Færsluflokkur: Aska og flug
Sangeang Api sprengigosið
31.5.2014 | 11:22
Nú er hafið sprengigos í eldfjallinu Sangeang Api í Indónesíu, en það er á lítilli eyju í austur hluta landsins. Það eru engar stórfréttir að gos hefst í Indónesíu, enda eru ðar 150 virk eldfjöll og gos einhversstaðar á hverjum degi. En þetta gos er stórt, öskumökkurinn er kominn í yfir 16 km hæð, og bert hratt til suðurs. Askan hefur því truflað flugsamgöngur í Ástralíu norðanverðri og ef til vill víðar. Ég hef oft komið til Sangeang Api, þar sem eldfjallið er í grennd við Tambora eldfjall, en þar hef ég starfað síðan 1986.
Eldgos í Síle lokar á flugið
12.7.2011 | 06:40
Í öllum þeim óróa sem ríkt hefur í jarðskorpunni hér á landi í ár, þá hafa margir sjálfsagt ekki tekið eftir merkum atburði á suðurhveli jarðar. Það er eldgosið í fjallinu Puyehue-Cordon Caulle í Síle, sem hefur nú hvað eftir annað stöðvað flugumferð í nokkrum löndum Suður Ameríku, Suður Afríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Jarðskjálftavirkni jókst undir Puyehue-Cordon Caulle í lok apríl 2011 og í byrjun júni var virknin komin í um 60 skjálfta á klukkutíma. Hinn 3. júní árið 2011 voru 230 skjálftar á klukkutíma, og 4. júní hófst sprengigos í Cordon Caulle gígnum. Fyrsta myndin sýnir gjóskustrókinn upp af eldfjallinu. Gjóskustrókurinn fór strax í yfir 12 km hæð og gjóskuflóð streymdu yfir nágrennið. Næsta dag hafði gjóskumökkurinn borist til austurs yfir Argentínu og út á Atlantshaf. Eldfjallið er staðsett á um 40,5 gráðu suðlægrar breiddar, og fylgdi askan nokkurn veginn þessari breiddargráðu umhverfis hnöttinn. Þá barst askan yfir suður odda Suður Afríku, og síðan áfram austur yfir Ástralíu í um 6 til 13 km hæð. Þar varð að loka flugvöllum í Sidney og Melbourne og flugfélögin Qantas og Virgin hættu við flug á þessa staði. Vegna lokunar á flugvöllum voru hundruðir þúsunda strandaglópar, og meir en sjö hundruð flugferðum var aflýst. Áhrifanna gætir enn í Argentínu og í Síle, þar sem flugsamgöngur hafa verið lamaðar. Öskumökkurinn hefur nú borist nokkra hringi umhverfis jörðina, frá vestri til austurs, eins og önnur myndin sýnir. Þriðja myndin er frá Veðurstofu Kanada, og sýnir dreifingu öskunnar á suður hveli jarðar. Ég vil sérstakelga benda á hreyfimynd af líkani sem Kanadamenn hafa gert, en hana má skoða hér:
Gosinu er ekki lokið, og er hætt við að áhrifa þess gæti áfram á flugsamgöngur á suðurhveli jarðar um tíma.
Aska og flug | Breytt s.d. kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)