Er Himininn að Hrynja? Apophis á Ferðinni
16.1.2010 | 17:11
Við þekkjum öll gömlu barnasöguna um Litlu Gulu Hænuna. Í enskumælandi löndum er svipuð barnasaga sem nefnist Chicken Little, og er í stuttu máli þannig: Hneta dettur úr tré og lendir á hausnum á litlu hænunni. Hún fer til kóngsins og segir honum að himininn sé að hrynja. Allt fer í uppnám í konungsríkinu, en ekki rætist spáin. Boðskapurinn er sá, að trúa ekki öllu sem manni er sagt. Nú segja rússar að himininn sé virkilega að hrynja á næstunni. Nýlega var haldinn leynilegur fundur helstu sérfræðinga rússa í geimvísindum í Moskvu, og aðal erindið var að skipulegga aðgerðir til að bægja smástirninu 99942 Apophis frá jörðu til að forðast hættulegan árekstur. Rússarnir telja að Apophis muni fara nærri jörðu eftir tvo áratugi og nú sé rétti tíminn til að byggja geimfar til að senda á móti Apophis og breyta braut þess. Anatoly N. Perminov, forstöðumaður Roscosmos, geimrannsóknastöðvar Rússlands, segir: Ég held að Apophis gæti rekist á jörðina í kringum 2032. Við erum að tala um mörg mannslíf hérna. Það er betra að eyða nokkrum miljónum dollara til að koma upp varnarkerfi, frekar en að bíða aðgerðarlaus, en þá gætu hundruðir þúsunda farist. Er málið svona alvarlegt, eða eru rússneskir verkfræðingar bara að haga sér eins og Chicken Little, til að skapa fjármagn í nýtt verkefni? Hér fyrir ofan er mynd af Apophis, tekin með radar á Arecibo rannsóknastöðinni í Puerto Rico í janúar 2005. Smástirnið er litli ljósi bletturinn á miðri mynd hér fyrir ofan, og var þá um 29 miljón kílómetra frá jörðu þegar myndin var tekin. Apophis fer hratt í gegnum geiminn, eða á 31 km á sekúndu, en smástirnið er um 270 til 300 metrar í þvermál. Litróf Apophis sýnir að hér er chondrít eða grjóthnullungur á ferðinni, en ekki snjóbolti, eins og halastjörnur. Hér til hægri fylgir með mynd af smástirninu Itokawa, sem japanska geimfarið Hayabusa tok í haust. Itokawa er sviðuð og Apophis, um 535 metrar á lengd og 210 á breidd. Apophis er á braut sem sendir smástirnið mjög nærri jörðu árið 2029, en þá verður það í um 29451 km fjarlægð, og svo aftur 13. apríl árið 2036 og 2068. En NASA er ekki sammála rússum. NASA segir að síðan Apophis var uppgötvuð árið 2004 þá hafi hættan á árekstri minnkað, vegna þess að braut þess hefur verið reiknuð út með meiri nákvæmni. Apophis er aðeins um 300 metrar, og upphaflega héldu sérfræðingar að það væri 2.7% líkur á árekstri á jörðu sem yrði árið 2029. En nú segja þeir að smástirnið fari framhjá jörðu í um 29500 kílómetra fjarlægð. Þegar Apophis verður aftur á ferðinni í grennd við jörðu árin 2036 og 2068, þá verður hún enn fjær, segir NASA. Það er von að rússar séu taugaóstyrkir þegar kemur að smástirnum. Árið 1908 skall Tunguska smástirnið niður í Síberíu og gerði mikinn usla. Til allara hamingju varð áreksturinn í óbyggðum og engan sakaði. Það eru ýmsar hugmyndir um hvernig hægt er að breyta rás smástirna til að forða árekstri við jörðu. Ein sú vinsælasta er hugmyndin um gravity tractors eða dráttarbáta, sem eru staðsettir í grennd við smástirnið og nota þyngdaraflið til að breyta braut þess. Í Bandaríkjunum er B612 stofnunin, sem vinnur að rannsóknum um aðferðir til að breyta brautum hættulegra smástirna. Þeir telja að engin hætta stafi frá Apophis eins og er, en eru á móti því að fikta við eða breyta braut smástirnisins. Ef eitthvað mistekst, þá verður hættan meiri og árekstur gæti orðið. Þeir benda á að það eru miljón önnur smástirni þarna úti í geimnum sem hægt er að gera fyrstu tilraunirnar á. Það er enginn vafi að slíkar tilraunir eru eitt af stóru verkum framtíðarinnar. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast daglega með þeim smástirnum sem eru nærri jörðu, þá er bent á Asteroid widget fyrir tölvur, en það má finna hér:http://www.jpl.nasa.gov/asteroidwatch/download.cfm Það sýnir til dæmis að hinn 21. janúar fer 34 metra stór loftsteinn fram hjá jörðu í um 895 þúsund km fjarlægð.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Loftsteinar | Breytt 14.3.2010 kl. 14:51 | Facebook
Athugasemdir
Síða um NEO (Near-Earth Object) hjá NASA:
http://neo.jpl.nasa.gov
Ágúst H Bjarnason, 17.1.2010 kl. 11:00
Gaman að þessu. Ég hjó einmitt eftir þessu hjá Rússunum. Fannst þeir vera að hræða fólk óþarflega. Það eru nánast engar líkur á að Apófis rekist á jörðina. Aftur á móti vona ég að menn nýti tækifærið og leggi í leiðangur til smástirnisins, safni sýnum og komi með til jarðar. Kondrítin geta nefnilega sagt okkur fjölmargt um myndunarsögu sólkerfisins og e.t.v. uppruna vatns á jörðinni.
Til fróðleiks: Einn af forsprökkum B612 er Rusty Schweickart. Hann fór út í geiminn með Apollo 9 árið 1968 og prófaði tunglferjuna á braut um jörðu og sjálfan tunglbúninginn. Hann kom til Íslands árið 1965 til æfinga með Sigurði Þórarinssyni og Guðmundi Sigvaldasyni ásamt öðrum geimförum eins og Roger Chaffee (Apollo 1), Dave Scott (Apollo 15) og Eugene Cernan (Apollo 17).
- Sævar
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 17.1.2010 kl. 13:45
Það er mjög eðlilegt að rússar fari þessa leið til að vekja athygli og byggja upp stofnun og kerfi. Með því að hræða fólk mátulega mikið geta þeir ef til vill komis inn á fjárlögin. Sweickert var einmit sá sem varaði við að það gæti verið hættulegt að byrja á því að fikta við Apophys smástirnið. NASA vefsíðan er mjög góð um þetta efni.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 15:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.