Þegar Bjarnarhafnarfjall var eyja

BjarnarhafnarfjallBjarnarhafnarfjall (574 m) stendur stakt á norðanverðu Snæfellsnesi. Meiri hluti fjallsins er myndaður á Tertíer tíma, mest úr blágrýti eða stafla af basalt hraunlögum, sem eru um 5 til 6 miljón ára gömul.  Í suðvestur hluta fjallsins eru myndanir úr líparíti og andesíti, sem tilheyra hinni fornu Setbergseldstöð í Eyrarsveit fyri vestan. Utan í Bjarnarhafnarfjalli er allstór móbergsmyndun í Kothraunskistu. Hún hefur myndast mun síðar, við gos undir jökli á ísöld. Bjarnarhafnarfjall var áður hluti af samfelldri háslettu blágrytismyndana, sem náðu um Breiðafjörð og Snæfellsnes.  Ísaldarjöklarnir skáru þessa hásléttu í sundur og mótuðu það landslag, sem einkennir svæðið í dag. Þegar ísöldinni lauk var sjávarstaða mun hærri en nú og þá mun Bjarnarhafnarfjall hafa verið eyja, eins og fyrsta mynd sýnir. Það var þá með hæstu og ef til vill stærstu eyjum landsins, yfir 20 ferkílómetrar að flatarmáli.  Fyrir um 3800 árum  opnaðist gossprunga með VNV-ASA stefnu og Berserkjahraun rann, aðallega úr fjórum gígum: Rauðukúlu austast, þá Gráukúlu, Smáhraunskúlum og Kothraunskúlu vestast.  Ekki er vitað hvað gosið stóð lengi, en sennilega var það samfellt. Þó má greina fjögur vel aðskilin hraun. Það fyrsta rann frá Rauðukúlu ( númer 1 á annari mynd)  og er það hraun þynnst, mest þunnfljótandi og ef til vill heitast.  Samkvæmt efnagreiningu virðist Rauðukúluhraun vera mun frumstæðara en yngri hraunin, til dæmis með yfir 13.7% MgO, en hin seinni hraunin eru með um 9.8% MgO.  Næst rann hraun frá Kothraunskúlu, sem er vestast (#2). Það er mun úfnara apalhraun og illt yfirferðar.  Þá rann hraun úr Smáhraunskúlum og fór til vesturs (#3).  Rann það út í Hraunsfjörð og myndaði þrengslin í firðinum, sem nefnd eru Mjósund. Loks kom hraun úr Gráukúlu (#4) og á suður jaðri þess myndaðist Selvallavatn.   Að öllum líkindum var eldvikrni á allri sprungunni frá Rauðukúlu og til Kothraunskúlu í upphafi goss, en síðan þrengdist sprungan og virkni takmarkaðist við þessa fjóra gíga. 

BerserkjahraunÉg tel líklegt að Bjarnarhafnarfjall hafi verið eyja áður en Berserkjahraun rann.  Sennilega var sundið milli fjallsins og Snæfellsness fremur mjótt og mjög grunnt og landslag kann hafa verið líkt og sýnt er á fyrstu myndinni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þennan fróðleik, prófessor Haraldur. Ánægjulegt að sjá þegar fremsti eldfjallafræðingur heimsins upplýsir um jarðfræði Snæfellsness, sem hefur merkilegt nokk orðið nokkuð útundan í umfjöllun annara slíkra. Vonandi verður úr því að meira fé verði varið til rannsókna á svæðinu, t.d. til þess að setja upp jarðskjálftamæla við Snæfellsjökul og Ljósufjöll.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 24.6.2014 kl. 21:49

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk Haraldur.  Keyri oft í gegnum þessi hraun og með þessum gömlu eldkúlum.  Þær setja gjarnan af stað vangaveltur, enda síbreytilegar eftir árstíð og ljósi.  Hér eftir verður myndin skírari þakka þér fyrir.

Í neðri hlíðum Kirkjufells verða mjög skírir gamlir marbakkar þegar grös eru að byrja að taka við sér á vorin.  Vegna þessara marbakka lítur útfyrir Brimárhöfði, Kirkjufell og Mýrarhyrna með Klakknum hafa mögulega líka verið eyjar.   

Hrólfur Þ Hraundal, 25.6.2014 kl. 07:40

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er rétt að Brimlárhöfði (Stöðin) og Kirkjufell hafa verið eyjar í lok jökultíma og einnig Eyrarfjall og Klakkur.  Mýrarhyrna er áföst við Helgrindur og hefur ekki verið eyja á þeim tíma.

Haraldur Sigurðsson, 25.6.2014 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband