Hafið inni í jörðinni

Demantur frá BrazilíuVar þetta rétt hjá Jules Verne?  Er stór hafsjór inni í jörðinni?  Nýjar rannsóknir benda til að það sé miklu meira vatn í iðrum jarðar en haldið var, en það er ekki í fljótandi formi, heldur bundið inn í kristöllum.  Hér er mynd af demant sem fannst í Brazilíu árið 2008.  Hann er frekar ljótur, og var seldur á aðeins $10, en hann hefur reynst vera fjársjóður fyrir vísindin.  Demanturinn, sem barst upp á yfirborð jarðar í eldgosi, er ekkert sérlega merkilegur að sjá, en innan í honum finnast fagurbláir kristallar af steindinni ringwoodite.   Myndin sýnir einn slíkan ringwoodite kristal.   RingwooditeÞessi kristaltegund hefur áður verið búin til í tilraunum vísindamanna við mjög háan hita og þrýsting sem er jafn og á 400 til 600 km dýpi inni í jörðinni. Nú er loksins búið að finna ringwoodite í náttúrunni og sú uppgötvun er að bylta mynd okkar um innri gerð jarðar og um magnið af vatni inni í jörðinni.  Ringwoodite kristall getur innihaldið allt að 2.5% vatn og þess vegna kann að vera mikill vatnsforði djúpt í jörðu, þar sem þessir kristallar þrífast. 

Sigbelti og vatnMyndin sýnir þversnið af jörðinni.  Vegna flekahreyfinga sígur jarðskorpan niður í möttul jarðar í svokölluðum sigbeltum, einkum umhverfis Kyrrahafið.  Bergið í jarðskorpunni er “blautt” og inniheldur töluvert vatn þegar það sígur niður í möttulinn að iðrum jarðar. Á dýpinu í möttlinum myndast vatns-ríkt ringwoodite í þessari fornu jarðskorpu, á um 400 til 600 km dýpi. 

 

Hingað til hefur vísindaheimurinn haldið að meginhluti vatnsins á jörðu væri í höfunum.  Heimshöfin og vatn á yfirborði jarðar eru um 1,36 miljarðar rúmkílómetrar, en það er aðeins um 0,023% af öllu rúmmáli jarðar.  Nýju niðurstöðurnar varðandi ringwoodite benda til að þrisvar sinnum meira vatn en öll heimshöfin kunni að vera bundin í ringwoodite á um 400 til 600 km dýpi.  Nú munu koma fram nýjar kenningar um hringrás vatnsins í jarðkerfinu, milli bergsins sem inniheldur ringwoodite í iðrum jarðar, og hafsins.  Það sem keyrir þessa hringrás eru flekahreyfingar og sigbeltin, og það er einmitt þessi hringrás sem gerir jörðina alveg sérstaka og skapar nauðsynlegar aðstæður fyrir lífríkið sem við þekkjum og elskum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband