Færsluflokkur: Eldfjallagas

Hvað Kemur Mikið Koltvíoxíð upp í Eldgosum?

  Hringrás koldíoxíðsÞað er eitt gas sem allir kannast við, en það er koltvíoxíð.  Bólurnar í kókinu eru til dæmis koltvíoxíð. Mikið af gasinu sem myndar gjóskustrókana nú á Fimmvörðuhálsi er koltvíoxíð.  Þetta er líka gasið í andrúmsloftinu sem kann að vera að valda loftslagsbrytingum.  Þetta er  gasið sem myndast við bruna á eldsneyti af lífrænum uppruna (benzín, kol, dísel, eldiviður), hvort sem það er í vélinni í bílnum þínum eða í kolakynntum raforkuverum í Evrópu eða í verksmiðjum í Kína. 

Koltvíoxíð streymir milli hinna ýmsu hluta jarðkerfisins. Það streymir niður úr andrúmsloftinu og inn í sjóinn, og einnig frá landinu upp í andrúmsloftið, eins og til dæmis myndin fyrir ofan sýnir.  En takið eftir því að eldgos eru aldrei sýnd í slíkum myndum!  Hvernig stendur á því?  Er ekki einmitt koltvíoxíð að streyma upp í gjóskustrókunum á Fimmvörðuhálsi og út í andrúmsloftið  og reyndar í öllum eldgosum?  Jú, vissulega, en hvað mikið magn af koltvíoxíð gasi kemur uppúr eldfjöllum?  Er verið að blekkja okkur með öllu þessu tali um loftslagsbreytingar af manna völdum,  af því að eldgosin eru ekki tekin með í reikninginn?  Við skulum athuga það nánar, og kanna hvort það sé satt, eins og sumir vilja halda fram, að eldfjöllin séu miklu verri mengunarvaldur en sjálft mannkynið, með alla sína bíla og gas-spúandi verksmiðjur. Það er skylt að benda á að Loftslag.is hefur áður bloggað fróðlega um þetta efni.  Útlosun heimsins

Það er nokkuð auðvelt að reikna út heildarlosun eða það magn af koltvíoxíði sem streymir út í andrúmsloftið af völdum mannkynsins um heim allan.  Markaðurinn gefur okkur áreiðanlegar tölur yfir  magna af eldsneyti sem er selt um heim allan á hverju ári, og útkoman er sú, að nú er heildarlosun í heiminum um það bil 30 miljarðar tonna á ári af CO2. Myndin sýnir hvernig það skiptist milli landa, en Kína og Bandaríkin eru auðvitað lang stærst.  Heildarlosun á Íslandi af koltvíoxíði var 4235 þús. tonn árið 2006 en er nú komin yfir 5200 þúsund tonn, samkvæmt spá Umhverfisstofnunar. Koldíoxíð frá Íslandi

Það er ekki eins einfalt að áætla heildarlosun af koltvíoxíði frá eldfjöllum heimsins.  Þess ber að gæta að um 80% af öllum eldgosum eru neðansjávar, á úthafshryggjum, og  þvi tiltölulega óþekkt fyrirbæri. Samt er nú nokkuð gott samræmi á tölum um heildarútlosun koltvíoxíðs frá öllum eldfjöllum, bæði á landi og í sjó. Það er nú talið á bilinu 130 til 250 miljón tonn af koltvíoxíði á ári um allan heim.  Framlag eldfjalla er því aðeins 1/120 til 1/230 af heildarlosun koltvíoxíðs á jörðinni, eða vel innan við eitt prósent.  Sem sagt: það er ekki hægt að kenna eldgosum um loftslagsbreytingarnar, amk. ekki ío þetta sinn.  Hins vegar geta stór sprengigos orsakað mikla kólnun á jörðu, en það er nú önnur saga.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband