Hvað olli mesta útdauða jarðar?

f1_large_1252210.jpgÉg hef nýlega fjallað um mesta útdauða eða aldauða lífríkis jarðar, í lok Perm tímabilsins. Þá dóu út um 96% af lífverum og mjög litlu munaði að jörðin yrði líflaus með öllu. Í fyrri pistlum benti ég á, að þessi útdauði, fyrir um 252 milljón árum, er nokkurn veginn á sama tíma og stórgosin urðu í Síberíu, þegar heiti reiturinn sem nú er undir Íslandi fyrst kom upp á yfirborð jarðar. Margir hafa því tengt útdauðann við eldgosin miklu. Þá hafa þeir vitnað til áhrifa frá gastegundum, sem fylgja gosunum. Brennisteinstvíoxíði frá eldgosum hefur verið kennt um að kæla jörðina og valda útdauða. Klórgasi frá eldgosum hefur verið kennt um að eyða ósón laginu og valda stökkbreytingum. Koldíoxíði frá eldgosum hefur verið kennt um að valda gífurlegum gróðurhúsáhrifum og mjög háum hita. Þetta eru allt góðar uppástungur, en þær eru á engum rökum reistar. Hvað er það sem við vitum um þessi tímamörk? Ekki svo mikið. En nú vitum við að minnsta kosti að útdauðinn gerðist mjög hratt. Seth Burgess og félagar hafa nú ákvarðað mjög nákvæmlega hvenær þessi mikli útdauði varð. Það hafa þeir gert með aldursgreiningum á geislavirkum efnum frá þessum tímamótum í jarðsögunni. Þá kemur í ljós að útdauðinn varð fyrir um 252 milljón árum og hann stóð yfir tímabil sem er ekki lengra en um 2,1 til 18,8 þúsund ár! Þetta er sýnt á fyrstu myndinni. Þar er einnig sýnt að mjög miklar breytingar urðu á efnafræði heimshafanna, sem byrjuðu rétt fyrir útdauðann og kunna að hafa valdið honum. Þetta er sýnt sem hlutfall á tveimur samsætum eða ísótópum kolefnis, C12 og C13. C12 er mjög algengt, en C13 er yfirleitt í eða um 1%.  Þetta bendir til að mjög mikið magn af CO2 hafi borist út í andrúmsloftið og í hafið rétt fyrir útdauðann, og orsakað súrnun og hlýnun hafanna áður en CO2 barst dýpra eða veðraðist út. Slík súrnun getur beinlínis hafa orsakað útdauðann. En hvaðan kom allt þetta CO2? Er það úr eldgosum eða af öðrum rótum? Það er alls ekki ljóst. Sumir halda fast við loftsteinskenningu um þennan útdauða, en engar heimildir eru enn fyrir hendi sem styðja það. Næsta skref er að gera einnig nákvæmar aldursgreiningar á blágrýtismynduninni í Síberíu og sjá hvort hún passar við aldur útdauðans mikla. Ef til vill orskaðist þessi mesti útdauði lífríkis á jörðu af einhverjum þáttum, sem við vitum all ekkert um -- ennþá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú mega fáfróðir gæta sín í frásagnargleði svo ekki megi skilja kommentið sem einhver vísindi :-) En fyrir allmörgum árum las ég í að mig minnir Readers Digest grein, sem var sögð þýdd úr rússnesku (sovésku) riti einmitt um þessi basaltlög í Síberíu og víðar. Minni gamals manns er tekið að fúna og því hef ég allan fyrirvara á að ég muni eftir öll þessi ár hvert innihald greinarinnar var í smáatriðum, en ég upplifði lesturinn á þann veg, að sá gerski vísindamannahópur, sem skilaði þarna rannsóknarniðurstöðum, hefði ályktað út frá þeirri þekkingu, sem þarna var til staðar, að upphafs þessara miklu náttúruhamfara mætti rekja til mjög sérstaks áreksturs við loftstein á miklum hraða og háa eðlisþyngd (ef ég man rétt), sem hefði sett þetta eldgosaferli af stað. Nú kann mig að misminna þetta allt saman og þá er bara hægt að sópa þessu út af borðinu ;-)

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.1.2015 kl. 19:00

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það hafa orðið margar pólveltur á jörðinni frá upphafi þar sem að jafnvel jörðin veltur algerlega á hliðina: 

Það er talið að pólveltur verði reglulega:

Prófaðu á kíkja á mínútu 2:21:50

https://www.youtube.com/watch?v=IaDOkMEK4uk

Jón Þórhallsson, 3.1.2015 kl. 21:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þökk fyrir þetta. Í tengslum við þetta koma upp tvær brýnar spurningar, sem vísindamenn nútímans verða að leita svara við, þótt það kunni að vera erfitt eða ómögulegt: 

1. Það hefur verið hent á lofti að kjarnorkustyrjöld muni getað þurrkað út allt líf á jörðinni og vopnin meira að segja margfalt meiri og fleiri en þarf til þess.

Hljótt hefur verið um þetta síöustu ár. Samt eru vopnin fyrir hendi. Fróðlegt og nauðsynlegt væri að vita nánar um þetta.

Hve langt myndi slík styrjöld geta gengið áður en eyðingin er orðin nógu mikil að getan til að nota öll vopnin er þorrin? Og myndu þá þegar hafa verið notuð næg vopn til að drepa allt? 

2. Hve mikið má magn CO2 vera í andrúmsloftinu til að súrnun sjávar og fleira getur valdið því sem þú lýsir? 

Ómar Ragnarsson, 4.1.2015 kl. 01:06

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hvaða þjóðir gætu hugsanlega ógnað okkur; sem eiga kjarnorkuvopn?

Hvaða menningarheimar viljum við að vaxi og hvaða menningarheima viljum við ekki?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1395173/

Jón Þórhallsson, 4.1.2015 kl. 09:47

5 identicon

Athyglisverðar pælingar http://www.astrobio.net/topic/solar-system/earth/biosphere/making-oxygen-life/

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 4.1.2015 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband