Er baráttan á móti hnattrænni hlýnun töpuð?
28.10.2015 | 17:22
Allt bendir nú til að hnattræn hlýnun stefni á hækkun á meðal hitastigi á jörðu um allt að 4oC á næstu árum. Nær allir vísindamenn gera sér grein fyrir þessu og átta sig á að hér eru að gerast miklar hamfarir, sem munu hafa mjög djúptæk áhrif á allt líf og efnahag á jörðu. Losun á koldíoxíði út í andrúmsloftið, vegna bruna á olíu og kolum, er höfuðorsökin. Þetta er að gerast þrátt fyrir heila röð af alþjóðafundum í nafni Sameinuðu Þjóðanna, fyrst árið 1992 í Ríó, síðan í 1997 í Kyoto, árið 2009 í Kaupmannahöfn, árið 2012 í Doha, og næst í París nú í desember 2015. Reynslan sýnir að Sameinuðu Þjóðirnar eru máttlaus og tannlaus félagsskapur, sem hefur litlu orkað á þessu sviði sem öðrum. Bjartsýnin um slíka alþjóðastofnun var að vonum mikil eftir heimsstyrjaldirnar á tuttugustu öldinni, en ekki var sú bjartsýni verðskulduð. Hersveitir Sameinuðu Þjóðanna hafa til dæmis ekki hleypt af einu einasta skoti á móti hryðjuverkamönnum, en á meðan hafa hermenn SÞ, með skrautlegu bláu hjálmana, verið sekir um nauðgun kvenna í ríkjum Afríku og að hafa flutt inn kólerufaraldur inn til Haítí. Ýmis rök hafa verið færð fyrir því að samþykktir innan alþjóðastofnana á við SÞ muni bera lítinn eða engann árangur í baráttunni við hnattræna hlýnun. Er þetta orðin vonlaus barátta?
Kanadíski rithöfundurinn Naomi Klein hefur fært málið í nýjan búning í bók sinni This Changes Everything: Capitalism vs The Climate (2014) . Hún heldur því fram, að baráttan á móti hnattrænni hlýnun sé vonlaus innan banda auðvaldsskipulagsins eða Kapítalismans, sem nú stjórnar nær öllum helstu efnahagskerfum jarðar. Aðeins pólítísk bylting á heimsmælikvarða getur breytt þessu ástandi, að hennar mati. Sósíalistar, jafnréttisinnar og aðrar vinstri hreyfingar þurfi að ná völdum, til að takast í sameiningu á við stóra vandamálið um hnattræna hlýnun. En slík skrif, eins og koma fram hjá Naomi Klein, eru nú að sjálfsögðu litin hornauga af hinni fámennu en valdamiklu sérstétt eiginhagsmuna, sem nú stýra bæði efnahag þjóða, pólitískum öflum og ekki síst nær öllum fjölmiðlum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Loftslag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Facebook
Athugasemdir
Auðræðið, sem öllu stjórnar á jörðinni, lifir og hrærist í núinu, snýst í kringum næsta ársfjórðungsuppgjör, ársuppgjör, arðgreiðslur og yfirgengileg laun, völ og aðstöðu fyrir valdaklíkurnar.
Stjórnmálamenn eiga ekkert í þetta alltumlykjandi skrímsli heldur lifa og hrærast í hinu banvæna faðmlagi viðskipta og stjórnmála, og í lýðræðisþjóðfélögum snýst allt um áróður til þess að tryggja sér áframhaldandi völd eftir næstu kosningar.
Kommúnisminn og aðrar alræðis- og einræðisstefnur eru enn ólíklegri til afreka en kapítalismi andskotans, eins og dæmin frá síðustu öld bera vitni um.
Samt má ekki láta hugfallast, því að það er versti kosturinn af öllum, - gulltryggir verstu útkomu sem hugsanleg er.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2015 kl. 17:46
"Hún heldur því fram, að baráttan á móti hnattrænni hlýnun sé vonlaus innan banda auðvaldsskipulagsins eða Kapítalismans, sem nú stjórnar nær öllum helstu efnahagskerfum jarðar. Aðeins pólítísk bylting á heimsmælikvarða getur breytt þessu ástandi, að hennar mati. Sósíalistar, jafnréttisinnar og aðrar vinstri hreyfingar þurfi að ná völdum, til að takast í sameiningu á við stóra vandamálið um hnattræna hlýnun"
Það er ekkert sem segir að vinstri sinnaðir séu meiri umhverfisverndar sinnar eða meira annt um umhverfið en þeir sem eru hægri sinnaðir í stjórnmálum. Það er hreint tóm rugl hjá henni að blanda saman stjórnmálum og umhverfismálum.
Umhverfismál eru frekar persónubundin og hafa frekar með siðferðilega nálgun til umhverfisins í sinni í víðum skilningi þess orðs. Nálgunin er um tilverurétt og stöðu tegunda í vistkerfi jarðar.
Að blanda stjórnmálalegum skoðunum er aðeins ávísun á arfaslaka útkomu.
Ég held að Ómar séu með þetta "Kommúnisminn og aðrar alræðis- og einræðisstefnur eru enn ólíklegri til afreka en kapítalismi andskotans, eins og dæmin frá síðustu öld bera vitni um"
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 28.10.2015 kl. 20:48
Ef hugarfar einstaklinga breytist ekki, þá breytist ekkert annað.
Allar breytingar byrja innanfrá sjálfstætt hugsandi frjálsum einstaklingum. Því miður lítur út fyrir að ekkert breytist. Enginn ætlar að fórna sér fyrir svoleiðis sjálfsábyrgð og "tap"!
Vilja heldur hjálpa til við að þrælavæða og/eða skjóta alla sem eru fyrir fjárglæfrastofnana-kauphallar-spilavítunum í heiminum.
Sættum okkur bara við að enginn vill fórna neinu fyrir raunverulega sannleikann í veröldinni. Heldur vill fólk drepa sjálfa sig og aðra ásamt jörðinni, fyrir banka/fjármálaglæpafyrirtækin í heiminum.
Verði okkur vitleysingunum bara að góðu, sem þjónuðum glæpasjóðunum/bönkunum frekar en öllu öðru sem var einhvers virði hér á jörðinni og í alheiminum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.10.2015 kl. 23:57
Er jörðin nokkuð að hlýna? Samkvæmt þessari færslu Ágústs Bjarnasonar ( http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1931216/ ) hefur engin hlýnun orðið á jörðinni frá janúar 1997 ef notuð er aðferð minnstu kvaðrata til að finna beztu aðhvarfslínu.
Einnig má benda á að samkvæmt mætri konu (sem ég man ekki nafnið á) og kom fram í einni þáttaraða Ara Trausta Guðmundssonar, að þá hafa jöklar á Íslandi aldrei verið stærri á nútíma en síðustu 300 árin. Og þá mun stærri. Er það því ekki bara eðlilegt að það eigi sér stað dulítil leiðrétting til hækkunar hitastigs til samræmis við hitafarið á nútíma eins og það hefur líklega verið í 9700 ár af 10.000?
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 29.10.2015 kl. 10:45
Rétt hjá þér nafni "Er j0rðin að hlýna?
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 6.11.2015 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.