Er heimurinn kominn á koldíoxíð toppinn?

co2.jpgÞað er ljóst að hnattræn hlýnun er af völdum útlosunar af koldíoxíð af manna völdum. Koldíoxíð í andrúmslofti hefur hækkað stöðugt ár frá ári, en nú í ár virðist svo sem eitthvað jafnvægi sé að koma á, og árið 2016 mun útlosun vera svipuð og í fyrra, eins og sjá má á fyrstu mynd. Útlosun hefur vaxið um 1% undanfarin þrjú ár, en á sama tíma hefur hagvöxtur á jörðu vaxið um 3% árlega. Við erum farin að höndla orkugjafana sem grafnir eru úr jörðu miklu sparlegar en áður. Þrátt fyrir þetta fer koldíoxíð í andrúmslofti hækkandi, eins og önnur mynd sýnir. Það stafar sennilega af því að hingað til hefur mikið magn af koldíoxíð farið í hafið, en nú bætist það enn við andrúmsloftið. Í ár verður magnið af koldíoxíði í andrúmslofti í fyrsta sinn yfir 400 ppm. Mannkynið dældi enn út í loftið rúmlega 36 gígatonnum af koldíoxíði árið 2015, sem er til dæmis um 60% meiri útblástur en árið 1990. Kína losar um 29% af koldíoxíði árlega en frá 2013 hefur dregið verulega úr útlosun þar, aðallega vegna minni notkunar á kolum til eldsneytis. Á Indlandi hefur útlosun koldíoxíðs hins vegar hækkað töluvert. Þessar niðurstöður gefa okkur einhverja von og eru ástæður til bjartsýni í loftslagsmálum, en þess ber að gæta, að þetta kann að koma of seint. Loftslagsáhrifin eru komin á fulla ferð, hnattræn hlýnun setur nú hitamet á hverju ári, og lækkun á útlosun nú getur ekki stöðvað þá þróun sem er í gangi. En samt, full ástæða til að vinna á allan hátt að frekari minnkun á útlosun á koldíoxíði.monaloa.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hvar er LÍNURITIÐ (CO2) fyrir ísland?

Jón Þórhallsson, 5.12.2016 kl. 16:07

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Jón: Við öndum sama loftið og allir hinir á jörðu. Koltvíoxíð þekkir engin landamæri í lofthjúpnum.

Haraldur Sigurðsson, 5.12.2016 kl. 16:50

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ef að  Íslenskir vísindamenn telja sig geta sett losun C02 í skífurit yfir 1 ár eins og sýnt er hér; væri þá ekki hægt að setja þær upplýsingar í linurit sem að næði yfir 10-20 ár?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2185447/

Jón Þórhallsson, 5.12.2016 kl. 16:57

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

 Gleðilegar fréttir. Fyrst þá ætlaði ég að spyrja um það sama og Jón hér ofar eða hvernig er tölur fyrir íslandi.

Vísindamenn hljóta að mæla á mörgum stöðuna í  heiminum og þá ein mæling fyrir ísland og svo tekið meðaltal. Í hvaða hæð er mælt.

Er einhvað sem réttlætir þessa lækkun og hvað veldur þessum 6 mánaða sveiflum en CO2 er mest.

Fyrir c 20 árum las ég skýrslu um staðsetningu hitamæla en þeir voru á mörgum stöðum inn í borgum sem stækkuðu utan um upphaflegu svæðin. Hvar eru mælar hér. Þú þarft ekkert að svara öllu en þetta eru óvísindalegir þankar  

Valdimar Samúelsson, 5.12.2016 kl. 22:27

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Er ekki málið það að árlegt magn CO2 sem berst í andrúmloftið er hætt að aukast? Magnið sem bætist við árlega er þó eftir sem áður enn of mikið til að sjórinn og náttúran á jörðu niðri geti tekið við því öllu. CO2 safnast því ennþá fyrir í andrúmloftinu og mun reyndar gera áfram lengi enn, eða svo lengi sem útblástur er eins mikill og reyndin er.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.12.2016 kl. 23:49

6 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

CO2 virðist vera að hætta að aukast verulega, en CH4 hefur ekki fengið næga athygli. Þar þarf að bæta mælingar og þekkingu á hver uppruninn sé.

Axel Þór Kolbeinsson, 17.12.2016 kl. 15:49

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Valdimar: Það er erfitt ð mæla CO2 vel.  Lwengst hefur CO2 verið mælt ofarlega á fjallinu Mona Loa á Hawaii og er þeim mælingum mest og best treyst.  Það að CO2 stendur nokkurn veginn í stað er meðal annars vegna viðbragða stjórnvalda í Bandaríkjunum, sem hafa sett strangari reglur um útlosun frá kolakyntum raforkuverum þar í landi.

Haraldur Sigurðsson, 17.12.2016 kl. 16:23

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Axel:  Það er alveg rétt að CH4 er mjög mikilvægt. Tonn fyrir tonn, þá eru hlýnunaráhrif af CH4 um tuttugu sinnum meiri en frá CO2.  Mikið af metan eða CH4 berst út í andrúmsloftið frá akuryrkju, einkum hrísgrjónaökrum, einnig ótrúlega mikið frá farti nautgripa.

Haraldur Sigurðsson, 17.12.2016 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband