Akstur um Vaðlaheiðargöng mun kosta milljarð á mínútu

VaðlaheiðargöngÞað er ekki falleg myndin af Vaðlaheiðargöngum, sem birtist hér fyrir ofan og kemur frá RUV. Annar endinn er fullur af 46 stiga heitri gufu og hinn endinn er fullur af köldu vatni. Allar framkvæmdir virðast vera komar í stopp, nú þegar göngin eru hálfnuð. Allt bendir til að Vaðlaheiðargöngum hafi verið algjörlega klúðrað, bæði hvað snertir rannsóknir og undirbúnings verksins. Framkvæmdir hófust í ágúst 2012 og samkvæmt áætlun á gegnumslag að verða í september 2015. Þegar 46 stiga heit vatnsæð kom fram í greftri að vestan verðu í febrúar 2014, þá var verkinu snúið við og gröftur hófst austan frá. Þá kom þar fram mjög mikill leki, sem hefur nú stöðvað verkið.

Draumurinn var að þessi 7,4 km löngu göng spari ferðakostnað á norðurlandi. Eins og   Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur bent á í harðri ádeilu sinni á Vaðlaheiðargöng, þá er hinn áætlaði sparnaður ekki á rökum reistur. Vaðlaheiðargöng væru 15,7 km vegstytting og 11 mín tímasparnaður, miðað við akstur um Víkuskarð. Snemma á ferlinu var talað um 9 milljarða krónu kostnað við gangnagerð. Vandræðin sem nú blasa við benda til að kostnaður verði mjög miklu hærri. Ég spái að hann nágist 15 milljárða. Þá kosta göngin okkur milljarð á mínutu, í hvert sinn sem við ökum í gegnum þau.   Að spara 11 mínútur í akstri verður því dýrt spaug. Allt bendir til að eldsneytissparnaðurinn verði því mun lægri en kostnaðurinn vegna áætlaðra veggjalda.  Eins og Pálmi Kristinsson bendir á í skýrslu sinni, þá hefur undirbúningi verið klúðrað og reiknilíkön um rekstur ekki nægilega vel unnin. Sama má sennilega segja um könnun á svæðinu áður en gröftur hófst. Stófelldur leki og hátt hitastig í fjallinu eru þættir, sem ættu að koma fram við ítarlega rannsókn á jarðfræði fjallsins, en ekki uppgötvast í miðri framkvæmd. Svona fer, þegar stjórnmálamenn og verktakar ráða ferðum. Kostnaður við grunnrannsóknir er skorinn við nögl og verkinu flýtt eftir megni. Það vekur athygli að aðeins fimm kjarnaborholur voru gerðar til að kanna fjallið fyrirfram, samkvæmt skýrslum frá Vegagerðinni og frá Jarðfræðistofunni ehf.  Nú verður klúðrið afsakað sem afleiðing af ófyrirsjáanlegum vandamálum. En sannleikurinn er sá, að rannsóknir og forvinna voru alls ekki nægilegar til að hefja þetta verk. Sennilega verður nú þrjóskast við, og göngin kláruð, hvað sem það kostar. Enginn stjórnmálamaður dirfist að segja neitt, meðal annars vegna þess að þverpólítisk eining hefur ríkt um verkið, svipað og um Kröfluvirkjun hér fyrir um fjörutíu árum.

Í skýrsum varðandi ástand bergsins er minnst á að leki sé víða mikill í fjallinu, en það vekur óneitanlega eftirtekt að ekki var leki eða lekt bergsins mæld í neinu tilfelli við borun kjarnaborholanna. Það er tiltölulega auðveld aðgerð og hefði tvímælalaust sýnt fram á að búast mætti við miklu magni vatns í göngunum. Þar sem göngin eru íum 100 metra hæð yfir sjó, og jarðvatnsborð í fjallinu fyrir ofan er í um 500 metra hæð yfir sjó, er vel ljóst að vatnsþrýstingur getur verið gífurlegur og vatnsmagn mikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein -- en ath.: Engin ,,þverpólitísk eining'' ríkti um verkið, heldur hafði talsverður hluti þingmanna miklar efasemdir og greiddi atkvæði gegn því að lokum (samþ. 29-13). Þær efasemdir og gagnrýni voru þvert á flokkaskiptingu.

Mörður Árnason (IP-tala skráð) 24.4.2015 kl. 15:22

2 identicon

Enn og aftur kemur í ljós, hversu takmörkuð þekking okkar er á jarðfræði Íslands. Og enn og aftur kemur í ljós, hversu skammt á veg grunnrannsóknir á jarðfræði Íslands eru komnar. Flestar menningarþjóðir hafa kortlagt auðlindir sínar og náttúrufar, ekki einu sinni, heldur þrisvar til fjórum sinnum, síðan fyrstu jarðfræðikortin litu dagsins ljós snemma á 19. öld. Ástæðan er sú, að þessar þjóðir hafa áttað sig á hagnýtu gildi jarðfræðirannsókna. Það höfum við Íslendingar ekki gert nema að litlu leyti.Og enn og aftur kemur í ljós, hve illa okkur Íslendingum gengur að læra af reynslunni, og bæta ráð okkar. Bæði við jarðgöng um Breiðadalsheiði og við jarðgöng um Héðinsfjörð, að ekki sé minnst á Kárahnjúkagöng, hefur verið anað út í rándýrar framkvæmdir án nauðsynlegra undirbúningsrannsókna. Misgengi og sprungur koma fyrst í ljós við framkvæmdina sjálfa, en eru sjálfsagður og eðlilegur hlutur í gömlum og ungum jarðalagamyndunum, og kortlagning þeirra er tiltölulega einföld í framkvæmd, en kostar hæfan mannafla, tíma og fjármuni. Og viti menn, um misgengin streymir vatn, heitt eða kalt, allt eftir jarðhitastigli svæðisins. Þeir sem fást við jarðhita og kaldavatnsleit notfæra sér þekkingu á slíku við vinnu sína. Það er bráðnauðsynlegt að fara að líta á þekkingu og grunnrannsóknir sem auðlind, og sem lykil að auðlindanýtingu. Annars hjökkum við áfram í sama farinu. Höldum að jarðgöng sé bara spurning um sprengingar, grunnvatnsrannsóknir bara spurning um pípulagnir.

Jón Eiríksson (IP-tala skráð) 24.4.2015 kl. 18:39

3 Smámynd: Tryggvi Helgason

Það verður nú að segjast eins og er, að ég á upphaflegu hugmyndina (1974) að því að gera veggöng í gegnum Vaðlaheiði. Mér finnst því rétt að segja enn einu sinni hvernig mín hugmynd var í upphafi.

 

Mín hugmynd var sú, að gera göngin gegnt flugvellinum, það er að segja í austurátt frá flugbrautinni, sem næst því þvert í austur frá norðurenda flugbrautarinnar, og í um 100 metra hæð yfir sjó. Mín hugmynd með þeirri staðsetningu var sú, að í framhaldinu yrði gerður, vel upphækkaður vegur suður Fnjóskadalinn upp á hálendið þar sem sá vegur mætti nýjum vegi. Sá nýji vegur myndi liggja frá Jökuldal í vesturátt, sunnan Bláfells og Sellandafjalls, nokkuð beina leið norðan Hofsjökuls og Eiríksjökuls niður í Borgarfjörð og þaðan á brú yfir Hvalfjörð til Reykjavíkur.

 

En með þessari staðsetningu vegganganna (miðað við hina endanlega staðsetningu ganganna þar sem þau eru í dag), þá yrði nýr vegur norður í Ljósavatnsskarð ögn lengri, en aftur a móti yrði vegurinn suður um til Reykjavíkur ögninni styttri. Sjálf göngin hefðu sennilega orðið eitthvað styttri en núverandi göng.

 

Nú, aftur á móti, er allt orðið breytt. Því eins teldi ég að eftir sem áður ætti að leggja veg suður Fnjóskadal þar sem hann mætti nýjum hálendisvegi. En nú yrði sá vegur lagður suður Sprengisand þar sem hann tengdist vegum sem þegar eru komnir upp með Þjórsá úr suðri. En frá vegamótum sunnan Fnjóskadals (Timburvalladals), þá kæmi nýji Austurlandsvegurinn í austur sunnan Bláfjalls, en með stefnu að Hálslóni og lægi yfir Kárahnjúkastíflu áleiðis niður í Fljótsdalinn.

 

Hvort mín staðsetning ganganna hefði verið eitthvað betri með tilliti til vatnsleka er gjörsamlega ómögulegt að segja til um. Með líkindareikningi má gefa sér að þar hefði líka orðið vatnsleki. Fyrir nokkrum árum sá ég teikningu af þessum göngum sem nú er verið að grafa. Þar var gert ráð fyrir að hápunktur gangannna yrði um 2/3 af leiðinni frá vestri (Akureyri), og frá þeim stað myndu göngin halla niður á við til Fnjóskadals. Ég skil ekki hvers vegna þessu var breitt. Það gefur auga leið að það er ekki skynsamlegt að grafa göng, áleiðis inn í fjall, með göngin hallandi niður á við inn í fjallið.

 

Tryggvi Helgason, 24.4.2015 kl. 19:37

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Takk fyrir þennan þarfa pistil, Haraldur, og athugasemdir, Jón. Það þarf mun ítarlegri rannsóknir fyrir svona framkvæmdir, en kortlagningu jarðlagastaflans sem beinist einkum að því að kortleggja jarðlagasyrpur, þ.e. mismunandi gerðir basalts og millilaga, auk þess sem lekt bergsins mun vera mæld. Jarðlögin sjálf eru hins vegar yfirleitt nokkuð þétt og lektin að mestu bundin við sprungur tengdar misgengjum og berggöngum. Til viðbótar við kortlagningu jarðlagastaðfall þyrfti því að bæta við ódýrari loftborsholum til frekari mælinga á hitastigli til að leita að vísbendingum um óreglur sem gætu gefið vísbendingar um tilvist jarðhita eða kalds vatns í sprungum. Og varðandi Vaðlaheiðina, þá er hún á einu af virkari jarðskjálftasvæðum landsins og því er nokkuð augljóslega talsver þar um sprungur, sem einnig ætti að vera hægt að kortleggja af lofmyndum. Þannig mætti velja borstaði til frekari rannsókna á grunnvatnsrennsli.

Jarðvísindin eiga því miður nokkuð undir högg að sækja og það er ekki auðvelt að sannfæra verkfræðinga, sem yfirleitt stýra undirbúningi að gangagerðarframkvæmdum, um það hvað þarf að skoða og hvað ekki. Þeir sem komið hafa að undirbúningi jarðgangagerðar hér á landi hafa hingað til, hafa að því ég best veit, aldrei komið að jarðhitarannsóknum og virðast því ekki huga nægilega vel að þeim þætti. Það hefur t.d. ekki verið mikið í umræðunni að við gerð Héðinsfjarðarganga varð veruleg þrýstilækkun í jarðhitakerfinu á Siglufirði, þannig að bora þurfti nýja vinnsluholu á Skarðsdal til að bæta fyrir það tjóns sem hitaveitan varð fyrir. Það liggur nokkuð í augum uppi að vatnsborð yfir jarðgöngum lækkar við það að borað er gat í gegnum fjall og að slíkt getur haft áhrif á innrennsli vatns í nálæg jarðhitakerfi. Engar rannsóknir fara yfirleitt fram á þessum þætti í undirbúningi verka, en þetta ætti augljóslega að vera eitt af því sem metið er í umhverfismatsferlinu.

Við undirbúning Hvalfjarðarganga voru jarðfræðirannsóknir t.d. boðnar út og næstlægsta tilboði tekið. Undirbúningsrannsóknir við önnur jarðgöng hafa hins vegar ekki verið boðin út, heldur virðast þær að mestu vera í höndum sömu, enda eru þeir komnir með mikla og góða reynslu á þessu sviði, þó enn virðist vanta nokkuð upp á að öllum þáttum rannsókna sé sinnt.

Ómar Bjarki Smárason, 25.4.2015 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband