Jarðhiti í Kerlingarskarði
26.4.2012 | 11:20
Samkvæmt mælingum Orkustofnunar liggur jarðhitasvæði í norðaustur átt, frá Snæfellsnesi og yfir Breiðafjörð, eins og myndin sýnir. Hér á kortinu er sýndur hitastigull jarðskorpunnar, þ.e.a.s. hversu hratt hitinn vex með dýpi, byggt á jarðborunum. Þannig er hitastigull á rauða svæðinu um og yfir 100 stig á hvern kílómeter í dýpinu. Þetta er lághitasvæði, en er þó vel vinnanlegt fyrir byggðarfélögin, eins og hitaveitan í Stykkishólmi sýnir vel. Á nokkrum stöðum sést hitinn á yfirborði, og einn af þeim er í Kerlingarskarði. Í mynni Ófærugils, á eystri bakka Köldukvíslar er jarðhitasvæði sem er um eitt hundrað metrar á lengd, og stefnir í norðaustur. Svæðið er rétt austan við gamla veginn um Kerlingarskarð, fast sunnan við Gæshólamýri. Hér eru nokkrar volgrur, þar sem vatn streymir upp og er hitinn í flestum um 13 til 18 stig, en sú heitasta er 21.9 stig. Umhverfis heitu augun er marglitt og skrautlegt slý, sem einkennir flest jarðhitasvæði, en einnig er töluvert um hverahrúður, sem er sennilega kísilhrúður að mestu leyti. Hafa myndast lágar bungur af hverahrúðri umhverfis volgrurnar. Þetta hverasvæði er sennilega í landi Hjarðarfells, en ekki er mér kunnugt um að hér hafi verið gerð ítarleg rannsókn né jarðboranir.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðhiti, Snæfellsnes | Breytt s.d. kl. 11:22 | Facebook
Athugasemdir
Eru Reykhólar á sama hitasvæði? Er vitað um heittvatn (volgrur) á einhverri af Breiðafjarðareyjunum ?
Guðlaugur Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 26.4.2012 kl. 11:49
Mesti hver á Breiðafirði er Drápsker í grennd við Hergilsey. Þar streymir upp um 9 sekúndulítrar af vatni sem er rétt fyrir neðan suðumark. Á þessum slóðum er einnig jarðhiti á Diskæðarskeri, á Reykey og Sandey. Jarðhitinn á Reykhólum, Varmavík og Laugalandi á Reykjanesi er einnig hluti af jarðhitabeltinu sem liggur yfir Breiðafjörð frá suðvestri til norðausturs, sýnt á myndinni fyrir ofan.
Haraldur Sigurðsson, 26.4.2012 kl. 16:46
Kristján Sæmundsson hjá ISOR hefur kannað þetta svæði og sent mér skýrslu sína. Hann bendir á hugsanlega sprungustefnu ínnan svæðisins og fjallar um möguleika að vinna jarðhitann hér.
Haraldur Sigurðsson, 26.4.2012 kl. 23:33
Takk fyrir þetta og allan annan fróðleik um jarðfræði, sem birtist á þessum vef. Mér er svolítið umhugað um möguleika Snæfellsbæjar, einkum Hellissands og Ólafsvíkur varðandi jarðhita. Eitthvað hefur verið borað þar útfrá og árangur verið lítill sem enginn. Ef maður hefur skilið rétt, hafa menn talið ástæðuna m.a. vera mjög "porous" og lek jarðlög kringum jökulinn. En hvað sem því líður, þá er athyglisvert að skoða á þessu korti að vestasti hluti Vestfjarða er talinn mjög kaldur. Maður spyr sig því um ástæður fyrir jarðhitanum í Tálknafirði.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 27.4.2012 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.