Tíðni Eldgosa og Jarðskjálfta

Tíðni eldgosa

Eftir hamfarirnar í Haítí og í Síle spyrja margir: er tíðni jarðskjálfta að aukast? Er heimurinn loksins að farast?  Er endirinn nærri?  Sumir spyrja hins sama varðandi tíðni eldgosa.  Þessar spurningar koma alltaf upp þegar stórar náttúruhamfarir skella yfir okkur á jörðu.   Lítum fyrst á eldgosin um heim allan. 

Bláa línuritið sýnir fjölda eldfjalla á jörðu sem hafa verið virk á ári hverju frá 1790 til 1990. Það er greinilegt að fjöldinn hefu aukist stöðugt og verulega, eða þrefaldast.  En við verðum að hafa það í huga að þetta er fjöldi virkra eldfjalla sem hafa verið SKRÁÐ. Fjöldi gjósandi fjalla Línuritið er eiginlega betri mælikvarði á fjölgun mannkynsins, og betri skráningu og vöxt fjölmiðla, heldur en fjölda gosa.  Takið einnig eftir því hvað tíðni virkra eldfjalla dettur niður  í fyrri og seinni heimsstyrjöldunum.  Þá voru fjölmiðlar og allur almenningur of uppteknir af stríðinu til að skrá sum eldgos, einkum lítil gos í fjarlægum löndum.  Auðvitað er einhver sveifla í tíðni gosa ár frá ári, en hún er lítil.   Það virðist að að meðaltali séu um sextíu til sextíu og fimm eldfjöll virk á ári hverju, að meðaltali.  Myndin er önnur ef við lítum bara á stærri gosin, þau sem gjósa meir en 0,1 rúmkílómetrum af kviku, eins og neðri og græna myndin sýnir.

Tíðni jarðskjálftaÞá er tíðnin nokkuð stöðug í gegnum tvær aldir, og  jafnvel á átjándu öldinni voru flest stærri gos skráð.

Síðan 1960 hefur verið fylgst nokkuð vel með eldvirkni í heiminum. Næsta línurit í hvítum glugga hér fyrir ofan  sýnir  fjölda af virkum eldfjöllum á ári hverju frá 1960 til ársins 2000.  Það er eingin mælanleg breyting á þessum tíma.  Sem sagt:  tíðni eldgosa er nokkuð stöðug á sögulegum tíma.  En ef við lítum á lengri tíma, jarðsögulegan tíma, þá er sagan önnur, eins og ég mun fjalla um í síðari pistli.

 En jarðskjálftar?  Er þeim ekki virkilega að fjölga?  Það er svipuð saga og með eldfjöllin.  Línuritið í hvíta glugganum  til hliðar sýnir fjölda ALLRA jarðskjálfta sem MÆLDIR hafa verið á jörðu  frá árinu 1973 til 2006.  Það er greinileg mikil aukning í fjölda mældra skjálfta.  En á sama tíma hefur orðið gífurlegur vöxtur í fjölda jarðskjálftamæla sem er komið fyrir í löndum um allan heim og einnig bylting í samgöngum og skiftum á upplýsingum. Árið 1931 voru til dæmis aðeins 350 jarðskjálftastöðvar virkar, en í dag eru meir en átta þúsund virkar stöðvar sem senda gögn samstundis um vefinn.  Af þeim sökum hefur orðið bókstafleg sprenging í fjölda skráðra jarðskjálfta, sem skýrir þetta línurit. Við erum sennilega að komast á það stig núna að allir jarðskjálftar eru skráðir, og einnig öll eldgos.  Kerfið er orðið mettað.   Nú eru um tuttugu þúsund skjálftar skráðir í heiminum af alþjóðajarðskjálftastöðinni ár hvert, eða um fimmtíu á dag.   Tíðni stórra skjálfta

Við skulum þá líta á tíðni stórra jarðskjálfta á jörðu, því meiri líkur eru á að  mælingar og skrár yfir þá séu áreiðanlegar vegna þess að þeir mælast um heim allan.  Myndin til hliðar sýnir gögn frá jarðvísindastofnun Bandaríkjanna yfir stærri skjálfta á síðasta áratug. Eins og þar kemur fram, og ef litið er á fyrri áratugi, þá er engin mælanleg sveifla í tíðni stðrri skjálfta á jörðu. Við getum andað léttara. Heimsendir er ekkert nær.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Hjúkk,  takk fyrir þetta yfirlit.

Rauðu súlurnar vöktu sérstaka athygli, "estimated deaths".  Árið 2004 fer súlan upp út af flóðbylgjunum á Indlandshafi.  Auðvitað er ekkert orsakasamband á milli dauðsfalla og fjölda jarðskjálfta.  Dauðsföll sem afleiðing jarðskjálfta fara  sannarlega eftir aðstæðum, árstíma, staðsetningu, byggingareglugerðum og fleira þess háttar, sem tengist frekar mannlegu háttarlagi en móður náttúru.

En aftur takk fyrir þessar vísindalegu staðreyndir.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 3.3.2010 kl. 05:58

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Dauðsföll af völdum jarðskjálfta eru auðvitað háð stærð skjálftans, en það er ekki eini þátturinn. Haítí er gott dæmi um meðal skjálfta sem olli miklum fjölda dauðsfalla, vegna þess að skjálftinn varð beint undir höfuðborginni.  Síle skjálftinn er miklu stærri, en orsakaði tiltölulega fá dauðsföll, þar sem upptökin voru á hafsbotni og flóðbylgjan lítil. En svo eru margir aðrir þættir sem spila iní málið, eins og Jenný bendir á.

Haraldur Sigurðsson, 3.3.2010 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband