Gossaga á Fimmvörðuhálsi
2.4.2010 | 13:06
Allir þeir sem gengið hafa Fimmvörðuháls hafa tekið eftir því að slóðin er eins og risavaxin bárujárnsplata, með gárurnar þvert á leið. Maður gengur upp einn hrygginn, niður í dæld, upp næsta hrygg og svo framvegis. Landslag einkennist af miklum fjölda goshryggja sem liggja frá austri til vesturs og hafa flestir þeirra gosið undir jökli, eða fyrir meir en um tíu þúsund árum. Þetta er mjög óvenjuleg stefna jarðmyndana á Íslandi, þar sem flestar gígaraðir og móbergshryggir liggja frá norðaustri til suðvesturs, eða frá norðri til suðurs (ein undantekning er á Snæfellsnesi, þar sem vest-norðvestur stefna er algeng). Auk hryggjanna eru nokkur yngri basalt hraun, lík því hrauni sem er að renna í dag. Kíkjum því aðeins á jarðfræði og jarðsögu í Fimmvörðuhálsi og athugum hvort við getum lært af þvi eitthvað um gosið sem nú stendur yfir. Það er gamall málsháttur eða regla í jarðfræðinni að nútiminn sé lykillinn af fortíðinni. Þannig getum við túlkað og skilið best það sem gerðist á fyrri skeiðum jarðsögunnar með því að notfæra okkur upplýsingar eða fróðleik á því sem er að gerast í dag. Þetta á vel við um Fimmvörðuháls, en einnig má nýta hið andstæða: við getum lært heilmikið um gang gossins í dag með því að skoða fornu eldstöðvarnar á hálsinum. Oftast er það einmitt þannig í jarðfræðinni að sagan endurtekur sig.
Árið 2005 birtu Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson grein um jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Þar er jarðfræðikort af Fimmvörðuhálsi, og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands nú birt kortið á ný á vefsíðu sinni hér, þar sem nýju eldstöðvarnar eru kærkomin viðbót á kortið. Reyndar eru upplýsingarnar um úbreiðslu nýja hraunsins nokkra daga gamlar, og sýna því ekki litlu gossprunguna sem opnaðist 31. marz.
Eitt höfuðeinkenni jarðmyndana á hálsinum eru fjórir eða fimm móbergshryggir sem stefna austur-vestur, eins og kortið sýnir. Þeir hafa myndast við sprungugos undir jökli. Milli þeirra eru tíu eða tólf basalt hraun, lítil að flatarmáli, sem hafa komið uppúr stökum gígum eða mjög stuttum gígaröðum. Drefing gíganna er óregluleg en það virðist einmitt vera einkenni nýju eldstöðvarinnar, þar sem tvær gossprungur með misvísandi stefnu hafa opnast. Þetta er því ekki eiginlegt sprungugos, eins og þau sem við eigum að venjast í aðalgosbeltum landsins. Slík sprungugos koma upp úr sprungum sem geta verið tugir kílómetra á lengd, eins og t.d. Lakagígar, sem eru amk. 25 km á lengd.
Hver verður framtíð gossins á Fimmvörðuhálsi? Ég vil benda á tvo möguleika sem eru jafn líklegir að mínu áliti, og ekki hægt að velja þar á milli á þessu stigi. Annar er þessi: Endar það fljótt og myndar þá fremur lítið hraun eins og eldri hraungos á hálsinum? Eða heldur gosið áfram og hleður þá upp myndarlegri nýrri dyngju? Hraundyngjur eru mjög mikilvæg fyrirbæri í íslenskri jarðfræði, og nægir að benda til dæmis á Skjaldbreið. Einkenni þeirra er að gosið kemur aðallega upp um eina gosrás, og hraun rennur til allra átta til að mynda dyngjuna sem er auðvitað í laginu eins og skjöldur á hvolfi. Á sínum tíma, árin 1963 til 1968, var því haldið fram að Surtsey væri dyngjugos. Reyndar byrjaði gosið á stuttri sprungu og fjórir gígar eða litlar eyjar spruttu upp: Surstsey, Syrtlingur, Jólnir og Surtla. Eins og sjá má á kortinu af hafsbotninum umhverfis Surtsey voru virku gígarnir nokkrir, en aðeins Surtsey sjálf varð varanleg. Ef Surtsey hefði gosið á landi, þá hefði gosið sennilega hlaðið upp dæmigerðri dyngju. Kvikan sem nú gýs á Fimmvörðuhálsi er einmitt mjög lík þeirri sem kom upp í Surtsey. Framhaldið heldur áfram að vera mjög spennandi!
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eyjafjallajökull, Vestmannaeyjar | Breytt s.d. kl. 13:37 | Facebook
Athugasemdir
flottir pistlar hjá þér.
Takk.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 16:46
Betur að fleiri vísindamenn blogguðu um fræði sín svo almenningi sé skiljanlegt.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.4.2010 kl. 17:37
Tek undir athugasemdirnar hér að ofan. Góður pistill að venju og vel skiljanlegur.
Sveinn Atli Gunnarsson, 2.4.2010 kl. 21:09
Í viðtali við Olgeir Sigmarsson á RUV var talað um að kvikan kæmi hugsanlega úr möttli jarðar. Þýðir það ekki að gosið sé dyngjugos?
Hver er munur á því, hvort kvikan kemur úr kvikuhólfi eða möttlinum?
Hvernig er hægt að sjá muninn?
einsi (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 21:16
Kvika sem kemur beint úr möttli jarðar hefur mjög hátt innihald af MgO eða magnesíum oxíði (um 10%). Þessi kvika sem nú gýs á Fimmvörðuhálsi hefur um 7% MgO. Það er nú ekki alveg eins hátt og kvikan sem kemur beint úr möttli (hún hefur um 10% MgO) en nálægt því. Ég held að þessi kvika sem nú gýs hafi stoppað í nokkra daga í miðri skorpunni, á um 10 km dýpi, og við það breytist hún og MgO lækkar niður í um 7%, áður en hún gýs. Hún er semsagt nálægt möttulskviku, en ekki alveg. Við vitum að kvikan safnaðist fyrir á um 10 km dýpi, frá jarðskjálftagögnum.
Haraldur Sigurðsson, 3.4.2010 kl. 00:12
Takk fyrir, Haraldur!
Þetta er eins og geta leitað til Bobby Fischer með skákþrautir:-)
einsi (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 00:54
Flottur pistill að vanda hjá þér Haraldur. En eru eiginlegar dyngjur úr alkalísku bergröðinni ekki frekar sjaldgæfar? Ég hef nú ekki séð hraunið í návígi, en finnst af því sem ég hef séð í sjónvarpi að þetta sé heldur seigara hraun en það sem maður á von á að sjá frá dyngju. Er það kannski misskilningur?
Ómar Bjarki Smárason, 3.4.2010 kl. 02:07
Nei. það er alveg rétt hjá þér. Þetta var einmitt rætt í sambandi við Surtsey á sínum tíma. ég sé samt ekkertþví til fyrirstöðu að alkalí basalt myndi dyngju. Hraunið er apalhraun, og rennur fremur seigt.
haradur sigurðsson (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 02:48
Einmitt og þess vegna væri líklegra að þarna myndi einhverskonar hrúgald frekar en regluleg dyngja. Dæmigerðar dyngjur eru í mínum huga fjöl-hraunbelta helluhraun. En ef gosið stendur nógu lengi er hugsanlegt að við fáum MgO-ríkari kviku beint úr möttlinum. Hún yrði þá líklega ekki eins seig og gæti runnið lengra. Aðstæður til að mynda reglulega dyngju þarna uppi eru tæpast hagstæðar.
Það verður alla vega gaman að fylgjast með því hvernig þetta gos þróast og hvort það hættir eftir nokkrar vikur eða heldur áfram í nokkra mánuði eða e.t.v. ár, líkt og Surtsey gerði.
Ómar Bjarki Smárason, 3.4.2010 kl. 17:04
Góður pistill, að venju. Bestu þakkir!
Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 19:58
Ef þetta er dyngjugos...Hvað verður þá um Þórsmörk og Bása á Goðalandi? Væri hægt að bjarga þessum náttúrugersemum á sama hátt og vestmannaeyjabæ var bjargað 1973
Jóhann (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 19:59
Ef gosið heldur áfram, þá munu Hrunagil og Hvannárgil fyllast og einhver hraun ná niður á eyrar Krossár. Mér finnst ólíklegt að það hafi áhrif á Bása. Aðstæður eru þannig að erfitt væri að framkvæma hraunkælingu, enda er ekki ljóst hvort hún skifti máli á Heimaey árið 1973. Þar sem mannvirki eru ekki í veginum, þá finnst mér að við ættum að láta nátúruna ráða í þetta sinn.
Haraldur Sigurðsson, 3.4.2010 kl. 21:14
Er að kíkja hér inn í fyrsta sinn. Langaði að þakka fyrir fróðlega og læsilega pistla.
GK, 3.4.2010 kl. 22:33
Náttúran verður að fá að ráða hvort hraun fari á eyrarnar eða ekki. Mér þætti dæmigert að vilja fara að stjórna þessu rennsli. Leyfum þessu gosi að gera það sem það vill. Við mennirnir skemmum nú alveg nóg fyrir og munum aldrei getað skapað neitt í líkingu við það sem náttúran býr til.
Ólafur Þórðarson, 4.4.2010 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.