Viltu græða peninga?: vísindaritaútgáfan

Ert þú að leita að arðbærum “business” til að fjárfesta í? Ég er hér með svarið fyrir þig: útgáfufyrirtæki vísindarita. Úgáfa vísindarita eru viðskifti á heimsmælikvarða, með heildarveltu sem er meir en $20 milljarðar á ári hverju. Veltan hjá vísindaútgefendum á heimsmælikvarða er því einhvers staðar á milli plötuútgefanda og kvikmyndaiðnaðarins.  

Ég hef gefið út bækur (Encyclopedia of Volcanoes) hjá einum þeim stærsta á þessum markaði, en það er Elsevier. Árið 2010 voru tekjur hjá Elsevier $922 milljón, með veltu sem var rúmlega 2,5 milljarðar. Það eru 36% tekjur, sem er hærri prósentutala en hjá Apple, Google eða Amazon það árið. Árið 2011 voru tekjur Elsevier (sem er staðsett í Hollandi) aftur $978 milljón af $2,5 milljarða veltu.

En hvernig græða þeir svo mikið? Í venjulegri útgáfu þarf útgefandinn fyrst að greiða höfundum fyrir greinar, borga ritstjórum, greiða fyrir prentun og dreifingu til áskrifenda og seljanda. Hjá venjulegum tímaritum (utan vísindamarkaðarins) er allt þetta nokkuð dýrt, og tekjur hjá betri tímaritum eru oftast frekar takmarkaðar, á milli 12-15%.

Aðferðin til að græða á vísindatímaritum er mjög svipuð og öðrum tímaritum, nema að útgefandi vísindaritanna losar sig að mestu við kostnaðinn. Það er vísindamaðurinn, sem framkvæmir rannsóknirnar, semur greinar og býr þær algjörlega til birtingar, útgefandanum að kostnaðarlausu. í sumum vísindaritum þarf höfundurinn jafnvel að greiða gjald fyrir birtingu, sem er viss upphæð á hverja síðu. Í nær öllum tilfellum er það reyndar ekki vísindamaðurinn, sem borgar brúsann, heldur háskólinn eða stofnunin sem hann vinnur við og þá í flestum tilfellum er það hið opinbera sem borgar brúsann í lokin. Vísindamaðurinn sér um að hanritið sé ritrýnt af kollegum sínum og afhendir það síðan útgefanda, sem þarf ekkert að gera nema prenta og dreifa. En þá snýr útgefandinn sér til sömu stofnana, háskóla og bókasafna, sem kaupa áskrift af vísindaritinu fyrir okurfé. Þessi sjálfstæðu útgáfufélög eru því sannarlega að prenta peninga, þegar þau gefa vísindarit út. Hið opinbera kostar allar rannsóknirnar, borgar laun vísindamannanna sem skrifa í ritin, og kaupir síðan aftur gögnin í gegnum útgefendur eins og Elsevier, sem græða á tá og fingri.

Regluleg útgáfa vísindarita hófst árið 1665, þegar The Royal Society í London gefur fyrst út ritið Philosophical Transactions, en það var aldrei litið á slíka útgáfu sem gróðaveg, þar til ósvífin fyritæki Elsevier komust á sporið á tuttugustu öldinni. Þegar ég ritstýrði Encyclopedia of Volcanoes fyrir Elsevier, þá þurfti ég að sannfæra um áttatíu sérfræðinga um að skrifa kafla í þetta alfræðirit um eldfjallafræði, fyrst árið 2000 og síðan í aðra útgáfu árið 2015.   Það kom mér í fyrstu algjörlega á óvart að nokkrir vísindamanna, sem voru fúsir til að vinna með mér, en vildu alls ekki birta hjá Elsevier. Þá var að myndast hreyfing innan vísindanna, til að stemma stigu við mjög dýrum áskriftum rita, og græðgi útgáfufélaganna.

Nú hafa 16744 vísindamenn heitið að taka þátt í því að sniðganga Elsevier eða framkvæma “boycott” á útgáfu hjá slíkum gróðafélögum. Hreyfingin nefnist Cost of Knowledge og hvet ég alla kollega til að taka þátt.  Framtíðin er ókeypis vísindarit, sem eru birt “on-line” á internetinu. Það er talsverð hreyfing í þá átt, sem sparar bókasöfnum mikið fé. Vonandi deyja vargar eins og Elsevier út með tímanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband