Storknun kvikugangsins er að draga úr kvikurennsli.
24.5.2024 | 19:56
Það er ljóst að það er kvikugangur undir Sundhnúksgígaröðinni, en kvikugangur er einfaldlega sprunga sem er full af um 1150 til 1200 stiga heitri basalt kviku. Hvernig líta slíkir gangar út? Í Tertíeru blágrýtismynduninni á Íslandi finnst mikill fjöldi basalt ganga af þessu tagi. Hér á myndinni er einn slíkur, en hann sker forn hraunlög á norðanverðu Snæfellsnesi. Takið eftir að gangurinn er margfaldur. Vinstra megin má sjá amk. sex lóðrétt lög. Þessi lóðrétta lagskifting verður til vegna þess að þegar heit kvika streymir upp sprunguna, þá kólnar kvikan við snertingu við kalt bergið umhverfis, og þá myndast lóðrétt 5 til 10 cm þykk skán af storknu basalti yst á ganginum. Þegar næsta gos verður myndast önnur skán innar, og svo koll af kolli. Í Sundhnúksgígaröðinni hafa orðið sex gos síðan í nóvember 2023, og gangurinn sem liggur þar undir er eflaust með slíkar skánir eins og myndin sýnir. Við þetta þrengist gangurinn smátt og smátt og þar með dregur óhjákvæmilega úr rennsli upp á yfirborðið. Það er einmitt það sem við sjáum í gögnum Veðurstofunnar. Í fyrsta kvikuhlaupi í nóvember 2023 var rennsli um 750 þúsund rúmmetrar á dag, en síðan hefur dregið stöðugt úr því, niður í 250 þúsund rúmmetra á dag í síðasta kvikuhlaupi. Í maí 2024. Kólnun og storknun kviku á jöðrum gangsins er stöðugt að þrengja aðfærsluæðina og mun að lokum stöðva virknina undir Sundhnúksgígaröðinni. Út frá slíkum gögnum höfum við Grímur Björnsson því spáð goslokum í byrjun júlí í ár. Nú, Almannavarnir gefa lítið fyrir slíkar spár og kalla framtak okkar ´´tölfræðileik´´ (Mbl. 18. mars, 2024). Aðrir kynnu að kalla slíka starfsemi vísindi. Það er leitt og reyndar töluvert áhyggjuefni að Almannavarnir hafi slík neikvæð viðhorf gagnvart vísindunum.
Það veltur því allt á því hvað kvikan í ganginum kólnar hratt og storknar. Ég hef áður fjallað um það hér
https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/2296515/. Þar sýndi ég fram á að kólnunin er aðallega háð þykkt gangsins, sem er því miður óþekkt stærð í Sundhnúk. En líkön sýna að gangur sem er um meter á þykkt kólnar á nokkrum klukkustundum. Gangur sem er um 10 metrar á þykkt tekur vikur að kólna. Um leið og ný kvika streymir upp í miðjan ganginn þá stöðvast frekari storknun, en storknuð rönd hefur myndast á jaðrinum. Þannig þrengist kvikugangurinn stöðugt og hindrar að lokum allt kvikuflæði í Sundhnúksgígaröðinni. En hvað tekur við næst og hvar á Reykjanesi er auðvitað algjör óvissa.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)