Styrkið vísindin til að verjast náttúruhamförum
12.2.2024 | 17:09
Albert Einstein var einn fremsti vísindamaður heims. Í lok ferils síns sagði hann Það er eitt sem ég hef lært á langri ævi, að öll okkar vísindi eru frumstæð og barnsleg í samanburði við raunveruleikann, en samt eru vísindin það allra dýrmætasta sem við eigum. Satt að segja er þetta einnig trúarjátning mín.
Nú í dag eru það vísindin sem gera okkur kleift að mæla, túlka og skilja þau umbrot sem eru að gerast á Reykjanesi í dag og nota þær upplýsingar til að reyna að spá um hvað gæti gerst næst. Aldrei fyrr hafa vísindin verið jafn mikilvæg á Íslandi. Erum við að beita þeim rétt? Strax og umbrotin hófust í jarðskorpunni á Reykjanesi árið 2020 var ljóst að nýr kafli í jarðsögu Íslands er hafinn. Eftir um 800 ára langt hlé er allur skaginn að vakna og töluverðar líkur á að jarðskorpuhreyfingar, gliðnun og eldgos verði víða á öllu þessu svæði, frá Reykjanestá og allt til Hengils næstu áratugina eða aldir. Um helmingur þjóðarinnar býr á þessu svæði. Hér á Reykjanesskaga eru flestir helstu innviðir landsins, alþjóðaflugvöllur, hafnir fiskveiðaflotans og mikil orkuframleiðsla. Það er því mikið í húfi.
Við erum svo heppin að við Háskóla Íslands starfa nokkrir vísindamenn sem eru meðal þeirra fremstu á jörðu á sviði rannsókna í jarðeðlisfræði flekamóta og jarðefnafræði basalt kviku. Þeir deila nú óspart þekkingu sinni til samstarfsmanna og nemenda varðandi Reykjanes. Það eru þeirra vísindi sem mynda rammann utan um þekkingu okkar á jarðvá og eðlilegast væri að þessi hópur vísindamanna stýri beint aðgerðum í sambandi við jarðvá. Þeir hafa þegar tekið á sig mikla ábyrgð varðandi gagnasöfnun og túlkun gagna og eiga með réttu að setja fram beint niðurstöður sínar til almennings og yfirvalda. Að setja lögregluvald eða Almannavarnir inn sem millilið í þennan alvarlega leik er ekki aðeins óþarfi heldur hættulegt, þar sem þar er ekki fyrir hendi vísindaleg þekking.
Viðbrögð við slíkum alvarlegum atburðum sem eru að gerast nú og þeim sem blasa við í náinni framtíð eiga með réttu að vera þrennskonar og í þessari röð.
- Vísindaleg rannsókn á ástandi og virkni jarðskorpunnar og mælingar á þeim kröftum sem eru að losna úr læðingi.
- Endurskoðun á aðalskiðulagi og hættumati í öllum byggðum á Reykjanesi og þar með einnig Reykjavík.
- Stöðugar mælingar á aflögun jarðskorpunnar með þéttu neti af jarðskjálftamælum, GPS tækjum, radar mælingum frá gervihnöttum og annari tækni sem skynjar slíkar breytingar. Einnig er mikilvægt að rannsóknir á sviði jarðefnafræði séu styrktar til að fylgjast með breytingum á samsetningu á kviku og gasi.
Eitt mikilvægasta atriði er að stjórnun og eftirlit með slíkum rannsóknum á að vera í höndum þeirra jarðvísindamanna sem standa í fremstu röð á sviði jarðeðlisfræði og jarðefnafræði á Íslandi. Auk þess að færa stjórnun á öllu eftirliti varðandi jarðvá í hendur vísindamanna er nauðsynlegt að veita fjármagn til að styrkja og stækka það net af mælitækjum sem þörf er á og stuðla fekar við menntun á háskólasviðinu í jarðeðlisfræði og jarðefnafræði.
Vöktun, rannsóknir og eftirlit með jarðvá er stórt og mikilvægt framtíðarverkefni á sviði vísindanna á Íslandi. Það hefur verið olnbogabarn á Veðurstofu Íslands í mörg ár, en nú er verkefnið svo mikilvægt að það krefst sjálfstæðrar vísindastofnunar. Íslenskir vísindamenn á sviði jarðeðlisfræði og jarðefnafræði eru nú leiðandi á heimsmælikvarða á þessu sviði. Nú sýnir raunveruleikinn okkur það á Reykjanesi að það er brýn nauðsyn fyrir velferð og efnahag þjóðarinnar að bregðast sem fyrst við og mynda sjálfstæða vísindastofnun sem er helguð jarðvá og svarar beint til efstu yfirvalda landsins varðandi yfirvofandi hættur og viðbrögð við þeim.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.