl. 06:21

9 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Haraldur Sigurðsson, takk fyrir að deila með okkur þessum upplýsingum. Allt saman mjög fróðlegt. Ekki ertu með link á, eða kort yfir hvert hraunrennslið hefur náð í dag? Ég sé ekki nema þetta kort frá því fyrir um viku eða svo, sem sýnir rennslið ofan í Hrunagil. Það er ekki CO2 en ég er bara svo forvitinn með þetta. Kv. Ólafur Þórðarson

Ólafur Þórðarson, 4.4.2010 kl. 13:23

10 identicon

Sæll Haraldur,

Er möguleiki á að þú getir útskýrt fyrir mér litina á óróagöfum veðurstofunnar?

Ég geri mér grein fyrir tíðnunum og muninum á ferð þeirra í gegnum vökvakend efni.

það sem vekur hinsvegar áhuga minn núna er það dregur saman með grænum og bláu gröfunum, sem hefur hingað til ekki verið að gerast og rauða grafið virðist vera á leiðinni niður.

Er einhver fræðileg skýring á því hversvegna þetta er svona.

kær kveðja :)

Friðbjörn B. Möller (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 22:42

11 Smámynd: Karl Jóhann Guðnason

Takk fyrir fræðandi og góðar greinar. Fylgist daglega með gosinu og þróun þess.

Tek undir þær athugasemdir að óvissan í útreikningum á CO2 eru miklar, þetta gas er allstaðar í kringum okkur (kannski ekki ósvipað og sjálft vatnið enda er mikið af gasinu sem kemur upp í eldgosum einfaldlega vatnsgufa) og líf eins og við þekkjum það í dag gæti ekki verið án.   Kannski er ekki svo mikil munur á H2O og CO2 þegar hugsað er um hversu náttúrulegt það er, bæði gösin eru mikilvæg fyrir lífið.

Karl Jóhann Guðnason, 5.4.2010 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband