Jarðskjálftar undir Arnarvatnsheiði
10.2.2010 | 21:52
Undanfarna daga hefur verið í gangi fremur óvenjuleg jarðskjálftahrina undir Arnarvatnsheiði, vestan Langjökuls. Þetta eru litlir skjálftar, og á takmörkuðu svæði á Tvídægru heiði. Eins og myndin frá Veðurstofu Íslands sýnir, þá eru skjálftaupptökin rétt við brotalínu eða misgengi sem liggur aust-norð-austur um Arnarvatnsheiði. Þetta er nokkuð óvenjuleg stefna á misgengjum á Íslandi, en gæti hugsanlega verið tengt Snæfellsnes beltinu fyrir vestan. Árið 2001 varð einnig jarðskjálftahrina á svipuðum slóðum, en eilítið vestar. Enn meiri virkni varð hér á þessum slóðum árið 1974, eins og Páll Einarsson hefur ítarlega fjallað um. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þessarri skjálftavirkni næstu daga. Yfirlit yfir jarðfræði svæðisins er sýnt á seinni myndinni, og upptök skjálftanna eru flest innan rauða hringsins. Svarta brotna línan er stefna misgengja. Jarðmyndanir á svæðinu þar sem skjálftarnir gerast eru aðallega blágrýrismyndun frá lokum Tertíera tímans. Um 20 km austar er Hallmundarhraun, sem rann sennilega skömmu eftir Landnám eða eftir árið 900, samkvæmt aldursgreiningu Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhennessonar. Það er talið eina hraunið sem hefur runnnið í Vesturgosbeltinu (Langjökull og gosbeltið suður að Þingvallavatni) síðan land byggðist, en Hallmundarhraun rann úr þremur gígum við vesturbrún Langjökuls. Þetta basalthraun er um 50 km á lengd og nær yfir um 205 ferkílómetra, en rúmmál þess er 3,4 rúmkílómetrar. Hæget er einnig að fylgjast með skjálftavirkni á Arnarvatnsheiði með því að skoða gögn úr skjálftamæli Jóns Frímann hér http://www.jonfr.com/
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Menning og listir, Jarðskjálftar | Breytt 3.3.2010 kl. 18:38 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef verið að fylgjast með þessari jarðskjálftahrinu síðan hún hófst, enda hef ég verið að mæla nokkra af þessum jarðskjálftum sem þarna hafa orðið inná mína jarðskjálftamæla. Stærsti jarðskjálftinn kom þarna fyrr í kvöld, stærðin samkvæmt Veðurstofunni er ML2,5. Reyndar gaf útslagið hjá mér stærðina ML2,9. Ég reikna alveg eins með því að þarna geti orðið stór jarðskjálfti á þessu svæði í kjölfarið á þessari smáskjálftahrinu sem þarna er núna í gangi, enda virðist þessi jarðskjálftahrina vera hægt vaxandi.
Hægt er að skoða jarðskjálftagröfin mín hérna.
Jón Frímann (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 22:17
Þetta er athugavert. Ef til vill er von á stórum skjálfta hér, eins og gerðist 1974. Ef við lítum á dreifingu síðustu skjálftanna á vef Veðurstofunnar, þá virðist vera dreifing sem hefur norður-suður stefnu yfir svæðið. Enn eru þeir of fáir að það sé hægt að taka mark á þeirri dreifingu.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 11.2.2010 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.