Er Svarti Steinn Tektít?

Ka´abaÉg fjallaði um tektíta eða glerkennda steina sem myndast við árekstra loftsteina á jörðu í spjalli mínu hinn 5. janúar. Hér vil ég fjalla um stein sem er ef til vill mikilvægasti steinn mannkynssögunnar og er sennilega tektít. Sagan byrjar í heilögu borginni Mekka í Arabíu. Sagt er að sjálfur Abraham hafi reist musteri í borginni Mekku, en hann var uppi um fimm hundruð árum fyri kristsburð. Musterið eða moskan er Kaaba, en mikill fjöldi múhammeðstrúarmanna kemur til Mekka ár hvert, til að ganga sjö hringi í kringum Kaaba. Þessir pílagrímar hljóta þá þann heiður að vera ávarpaðir sem haji það sem eftir er ævinnar, og mega bera litla hvíta kollu á höfði. Í þorpum í Indónesíu hef ég hitt nokkra haji, en þeir seldu flestir allt sitt land og létu af hendi aleiguna til að kosta pílagrímsferðina til Mekku.  Svarti SteinnKaaba er miðja heimsins fyrir þá sem eru múhameðstrúar, en þessi bygging er um 13 metrar á kannt, og alklædd svörtu klæði að utan. Kaaba þýðir ferhyrningur á arabísku og er sama orðið og cube á ensku. Hingað koma um 4 miljón pílagrímar á ári hverju, til að ganga í hringi umhverfis Kaaba. Á austur horni Kaaba, á veggnum um 1.5 metra fyrir ofan jörðu, er rifa á klæðinu sem sýnir silfur umgjörð en hún er ótrúlega lík kynfærum konu. Í miðri silfurumgjörðinni er hinn helgi Svarti Steinn (Hajar al-Aswad) sem er um 30 sm í þvermál. Það er æðsti draumur pílagríma að fá að kyssa og þukla á Svarta Stein, en fáir ná því takmarki vegna fjöldans.  Muhammeð með Svarta SteinSteinninn er sagður rennisléttur vegna þess hvað margir hafa snert og kysst hann yfir aldirnar. Sagan segir að Svarti Steinn hafi fallið til jarðar til að sýna Adam og Evu hver þau skyldu byggja musteri, og að hér sé fyrsta musteri jarðarinnar. Hér til vinstri er sjálfur Mohammed sýndur með steininn í persneskri mynd frá 1315.Enginn hefur fengið leyfi til að rannsaka Svarta Stein, og er því óljóst hver uppruni hans er. Samt sem áður hefur verið bent á að hann er líkari gleri eða tinnu en venjulegum steini, og af þeim sökum er nú almennt talið að hann sé tektít. Um 1100 kílómetra frá Mekku, þar sem forna borgin Wabar stóð, eru gígar sem mynduðust við árekstur loftsteins eða smástirnis í eyðimörinni í Arabíu fyrir um 6000 árum. Umhverfis Wabar gígana finnst dreif af gleri eða tektít efni, sem virðist líkjast Svarta Steini. Wabar gígurinnÞví miður fáum við ekki staðfestingu á þessari kenningu fyrr en rannsókn á Svarta Steini hefur verið framkvæmd, en það eru litlar líkur á að leyfi fáist til slíkra rannsókna. Ég vil að lokum benda á ágæta umfjöllun um árekstragíga á Stjörnufræðivefnum http://www.stjornuskodun.is/forsida/38-solkerfi/73-arekstragigar

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kærar þakkir Haraldur fyrir einstaklega áhugaverða og vandaða bloggsíðu.

Með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 7.1.2010 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband