Stjórnarmorðin í Grenada voru fyrir 40 árum
30.11.2023 | 13:04
Hinn 19. oktober, 1983 var Maurice Bishop, forsætisráðherra eyjarinnar Grenada í Karíbahafi, tekinn af lífi ásamt sjö öðrum starfsmönnum í ríkisstjórn eyjarinnar. Þessi hryllilegi atburður hafði mikil áhrif á mig, þar sem ég þekkti persónulega ýmsa aðila sem stóðu báðum megin í þessu máli.
Árin 1970 til 1974 starfaði ég sem eldfjallafræðingur við University of the West Indies, en háskólinn var staðsettur í Trinidad. Fyrir norðan mig var löng keðja af eldfjallaeyjum, þar á meðal Grenada, sem voru flestar virkar og þar var aðal starfssvið mitt. En í háskólanum kynntist ég ýmsu fólki, og þar á meðal var hópur af Marxiskt-Leninistum, sem voru innfæddir Karíbahafsmenn að uppruna, en höfðu allir verið í háskólanámi á Bretlandi. Þar höfðu þeir drukkið í sig þá hörðu vinstri stefnu, sem réði allri stjórnmálaumræðu innan breskra háskóla á þeim tíma og færðu nú þessar róttæku kenningar með sér heim til Karíbahafsins. Ekki má gleyma því í þessu sambandi að þessi vel menntaði hópur innfæddra manna og kvenna þurfti yfir leitt ekki að rekja ættir sínar meir en tvær eða þrjár kynslóðir aftur í tíma, en þá var komið að forfeðrum sem voru þrælar í ánauð. Byltingarandinn sauð og kraumaði undir niðri og einnig Black Power hreyfingin. Myndin er af Maurice Bishop.
Þegar ég kem fyrst til Grenada, þá er þar einræðisherra við völd, sem hét Eric Gairy. Hann stýrði landinu með harðri hendi og beitti óspart hópi af glæpamönnum, sem nefndist Mongoose Gang, til að myrða fólk eða þvinga til síns máls. Gairy var í miklu uppáhaldi hjá Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna, vegna þess að hann barði niður allar hreyfingar sem prédikuðu sósíalisma. Maður gat ekki hugsað sér betri blöndu til þess að hleypa af stað byltingu á þessum tíma, en að hræra saman Marxiskt-Leninistum eins og þeim sem höfðu sig mikið frammi í háskólum í Vestur Indíum og harðstjórum eins og Eric Gairy í Grenada.
Maurice Bishop og kunningi minn Bernard Coard voru báðir komnir heim og sestir að á Grenada um það leyti er ég flyt frá Trinidad 1974. Þeir stofna samtök sem heita New Jewel Movement, en var í raun pólitískur flokkur með hreina Marxist-Leninist stefnu. Þeir tóku þátt í kosningum í Grenada, en harðstjórinn Gairy stjórnaði atkvæðatalningu og réði úrslitum allra kosninga.
Þeir létu til skarar skríða í mars 1979, þegar Gairy var fjarverandi í Bandaríkjunum. Sveitir sem tilheyrðu New Jewel Movement tóku ríkisstofnanir, herstöðvar, lögreglustöðvar og helstu byggingar, án þess að mótstaða væri gerð. Byltingunni var lokið. En vandinn var sá, að þetta voru flestir theóretískir Marxistar, sem höfðu enga reynslu af því að sjórna heilu ríki. Bishop var skipaður forsætisráðherra, en hann hafði mikið persónulegt fylgi í landinu.
Það ríkti mikil gleði og góður andi í Grenada strax eftir byltinguna. Frelsissinnar og Marxist-Leninist fólk þyrptist til Grenada til að vinna fyrir byltinguna. Þar á meðal var fyrverandi eiginkona mín, Carol Davis frá Guyana, en hún var hagfræðingur að menntun og tók nú þatt í myndun nýs hagkerfis fyrir Grenada.
Ég var starfandi í Bandaríkjunum á þessum tíma, en hafði mörg rannsóknarverkefni í Karíbahafi og á eldfjallaeyjunum. Þar á meðal vann ég mikið við athuganir á virku neðansjávareldfjalli rétt norðan Grenada, sem heitir Kickém-Jenny. Í einni ferð minni árið 1981 ferjaði vinur minn mig í einkaflugvél sinni frá eynni Mustique til Carriacou, sem er rétt norðan við Grenada. Þar fékk ég litla trillu til að komast á eynna Isle de Caille. Eyjan er mjög ungt eldfjall og var þá ókönnuð. Eftir störf mín þar hélt bátsferðin áfram til norður strandar Grenada.
Ég átti góða daga á Grenada. Við Carol hittumst og hún lýsti fyrir mér því mikla starfi sem nýji forsætisráðherrann Maurice Bishop og hans fólk væri að gera eftir byltinguna. Hún var á kafi í hagfræðimálum hins nýja ríkis og hægri hönd Bishops á því sviði. En samt fékk ég það á tilfinningunni að hún mundi ekki ílengjast á Grenada. Sem reyndist raunin, því hún flutti til Jamaika ári síðar í lögfræðinám.
Einn daginn er ég staddur á veitingahúsi í höfuðstaðnum St. Georges að snæða máltíð. Allt í einu er kallað hárri röddu fyrir aftan mig; ´Haraldur! Are you here working for the CIA!´ Ég snéri mér við í sætinu og horfði á stóran, þrekvaxinn og skeggjaðan mann. Þarna var sjálfur Bernard Coard kominn, varaforsætisráðherra landsins og harðlínumaðurinn.
Við heilsuðumst hlýlega og drukku nokkra bjóra saman. Hann vissi alt um jaðfræðistörf mín á Grenada og á hafsbotninum umhverfis. Sennilega tókst mér að sannfæra hann um, að ég væri ekki að njósna fyrir CIA, en viðbrögð hans voru alveg eðlileg undir þessum kringumstæðum. Bernard hafði haft fregnir af ferðum mínum og vissi að ég hafði komið inn bakdyramegin til Grenada.
Mín fyrverandi eiginkona Carol rétt slapp frá Grenada, því skömmu eftir brottför hennar sprakk allt í loft upp. Það er oft sagt að byltingin éti börnin sín, og á það vel við hér. Deilur höfðu komið upp innan byltingarstjórnarinnar, einkum milli Maurice Bishop og Bernard Coard. Það er enn óljóst hvað gerðist vegna þess að miðstjórn flokksins var lokuð og nær engar upplýsingar bárust af fundum hennar. Um miðjan október 1983 gerðu Bernard Coard og fylgismenn hans tilraun til að taka öll völd úr höndum Bishops og hnepptu hann í stofufangelsi. Fylgismenn Bishops streymdu út á götur borgarinnar í tugþúsundatali 19. október, og náðu að frelsa hann úr fangavist. Í raun snéri Bernard Coard nú frá hinni Marxist-Leninist stefnu og tók upp hreinan Stalínisma.
En hersveitir sem voru undir stjórn Bernard Coard snéru vopnum sínum á mótmælendur, skutu marga til dauða og særðu fjölda manns. Hersveitin tók Bishop og sjö helstu samstarfsmenn hans fasta, færðu þá í gamalt virki í borginni, stilltu þeim upp við vegg og skutu þá til bana. Lík þeirra hafa aldrei fundist.
Ríkisstjórnir í öllum nágrannaríkjum voru agndofa yfir þessu hryðjuverki en brugðu skjótt við og undirbjuggu strax innrás í Grenada undir stjórn Bandaríkjanna, sem hófst 25. október 1983. Bernard Coard var tekinn fastur, dæmdur til dauða, en siðar var því breytt í fangelsisvist fyrir hann og sjö ódáðamenn hans. Hann sat alls 26 ár í fangelsi, en er nú laus og dvelur á Jamaika.
Bandaríkin, undir stjórn Ronalds Reagan, höfðu alltaf horn í síðu byltingarmanna á Grenada og óttuðust að kommúnista áhrif kynnu að breiðast út umhverfis Karíbahaf. En byltingin át börnin sín og Ameríkanar þurftu ekki fyrir neinu að hafa, nema að gera hreint í lokin.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Mannfræði | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.