Gýs Hekla eftir 32 mínútur?

Heklugos eftir Larsen 1845Umræðan er rétt að byrja um næsta gos Heklu, í fjölmiðlum og á blogginu, og auðvitað vilja menn fá að vita HVENÆR hún byrjar að gjósa. Hekla hefur gosið átján sinnum síðan land byggðist (nokkur gos í viðbót hafa einnig orðið í næsta nágrenni við Heklu) og nítjánda gosið er í aðsigi, ef dæma má út frá jarðeðlisfræðilegum gögnum. Að meðaltali hafa liðið 52 ár milli gosa, en lengsta goshlé á sögulegum tíma er 120 ár. Sennilega var 200 til 300 ára langt hlé undan stórgosinu árið 1104. Það má segja að yfirleitt kemur stærra gos eftir langt goshlé, og einnig er efnasamsetning kvikunnar nokkuð háð lengd á goshléi. Annars er næstum lýgilegt hvað Hekla hefur verið reglubundin undanfarið og haldið sig við áratugina, með gos árin 1970, 1980, 1991, 2000 og nú ef til vill 2010? Það er gott, því stutt goshlé ætti að þýða fremur lítið gos. Það er frægt orðið, að spáð var fyrir um Heklugos 2000 og tilkynnt almenningi amk. 15 mínútum áður en gos hófst. Fyrstu merkin komu fram á jarðskjálftamæli Háskóla Íslands á Litlu Heklu um kl. 17 og nokkrum mínútum síðar fór mælir í Haukadal að nema titring. Sjálfvirkt viðvörunarkerfi Veðurstofunnar gaf viðvörun kl. 17.31 og þá vissu Almannavarnir af fyrirboðum eldgoss. Áður en Hekla gaus árið 2000 var búið að koma fyrir ýmsum tækjabúnaði umhverfis eldstöðina, og af þeim sökum eru til mjög góð gögn varðandi upphaf gossins það ár. Kristján Ágústsson, þá hjá Veðurstofu Íslands, fylgdist með þenslumælingum í grennd við Heklu, sem skynjuðu spennubreytingar í jarðskorpunni.  Kristján ÁgústssonLínuritið fyrir neðan sýnir ferli þenslumæla við Búrfell og Skálholt gosdaginn, 26. febrúar 2000. Hér virðist vera glöggt merki um aðdraganda gossins, en þenslumælirinn við Búrfell sýnir greinilega samþjöppun í berginu, sem hefst kl. 17:45 og eykst þar til gos byrjar kl. 18:17. Það líða sem sagt aðeins 32 mínútur frá þvi að mælirinn skynjar breytingu og þar til gosið hefst. Gögn frá þenslumælum umhverfis Heklu eru uppfærð á mínútu fresti á vef Veðurstofunnar, og er einkum fróðlegt að fylgjast með mælinum á Búrfelli. Hann sýnir miklar sveiflur undanfarið, en að hluta til eru þær orsakaðar af breytingum í loftþyngd, sem eru háðar veðurfari. Sjá hér: http://hraun.vedur.is/ja/strain/plot/solmyndir/solarhringur.htmlEn nú eru önnur tæki sem geta veitt upplýsingar. Hingað til hafa jarðskjálftar ekki aukist mikið á Heklusvæðinu, enda hafa þeir ekki verið góð aðvörun eða vísbending um aðsígandi gos. Önnur mæling sem gæti gefið mikilvægar upplýsingar er órói eða titringur á jarðskjálftamælum. Næsta stöð sem skráir óróa, og uppfærð reglulega á vef Veðurstofunnar, er sjálfvirki jarðskjálftamælirinn að Haukadal á Rangárvöllum, sem er um 10 kílómetrum fyrir vestan Heklu. Gögn frá honum varðandi óróa má skoða hér:http://hraun.vedur.is/ja/oroi/En reynslan frá gosinu árið 2000 sýnir að óróinn kemur fyrst fram um leið og gos byrjar og er hann því ekki beint gott tól til að spá fyrir um gos. Í heildina litið hafa orðið mjög miklar framfarir í því að skynja yfirgnæfandi eldgos á Íslandi, einkum í eldfjalli sem er jafn vel vaktað og vel þekkt eins og Hekla. Það verður því fylgst jafn náið með næsta gosi, eins og þegar ríkiserfingi er að fæðast. Heklumyndin sem fylgir þessum pistli er eftir danska málarann Emmanuel Larsen (1823-1859) og sýnir eldfjallið gjósandi árið 1845. Þessi aquatint mynd er sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Larsen var á Íslandi þetta ár. Gosið hófst í september of öskufall dreifðist alla leið til Bretlandseyja. Síðan kom hraunstrumaur en gosið varði í sjö mánuði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fróðlegur pistill. En öll athygli þjóðarinnar er bundin við aðra og líklega merkari atburði! en smátíðindi á borð við yfirvofandi Heklugos með ófyrirséðum afleiðingum fyrir náttúru og mannlíf í byggðum þessa lands.

Núna bíður stærstur hluti þessarar vel upplýstu og langskólamenntuðu þjóðar eftir svari frá forsetanum svo fólk geti rifið það sem eftir er af hárflygsunum af heift og haldið áfram að þjást.

Árni Gunnarsson, 4.1.2010 kl. 23:14

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Væri ekki gott að fá eldgoseinmitt núna til að dreifa athyglinni? Allt okkar þras um dægurmál mannfólksins á borð við IceSave hverfur í gleymsku, en móðir jörð mun halda áfram sinni iðju langt eftir að okkar fáu augnablik á yfirborði hennar eru liðin.

Kveðja

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 4.1.2010 kl. 23:28

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er svo illa komið fyrir þessari þjóð Haraldur að verði eldgos þá mun það verða túlkað sem refsing máttarvaldanna á forsetann.

Annað hvort fyrir að hafa hafnað undirritun IceSave laganna ellegar þá fyrir að hafa undirritað þau.

En ég skal reyna að deila með þér bjartsýni á að Hekla gamla geti loksins orðið þjóðinni til gagns með því að ræskja sig.

Kv. 

Árni Gunnarsson, 5.1.2010 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband