Hekla óróleg?
26.3.2013 | 12:37
Í dag berast fréttir þess efnis, að Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi í Heklu vegna jarðskjálfta á svæðinu. Að sjálfsögðu verða menn órólegir og velta fyrir sér hvort eldgos sé í nánd. Ekki eru þessi gögn sýnd á vef Veðurstofunnar. Hins vegar má nálgast gögn varðandi þenslumælingar í bergi í Heklu í dag. Fyrsta myndin sýnir þau gögn. Þensla í berginu breytist við eldgos, og kann að gefa vísbendingu um yfirvofandi gos. Samþjöppun bergsins eykst og minnkar samfara hreyfingu kviku í berginu. Ekki er að sjá neina breytingu á þenslu á línuritinu í dag á þessari mynd.
Aðrar upplýsingar má sjá á vefsíðu, sem Jón Frímann heldur úti um jarðskjálftavirkni. Hann hefur staðsett jarðskjálftamæli nærri Heklu (í Heklubyggð) og er neðri hluti línuritsins fyrir daginn í dag, hinn 26. mars. Takið eftir að hver lárétt lína sýnir einn klukkutíma. Neðsta línan er síðasta klukkustundin.
Það er greinilega nokkur órói á jarðskjálftamælinum, bæði í gær og í dag, en það er ekki ljóst hvort óróinn er vegna hreyfinga í jarðskorpunni, eða vegna vinda og veðurs. Eins og Jón hefur bent á, þá er þetta hávaðasöm jarðskjálftastöð vegna vinda. Það var vindur á svæðinu í gær, en minni í morgun, eins og þriðja mynd sýnir. Þetta getur að hluta til skýrt óróann á jarðskjálftamæli Jóns Frímanns. Fylgjumst með framhaldinu
Lítill (1,4) en fremur djúpur (11,2 km) jarðskjálfti varð un dir Heklu hinn 21. mars, sem kann aþ benda til kvikuhreyfinga.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hekla, Jarðeðlisfræði | Breytt s.d. kl. 12:52 | Facebook
Athugasemdir
Það hefur verið leiðinlegt veðurlag á Íslandi núna í vetur. Á mælinum mínum sem er næst Heklu er mikill vindur þessa stundina, ásamt öðrum manngerðum hávaða oft á tíðum. Ég reikna þó með því að gosórói komi skýrt fram þegar eldgos hefst í Heklu. Hvenar svo sem það verður.
Ég hef fært jarðskjálftamæla vefinn minn hingað, http://www.jonfr.com/webicorders/
Vinsamlegast uppfærið bókmerkin vegna þessa.
Jón Frímann Jónsson, 26.3.2013 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.