
Árið 1965 birti breski loftslagsfræðingurinn Hubert Lamb merkar niðurstöður varðandi loftslagsbreytingar á miðöldum. Miðaldir er tímabilið frá um 500 til 1500 e. Kr. Hann taldi að loftslag hefði verið mun mildara á norðurhveli jarðar allan fyrri hluta miðalda, allt fram að um 1300.
Þessi niðurstaða var styrkt af rannsóknum
LaMarche árið 1974 á trjáhringjum í Norður Ameríku.
Íslandssagan fræðir okkur um loftslag á Íslandi á Miðöldum og styrkir skoðun Huberts Lamb.
Þegar forfeður vorir sigldu frá Noregi og Bretlandseyjum á níundu öld, og héldu áfram til Gænlands og alla leið til Vínlands Norður Ameríku, þá var loftslag tiltölulega milt og sennilega jafnvel mildara veðurfar en nú ríkir.
En svo fór kólnandi, siglingarleiðir til Vínlands og Grænlands spiltust vegna hafíss.
Þannig tók tímabilið sem nefnt hefur verið Litla Ísöldin
(Little Ice Age, LIA) við af hlýskeiði Miðalda.

Nú tala loftslagsfræðingar um hlýskeiðið sem Medieval Climate Anomaly, eða MCA, og það náði yfir miklu stærra svæði en Norður Atlantshaf, einnig Norður og Suður Ameríku.
Fyrsta myndin sýnir inngeislun sólar til jarðar.
Þar kemur fram, að inngeislun minnkar töluvert þegar hlýskeiðinu MCA lýkur, og þegar Litla Ísöldin LIA hefst, í kringum árið 1230 eða svo.
Það er mæling á geislavirkum efnum í ískjörnum frá heimskautunum, sem gefa slíkar upplýsingar um inngeislun sólar í gegnum aldirnar.
Efnið Beryllíum-10 er eitt af þeim, en samsætur eða ísótópar af þessu efni myndast þegar að geimgeislar splundra köfnunarefnisatómum í lofthjúpi jarðar. Getur það verið, að sveiflur í virkni sólar séu þetta miklar, og hafi slík djúptæk áhrif?
Spennandi verkefni til að fylgjast með í framtíðinni.
Önnur myndin sýnir sveiflur í meðalhita á Grænlandi, samkvæmt mælingum á ískjörnum sem hafa verið teknir úr Grænlandsjökli.
Frávik frá meðalhita er mjög jákvætt alveg fram undir árið 1200, og sýna þessi gögn vel hlýskeiðið á Miðöldum, eða MCA.
Þá fer kólnandi, eins og Íslandssagan segir okkur, með Litlu Ísöldina LIA á fimmtándu og sextándu öldinni.
Þessar loftslagssveiflur eru raunverulegar, hafa mjög víðtæk áhrif, en orsakirnar eru ekki enn ljósar.
Svo virðist sem sveiflur í virkni sólarinnar geti vel verið orsökin.