Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Elstu lífverurnar

strom.jpgHvenær byrjaði líf á jörðu?  Við vitum að jörðin varð til fyrir um 4,54 milljörðum ára. En elsta efni eða steinar sem hafa fundist á jörðu eru kristallar af zirkon í Ástralíu, sem eru um 4,4 milljarðar ára gamlir.   En hvenær kviknaði líf, eða hvenær barst líf til jarðar utan úr geimnum? Nú virðist sem elstu steingervingarnir séu fundnir í elsta bergi jarðar á Grænlandi, og þeir reynast vera um 3,7 milljarðar ára gamlir. Ef til vill munu enn eldri leifar af lífverum finnast síðar, en þessi merki fundur sýnir okkur að líf varð til á jörðu ótrúlega snemma í sögu plánetunnar, eða minna en 840 milljón árum eftir að hún varð til. Það er snemma, af því að í fyrstu var jörð algjörlega óbyggileg, glóandi heitur eldhnöttur. Hún þurfti því að kólna töluvert áður en líf sem er myndað úr kolvetnissamböndum gat þróast. Einnig var jörðin fyrir sífeldri árás loftsteina á þessum tíma, sem gerði öllu lífi erfitt uppdráttar.   Fyrri myndin sýnir elstu steingervingana á Grænlandi.    stromatolite_block_copy.jpg Fundarstaðurinn á Grænlandi er í Isua mynduninni, sem myndar jarðskorpuna á vestur hluta landsins, skammt fyrir norðaustan höfuðborgina Nuuk. Steingervingarnir eru stromatolites eða strýtuþörungar, sem eru myndaðir af fremur frumstæðum blágerlum eða cyanobacteria. Að sumu leyti minna þeir mig mest á skófir á steinum.   Stromatolites eða strýtuþörungar eru ekki enn alveg útdauðir á jörðu. Ég hef fundið þá á lífi í dag á tveimur stöðum. Annar staðurinn er í öskjunni á eynni Santorini í Eyjahafi, eins og myndin sýnir. Hinn staðurinn er í gígnum Satonda í Indónesíu, en báðir þessir gígar eru fylltir sjó.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband