Koma stórir skjálftar í hrinum?

SkjálftarÞað er oft sem ég er spurður álits á því, hvort eldgos og jarðskjálftar komi í hrinum. Eru ekki miklu fleiri stórir skjálftar nú á jörðu en oftast áður? Ég hef hingað til svarað því neitandi, einfaldlega vegna þess, að það er ekkert í kenningum og hugmyndum okkar um skorpuhreyfingar og innri krafta jarðarinnar, sem gætu skýrt slíkar hrinur. Í staðinn fyrir að deila um hugsanlegar hrinur, þá vill ég að lesandinn skeri úr sjálf. Hér til hliðar er mynd sem sýnir alla stóra skjálfta (stærri en stærðargráðan 8) á jörðu frá því um 1900,  eða síðan mælingar hófust.  Dæmið þið nú sjálf.  Var eitthvað sérstakt að gerast í kringum 1960 til 1970, og svo aftur nú 2004 til 2011?  Þetta eru spennandi (og hættulegir) tímar sem við lifum á.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er greinilegt að tímabilið 2000 -2011 sker sig verulega úr og einnig er margir skjálftar 1940-64.

Er þetta að segja okkur eitthvað, eða er þetta bara tilviljun?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2011 kl. 23:12

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er einfaldlega of lítið til af gögnum til að skera úr um, hvort þetta sé hrein tilviljun, eða hvort það séu raunverulega tímabundnar hrinur í stórskjálftavirkni á jörðu.  Sjálfur hallast ég að tilviljun sem skýringu.

Haraldur Sigurðsson, 13.3.2011 kl. 12:37

3 identicon

Mér virðist sem að það sé kannski frekar rétt að líta þannig á að tímabilið 1970-2000 hafi verið óvenjulega rólegt þegar kemur að stórskjálftum fremur en að tímabilið frá aldamótum sé óvenju virkt.

Bjarki (IP-tala skráð) 23.3.2011 kl. 14:33

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það sem vakir fyrir mér hér er að benda á, að það eru hugsanlega hrinur eða sveiflur í tíðni stórskjálfta á jörðu.  Ef til vill er þetta algjör tilviljun, eða ef til vill eru raunverulegar hrinur í tíðni stórskjálfta. Ég held að gögnin sem eru sýnd hér fyrir ofan nái enn ekki yfir nægilega langan tíma til að vera óyggjandi og áreiðanleg.  Við þurfum lengra tímabil og meiri upplýsingar (alltaf sama sagan í vísindunum...).  Alla vega er dreifingin á stærð í tíma athyglisverð, og enn athyglisverðari þegar það er tekiðinn í dæmið, að það er ekkert í þekkingu okkar á flekahreyfingum á jörðu, sem bendir til þess, að hrinur getir komið fram um alla jörð á sama tíma.

Haraldur Sigurðsson, 23.3.2011 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband