Nú vitum við hvers vegna Grindavík er enn lokað
14.12.2023 | 18:42
Þetta kom fram á íbúafundi Grindvíkinga hinn 12. des. 2023, sem Morgunblaðið segir frá. ´´Það verða sennilega engin jól haldin í Grindavík þar sem ekki er talið óhætt fyrir Grindvíkinga að flytja aftur heim fyrir áramót. Stór ástæða fyrir því að er að Veðurstofa Íslands treystir sér ekki til þess að sjá um ásættanlegt eftirlit á svæðinu að næturlagi.´´
Veðurstofan treystir sér ekki til þess að halda úti öflugu eftirliti með svæðinu að næturlagi, sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.´´ Og svo þetta ´´Til að halda úti ásættanlegu eftirliti, og þar með tryggja öryggi Grindvíkinga í bænum, þyrfti m.a. að fá nægan mannskap í verkið og viðeigandi tækjabúnað, þar sem fyrirvari eldgoss gæti orðið afar lítill.´´ [Það] virðist ekki óhætt í dag að hleypa fólki inn í Grindavík á þessu ári, sagði hann. Má túlka þetta þannig, að ef Veðurstofan sendir inn á völlin nægilegt lið til að halda vaktir dag og nótt, þá mætti opna bæinn?
Frá 11. desember 2023 hef ég birt um 20 þætti um jarðskorpuhreyfingar þær sem nú eru í gangi í grennd við Grindavík, í boggi mínu á https://vulkan.blog.is. Viðbrögð voru góð en flettingar á bloggsíðu minni hafa verið alls 1.283.927 til þessa. Einnig hafa skoðanir mínar komið fram í viðtölum við ýmsa fjölmiðla, innlenda og útlenda. Ég setti strax fram þá skoðun mína að þessir atburðir væru fyrst og fremst jarðskorpuhreyfingar, tengdar gliðnun Norður Ameríkuflekans til vesturs, frá Evrasíuflekanum í austri. Kvika væri vissulega fyrir hendi á svæðinu, eins og kom fram í þremur litlum gosum í grennd við Fagradalsfjall árin 2021, 2022 og 2023, en það væri ekki kvika sem ráði ferðinni hér, heldur flekahreyfingar.
Myndun á bólu eða risi lands um 50 til 100 ferkílómetar að flatarmáli, fyrst í Fagradaldfjallseldstöðinni og síðar í krinum Þorbjörn og Bláa Lónið eru sennilega ótvíræð merki um að hraunkvika er fyrir hendi neðst í eða undir jarðskorpunni. Þrátt fyrir mikla gliðnun og hugsanlega myndun kvikugangs norðan Grindavíkur, þá hefur kvikan ekki náð enn upp á yfirborð. Myndin sýnir bóluna (rautt) sem markar landris fyrir norðan Grindavík frá 19. nóvember 2023. Kvikuþrýstingur eða kvikumagn í bólunni nálægt botni jarðskorpunnar er ekki nægjanlegt til að valda eldgosi. Það er ekkert nýtt fyrirbæri á Íslandi, að jarðskorpan rifni og skjálfi, án þess að úr verði eldgos.
Það er ekkert sem bendir til að það sé að vænta breytinga á þessu ástandi á næstunni. Þrátt fyrir það hafa Almannavarnir lokað Grindavíkurbæ og flutt alla íbúa á brott. Allt bendir til að sú lokun standi fram á næsta ár. Það er erfitt að gera sér í hugarlund þau áhrif sem langtíma lokun og rýming bæjarins hefur á efnahag og enn fremur á hugarfar og sálarástand íbúanna sem nú eru í útlegð. Hver og einn getur reynt að seta sig í spor flóttafólksins. Að mínu áliti er lokunin og framlenging hennar ekki réttlætanleg frá sjónarhóli jarðfræðings sem hefur rannsakað eldfjöll í sextíu ár. En skrif mín á blogginu hafa verið eins og hróp í eyðimörkinni. Enginn heyrir, og þeir sem heyra taka ekki mark á skoðunum aðila sem fylgir ekki hinni opinberu línu.
Mér er reyndar óskiljanlegt hvers vegna Almannavarnir og Veðurstofan hafa haldið áfram lokun á Grindavík. Íslendingar hafa alltaf vitað að þeir búa á landi þar sem náttúrhamfarir eru óhjákvæmilegur þáttur lífsins. Það þarf seiglu til að búa á slíku landi og það er viss áhætta, en það er einmitt eitt af aðalsmerkjum Íslendinga.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Jarðskorpan | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.